is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/144

Titill: 
  • Reynsla unglinga og foreldra af verkefninu "Hugsað um barnið"
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna reynslu unglinga og foreldra þeirra af verkefninu Hugsað um barnið (HUB), sem er forvarnarverkefni ætlað fyrir 8. bekk grunnskóla. Verkefnið byggist á því að unglingar fá raunveruleikabarn með sér heim yfir eina helgi. Barninu er stýrt með innbyggðri tölvu og á það að vera sem líkast um 6 vikna gömlu barni. Það grætur, hjalar, gerir í bleyju og heimtar mat hvenær sem er sólarhringsins. Með umönnun barnsins fá unglingarnir að upplifa kvaðir foreldrahlutverksins án þess að raunverulegt barn sé lagt í hættu. Markmið verkefnisins HUB eru m.a. að byggja upp reynslu sem mun endast til langframa af því hversu erfitt það getur verið að verða foreldri þetta ungur. Með því er vonast til að unglingurinn verði upplýstari og ábyrgðafyllri varðandi kynlíf og fresti fyrstu kynlífsreynslunni. Eins er vonast til að verkefnið auki samskipti unglinga og foreldra.
    Rannsóknin byggir á eigindlegri rannsóknaraðferð þar sem notast var við rýnihópa. Úrtaksaðferð var þægindaúrtak. Tekin voru 3 hópviðtöl, einn hópurinn samanstóð af 5 stúlkum, annar af 5 drengjum og í þriðja hópnum voru 7 foreldrar þeirra. Unglingarnir áttu það sameiginlegt að vera í 10. bekk í grunnskóla í Reykjanesbæ og tóku þátt í verkefninu HUB haustið 2004. Úrvinnsla gagna fólst í því að greina og túlka innihald viðtalanna. Viðtölin voru greind í meginþemu og undirþemu og þau studd með beinum tilvitnunum frá þátttakendum.
    Niðurstöður rannsóknarinnar voru greindar í 4 meginþemu, þ.e. barnið, fræðsla um kynlíf, þunganir og ábendingar um HUB. Fram kom að þátttakendum þótti verkefnið eftirminnilegt. Það hjálpaði þeim að sjá hversu erfitt það getur verið að eignast barn á unglingsárunum og allir unglingarnir voru sammála um að þeir teldu sig ekki verða tilbúna í barneignir á næstunni. Hinsvegar kom ekki greinilega fram hvort verkefnið HUB hafði þau áhrif að fá unglingana til að fresta fyrstu kynlífsreynslunni. Foreldrarnir voru almennt ánægðir með verkefnið. Mörgum fannst það hafa góð áhrif á samskipti þeirra við unglingana og á sumum heimilum opnaði það fyrir umræður um kynferðismál. Flestir þátttakendur voru sammála um að kynfræðsla væri of lítil í skólanum. Einnig kom fram að mörgum þátttakendum þótti verkefnið HUB vera of langt og sumum þótti unglingarnir vera of ungir þegar þeir tóku þátt.
    Álykta má útfrá niðurstöðunum rannsóknarinnar að HUB sé gagnlegt verkefni sem hvetji til aukinna umræðna milli foreldra og unglinga og hjálpi unglingum að sjá hversu erfitt það er að verða foreldri á unglingsárunum.
    Lykilhugtök: Foreldrar, forvarnir, Hugsað um barnið, samskipti og unglingar.

Samþykkt: 
  • 1.1.2007
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/144


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hugsað um barnið.pdf3.45 MBOpinnHeildarskráPDFSkoða/Opna