is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14622

Titill: 
  • Áhrif efnatoghemla í bráða og langvinnu hvítblæði. Getur lyfið Plerixafor haft áhrif á útþroskun hvítblæðisfruma?
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Hvítblæði er illkynja sjúkdómur í blóðmyndandi frumum líkamans sem einkennist af offjölgun hvítra blóðkorna í beinmerg af mismunandi þroskastigi eftir tegund hvítblæðis. Illkynja frumur hvítblæðis eru ýmist af mergfrumu eða eitilfrumu uppruna og getur krabbameinið annað hvort verið brátt eða langvinnt. Meðferðarúrræðum er ábótavant einkum fyrir fullorðna einstaklinga með bráða hvítblæði þar sem aðeins 30 – 50% sjúklinga læknast.
    Efnatogviðtakinn CXCR4 og bindill hans CXCL12 gegna mikilvægu hlutverki í nýmyndun og viðhaldi blóðfruma. Við bindingu CXCR4 við CXCL12 færast óþroskaðar frumur í nærumhverfi beinmergsins þar sem þær fá að vaxa í friði. Í sjúkdómsástandi eins og hvítblæði gefur þessi binding illkynja frumum vernd frá frumudrepandi krabbameinslyfjum. Plerixafor er fyrsta lyfið sem hindrar bindingu CXCL12 við CXCR4 sem samþykkt var á markaðnum. Í fyrstu var lyfið notað í meðferð gegn HIV en í dag er lyfið aðallega notað fyrir stofnfrumuskipti en það ýtir stofnfrumum úr beinmergnum og út í blóðrásina þar sem þeim er safnað saman. Nýjustu notkunarmöguleikar lyfsins eru að losa hvítblæðisfrumur úr nærumhverfi beinmergsins út í blóðrásina þar sem krabbameinslyf ná til þeirra og drepa.
    Markmið þessarar rannsóknar var að skoða hvaða áhrif efnatoghemillinn Plerixafor hefur á hvítblæðisfrumur með því að skoða samspil lyfsins við önnur krabbameinslyf og athuga hvort lyfið hafi áhrif á útþroskun hvítblæðisfrumanna.
    Fyrir rannsóknina var hannað frumuræktunarmódel út frá lyfjanæmisprófi þar sem styrkir krabbameinslyfjanna Cytarabine og Idarubicin voru ákveðnir. Stýrður frumudauði var mældur með flúorlitunum Annexin V FITC og Propidium iodide (PI) í frumuflæðisjá. Til að rannsaka útþroskun fruma var sett upp kólóníurækt auk þess sem litað var með mótefnalitum fyrir sameindum sem einkenna þroskaðar frumur.
    Niðurstöður rannsóknarinnar sýna fram á hæfni Plerixafor til að auka stýrðan frumudauða hvítblæðisfruma. Einnig eru vísbendingar um möguleg áhrif Plerixafor á aukna útþroskun AML fruma með kólóníuræktun. Svipgerð hvítblæðisfruma breytist lítið nema þá CD 184 (CXCR4) sem breytist eftir því hvort frumurnar voru ræktaðar með eða án Plerixafor en lyfið bindst CD 184. Plerixafor virkar betur á illkynja frumur í bráða hvítblæði heldur en illkynja frumur í langvinnu hvítblæði.
    Frekari rannsóknir þarf að gera til að sannreyna þessar niðurstöður en þær gefa vísbendingu um að í náinni framtíð verði hægt að gefa sjúklingum með bráða hvítblæði Plerixafor samhliða hefðbundinni krabbameinslyfjameðferð.

Styrktaraðili: 
  • Styrkur fékkst frá Vísindasjóði Landspítala fyrir vinnslu þessa verkefnis 2010.
Samþykkt: 
  • 2.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14622


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð Snædís Birna Björnsdóttir.pdf959.19 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna