is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/14817

Titill: 
  • Inntak umgengni. Rannsókn á úrskurðum og staðfestum umgengnissamningum hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 2004 og árin 2008-2012
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Það er staðreynd að foreldrar barns búa ekki alltaf saman. Ástæður þess eru margvíslegar, m.a. hjónaskilnaður, sambúðarslit eða að foreldrar barns hafi aldrei búið saman. Við slíkar aðstæður reynir á reglur um það hvernig haga beri umgengni við það foreldri sem barnið býr ekki hjá. Gengið er út frá því samkvæmt íslenskum rétti að umgengnisréttur sé gagnkvæmur réttur barns og þess foreldris sem það býr ekki hjá, og nýtur hann verndar 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og 1. mgr. 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Umgengni nýtur einnig verndar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, en samninginn ber að hafa að leiðarljósi við alla nánari útfærslu á réttindum barna. Þá er kveðið á um umgengnisrétt o.fl. í VIII. kafla barnalaga nr. 76/2003 með síðari breytingum.
    Undanfarna áratugi hefur áhersla á sameiginlega ábyrgð foreldra á uppeldi barns almennt aukist. Með þeirri auknu áherslu má ætla að inntak umgengni hafi aukist. Rannsóknir, bæði hérlendis og á Norðurlöndunum, benda til að þeim tilvikum fjölgi þar sem börn dvelja jafnt hjá hvoru foreldri, eða í viku í senn. Úrskurðum og staðfestum samningum, þar sem kveðið er á um inntak umgengni, hefur og farið fjölgandi milli ára. Af þessu má draga þá ályktun að æ fleiri börn njóti reglubundinnar umgengni við það foreldri sem það býr ekki hjá.
    Í barnalögunum eru ekki reglur um inntak umgengninnar, heldur er gert ráð fyrir því að umgengni sé ákveðin eins og best hentar hag og þörfum hvers barns í hverju tilviki. Gera má ráð fyrir að tilhögun umgengni barns við foreldri sé með ýmsu móti. Oftast semja foreldrar sín á milli um hvert inntak umgengni skuli vera. Telja verður slíkt heppilegast og það sé börnum almennt fyrir bestu að sátt ríki milli foreldranna um tilhögun umgengni, en góð samskipti foreldranna hafa afar jákvæð áhrif á líf barns. Þá hafa foreldrar val um hvort þeir leiti staðfestingar sýslumanns á samningnum. Ríki ágreiningur um tilhögun umgengninnar er hægt að leita til sýslumanns og óska eftir úrskurði um inntak hennar, auk þess sem dómstólar hafa heimild til að kveða á um umgengni þegar forsjár- eða lögheimilismál er til meðferðar hjá þeim. Hins vegar er ekki hægt að höfða sjálfstætt umgengnismál fyrir dómstólum samkvæmt núgildandi barnalögum.
    Meginviðfangsefni þessarar ritgerðar er að skoða inntak umgengni. Í því skyni gerði höfundur hennar rannsókn á inntaki umgengni í staðfestum samningum og úrskurðum hjá sýslumanninum í Reykjavík árið 2004 og árin 2008 til 2012. Samtals voru skoðuð 547 mál, þar af voru 372 staðfestir samningar og 175 úrskurðir. Umfangsins vegna var ekki hægt að greina dóma með sama hætti en vísað verður til dómaframkvæmdar til nánari skýringar þegar við á. Markmið þessarar rannsóknar var að varpa ljósi á það hvert sé inntak umgengni, þ.e. hvernig algengast hafi verið að semja og úrskurða um inntak umgengni, og varpa ljósi á það hvort umgengni hafi aukist og hversu algengt sé að foreldrar semji um jafna umgengni. Inntak reglulegrar umgengni var skoðað sem og umgengni í sumarleyfum og á stórhátíðum. Athyglisvert er að sjá hvort umgengni hafi verið að aukast og hvort foreldrar semji almennt um rýmri umgengni heldur en ákvörðuð er í úrskurðum sýslumanns og hvort að löggjöf hafi haldist í hendur við þær breytingar sem orðið hafa í samfélaginu í takt við þá umgengni sem foreldrar eru að semja um. Þá var litið til þess hvort þeir samningar sem sýslumaður staðfestir séu nægilega skýrir.
    Í kafla tvö verður gerð grein fyrir meginreglum íslenskra laga um umgengni. Fyrst verður vikið að þróun íslenskra laga um umgengni og hugtökin umgengni, forsjá og búseta skilgreind. Gerð verður grein fyrir þeim grundvallarreglum sem gilda um umgengni hér á landi og í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, auk þess sem fjallað verður um hvernig umgengnismál ganga fyrir sig hér á landi. Í þriðja kafla verður fjallað um þau ákvæði sem gilda um inntak umgengni. Gerð verður grein fyrir þeim viðmiðum og sjónarmiðum sem líta ber til við ákvörðun á inntaki umgengni auk þess sem fjallað verður um jafna umgengni. Þá verður einnig vikið að þeim reglum sem gilda um inntak umgengni í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í fjórða kafla verður svo gerð grein fyrir þeim niðurstöðum og upplýsingum sem rannsókn á úrskurðum og staðfestum umgengnissamningum hjá sýslumanninum í Reykjavík á áðurnefndum árum leiddi í ljós. Í fimmta kafla verða síðan helstu niðurstöður dregnar saman í umræðum og samantekt.

Samþykkt: 
  • 6.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/14817


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsíða.pdf105.12 kBOpinnKápaPDFSkoða/Opna
Inntak umgengni(1).pdf2.49 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna