is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/13942

Titill: 
  • Útkoma sjúklinga: Endurnýting gagna til að varpa ljósi á gæðavísinn endurinnlagnir
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Endurinnlagnir sjúklinga eru íþyngjandi fyrir þá og heilbrigðiskerfið í heild. Endurinnlagnir eru allt að helmingi allra innlagna á sjúkrahús og bera um 60% af kostnaði við heilbrigðiskerfið. Mikilvægt er að leita leiða við að greina ástæður eða áhættuþætti endurinnlagna ef möguleiki á að vera á að fyrirbyggja þær.
    Tilgangur rannsóknarinnar var tvíþættur: 1) að meta hvort hægt sé að nota tölfræðilega gæðastýringu til að skoða gæðavísa í heilbrigðisþjónustu út frá aðferðum gæðastjórnunar. Í þessum tilgangi var gæðavísinn endurinnlagnir skoðaður; 2) að skoða hvernig sjúklingum, sem eru endurinnlagðir eða ekki endurinnlagðir á sjúkrahús, er lýst í skráðum gögnum og hvort einhver af þeim breytum hafi forspárgildi varðandi útkomu á gæðavísinum og hvort fylgni sé milli breyta og endurinnlagna eða ekki endurinnlagna. Í þeim tilgangi voru aðgengileg gögn er tilheyra lágmarksgagnasafni hjúkrunar (e. Nursing Minimum Data Set, NMDS) skoðuð sem og önnur valin gögn úr rafrænni sjúkraskrá.
    Gerð var afturvirk lýsandi fylgnirannsókn á gögnum sjúklinga sem lögðust inn á Landspítala (LSH). Úrtökin voru tvö, allir sjúklingar 18 ára og eldri sem lögðust inn á 1) sérgreinar Skurð- og Lyflækninga á LSH á árunum 2008, 2009 og 2010 (N1= 47,513) og 2) sérgreinar almennra- og þvagfæraskurðlækninga og meltinga- og nýrnalækninga á LSH á tímabilinu 01.12.2011-31.01.2012 og voru endurinnlagðir eða ekki innan 30 daga frá útskrift (N2=439).
    Niðurstöður sýndu að endurinnlögnum fjölgaði á Skurð- og Lyflækninga-sviðum LSH úr 5,3% í 6,5% á árunum 2008-2010. Stýririt tölfræðilegrar gæðastýringar fangaði vel breytingar á endurinnlagnatíðni einstakra sérgreina og varpaði um leið sýn á breytingar á tíðni endurinnlagna á skýran hátt. Tíðni endurinnlagna í seinna úrtaki var 15,4%. Endurinnlagnir voru algengari hjá konum (18,9%) en körlum (14,1%) og endurinnlagnarhlutfall kvenna/karla var 60,3/39,7%. Endurinnlagnir voru algengastar hjá aldurshópnum 40-49 ára eða 21,5%. Tíðni endurinnlagna var algengust hjá fráskildum að lögum (29,6%) og höfuðborgarbúum (21,0%) samanborðið við einstaklinga í öðrum hjúskapar-stöðum (0,0-15,3%) og sjúklinga búsetta úti á landi (0,0-14,8%). Helstu skráð hjúkrunarvandamál sjúklinga er lögðust inn á LSH tengdust líðan (85,2%) þ.m.t. verkjum, öðru (80,6%) s.s. undirbúningi fyrir aðgerð, rannsókn eða útskrift og næringu og efnaskiptum (78,3%). Gerð var lógarithmalínuleg aðhvarfs-greining til að spá fyrir um líkur sjúklinga á endurinnlögnum. Sett voru fram tvö líkön og breytur líkananna voru skoðaðar með framvirku vali. Í fyrra líkaninu voru fráskildir sjúklingar (OR=1,934, p=0,047) sem ekki voru hjúkrunarþyngdar-flokkaðir á útskriftardegi (OR=2,432, p=0,001) og bjuggu á höfuðborgarsvæðinu (OR=1,852, p=0,024) líklegri til að endurinnleggjast en þeir sem voru ekki fráskildir, hjúkrunaþyngdarflokkaðir á útskriftardegi og bjuggu á landsbyggðinni. Í módeli tvö voru sjúklingar sem voru flokkaðir í hjúkrunarþyngdarflokk III á útskriftardegi (OR=2,769, p=0,014) líklegri til að endurinnleggjast en þeir sem voru flokkaðir í aðra hjúkrunarþyngdarflokka.
    Rannsóknin sýndi að tölfræðileg gæðastýring þ.e. að mæla stöðugt gæðaviðmið/-vísi, sem er í raun forsenda gæðastarfs, er hentugt verkfæri til að vakta gæði í heilbrigðisþjónustu ekki síður en í annarri þjónustu. Mikilvægt er þó að gera sér grein fyrir að gæðastýring hjálpar ekki til við að laga vandamál, aðeins við að greina þau (Gryna, Chua og Defeo, 2007). En mikilvægt er fyrir fyrirbyggingu eða lausn vandamála í þessu tilviki endurinnlagna að finna orsakir þeirra. Í rannsókninni voru greind ýmis einkenni endurinnlagðra sjúklinga sem og áhættuþættir fyrir endurinnlögnum. Niðurstöður þessarar rannsóknar samrýmast sumum rannsóknum á endurinnlögnum en eru frábrugðnar öðrum.
    Lykilorð: Upplýsingatækni í hjúkrun, skráning hjúkrunar, gæði, gæðavísar, gæðastjórnun, útkomur sjúklinga, endurinnlagnir sjúklinga.

Styrktaraðili: 
  • Rannsóknin hlaut styrk úr vísindasjóði Landspítala
Samþykkt: 
  • 5.2.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/13942


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hanna Kristín lokaskil.pdf4.62 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna