is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/12834

Titill: 
  • Efnislegur einkaleyfaréttur. Þróun og samræming
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Veiting einkaleyfa er bæði elsta og mest notaða aðferðin við að veita uppfinningum vernd. Nauðsyn verndar á uppfinningum hefur vaxið með árunum og einkaleyfi eru nú einn af horsteinum nýsköpunar á sviði iðnaðar og stuðla að stöðugri þróun, meðal annars í atvinnurekstri.
    Uppfinning er skilgreind sem nýsmíð með tæknilegu ívafi sem byggð er á mannlegri hugsun. Munurinn á uppfinningu, sem getur verið einkaleyfishæf, og uppgötvun, sem er það ekki, er að uppfinning felst í sköpun á einhverju nýju meðan uppgötvun á við um tilvik þegar menn komast að raun um áður óþekkt náttúrufyrirbæri eða náttúrulögmál. Uppgötvanir eru ekki einkaleyfishæfar þar sem talið er að allir eigi jafnan rétt á að njóta þess sem fyrirfinnst í náttúrunni.
    Samkvæmt einkaleyfalögum nr. 17/1991 vernda einkaleyfi tæknilega útfærslu hugmyndar ásamt því sem þau vernda aðferð eða notkun og eru þau veitt fyrir uppfinningar sem eru nýjar, frumlegar og hæfar til framleiðslu. Mikilvægt er að uppfinning sé tæknilega framkvæmanleg, þ.e. að hægt sé að endurtaka hana með þeim hætti að sama niðurstaða fáist og einnig þarf hún að fela í sér lausn á vandamáli. Með lausn á vandamáli er átt við að uppfinning verður að hafa tilgang, þ.e. leysa vandamál með löglegri nýtingu á efni úr náttúrunni.
    Einkaleyfi veitir eiganda þess einkarétt til að nota uppfinningu sína í tiltekinn tíma. Hann öðlast þannig forskot á aðra aðila á markaðinum þar sem þeim er óheimilt að brjóta á þessum rétti hans. Einkaleyfi virkar þannig einnig sem hvatning til að leita nýrra lausna á vandamálum án þess að brjóta gegn einkaleyfarétti annarra. Einkaleyfi eru því bæði vernd og hvatning því þau fela í sér viðurkenningu fyrir uppfinningamann ásamt möguleika á fjárhagslegum ávinningi.
    Einkaleyfi urðu strax umdeild þegar notkun þeirra hófst og hefur svo verið alla tíð síðan. Fyrst um sinn, meðan uppfinningamenn sóttust aðallega eftir einkaleyfisvernd í heimalandi sínu snérust deilurnar að mestu leyti um hvort veiting einkaleyfis væri réttlætanleg eða yfirhöfuð nausynleg. Eftir því sem alþjóðleg samskipti og samvinna tóku að aukast jókst jafnframt þörfin fyrir vernd á einkaleyfum sem næði út yfir landamæri. Þegar þar var komið var flestum orðið ljóst mikilvægi einkaleyfaréttarins og deilan um hvort verndun einkaleyfa væri nauðsynleg vék fyrir deilum um hvernig best væri að tryggja þessa vernd.
    Til þess að einkaleyfi þjóni tilgangi sínum er óhjákvæmilegt að koma á samræmdum alþjóðlegum reglum til að auðvelda uppfinningamönnum að öðlast vernd á uppfinningum sínum í fleiri en einu landi. Að öðrum kosti væru einkaleyfi augljóslega tilgangslaus. Eins leiðir alþjóðleg samvinna á sviði einkaleyfaréttar til þess að hægt er samnýta stofnanir, svo sem við nýnæmisrannsóknir, og koma þannig í veg fyrir að einkaleyfastofur í mismunandi löndum séu að gera nýnæmisrannsóknir vegna sömu uppfinnningar eða umsóknar um einkaleyfi.
    Reglur á sviði einkaleyfaréttar skiptast í grófum dráttum í formreglur og efnisreglur. Formreglur eru reglur sem mæla fyrir um verklag sem stjórnvöldum ber að fylgja áður en þau taka ákvörðun að veita einkaleyfi eða synja um það. Þeim er meðal annars ætlað að tryggja að mál séu þannig undirbúin að sem mestar líkur séu til þess að rétt efnisleg niðurstaða fáist. Á sviði einkaleyfaréttar má nefna sem dæmi nýnæmisrannsóknir og rannsóknir á notkunargildi. Með hinum svokallaða TRIPS samningi og samstarfssáttmálanum um einkaleyfi (e. „Patent Cooperation Treaty“ (PCT)) náðist samkomulag um gott upphaf á samræmingu formreglna.
    Efnisreglur eru hins vegar þær reglur sem mæla fyrir um efnislegan rétt eða skyldur. Til að markmið samræmingar á sviði einkaleyfaréttar náist er ekki nóg að hún nái einungis til formreglna heldur þarf ákveðin samræming á efnisreglum einnig að vera fyrir hendi. Þótt samræming formreglna sé komin vel á veg er ekki hægt að segja hið sama um efnisreglur. Deilt hefur verið um með hvaða hætti sé best að standa að samræmingu og yfir hvaða svið samræming skuli ná. Hér á eftir verður leitast við að skýra þá þróun sem hefur átt sér stað á sviði einkaleyfaréttar og hvaða skref hafa verið tekin til að stuðla að aukinni samræmingu á þessu sviði. Bandaríkin hafa löngum skorið sig úr og farið aðrar leiðir við veitingu einkaleyfa en aðrar þjóðir. Í ljósi þess hversu áhrifamikil Bandaríkin eru á alþjóðlegum markaði er óhjákvæmilegt að leggja áherslu á þær breytingar sem þar hafa átt sér stað ásamt þeim breytingum sem nauðsynlegar þykja til að ná þeim markmiðum samræmingar sem lagt var upp með hjá alþjóðlegum stofnunum á sviðið einkaleyfaréttar svo sem Alþjóðahugverkastofnuninni, Alþjóðaviðskiptastofnunni, Evrópskur einkaleyfastofunni og fleirum.

Samþykkt: 
  • 5.9.2012
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/12834


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
MA rigerð audur anna HI2012.pdf901.95 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna