is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15086

Titill: 
  • Tjáning TTF-1, CK7 og CK20 með mótefnalitun í mismunandi krabbameinum
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Mótefnalitanir hafa verið notaðar við greiningar á krabbameinum í mörg ár og er mjög mikilvæg rannsóknaraðferð til þess að geta gefið auknar upplýsingar við venjubundið mat á útliti vefjarins. Mótefnalitanir á vefjum hafa einnig verið notaðar til þess að hjálpa meinafræðingum við mat á meinvörpum m.t.t. líklegs upphafsstaðs æxlis, einkum litanir með CK7 og CK20. Þessi greining getur hinsvegar verið erfið þar sem mótefni eru ekki sértæk eða fullkomlega næm fyrir staðsetningu meinsins. TTF-1 er mótefni sem talið var mjög sértækt og næmt í þessum tilgangi, einkum í lungnakrabbameini og skjaldkirtilskrabbameini en vísbendingar hafa þó komið undanfarið um að ekki sé um eins sértæka eða næma mótefnalitun að ræða og áður var talið.
    Markmið: Megin markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á breytileika í litunarniðurstöðum með því að athuga litamynstur í mismunandi æxlum með mótefnunum TTF-1, CK7 og CK20, sem eru þær megin mótefnalitanir sem nú eru í notkun til hjálpar meinafræðingum við ákvörðun upphafsstaðar æxlis.
    Efni og aðferðir: Fundin voru fram 61 krabbamein á Rannsóknarstofu í meinafræði á LSH og þau lituð með mótefnunum TTF-1, CK7 og CK20 auk þess sem H&E litun var framkvæmd á öllum sýnum. Æxlistegundir sem notaðar voru við rannsóknina voru lungnakrabbamein (smáfrumu-, kirtilmyndandi-, flöguþekju- og stórfrumukrabbamein), nýrnakrabbamein, ristilkrabbamein, brjóstakrabbamein, briskrabbamein, magakrabbmein, blöðruhálskirtilskrabbamein og eggjastokkakrabbamein (endometrioid, serous og mucinous). Sýnin voru metin eftir styrkleika og dreifanleika litunarinnar í fjóra mismunandi flokka: sterk og dreifð litun, sterk og staðbundin litun, veik og dreifð litun og veik og staðbundin litun.
    Niðurstöður: Tjáning TTF-1 greindist í smáfrumukrabbameini, kirtilmyndandi krabbameini og stórfrumukrabbameini í lungum í 80-83% tilfella en í 20% tilfella í flöguþekjukrabbameini. Einnig var TTF-1 að greinast jákvætt í briskrabbameini (20%), magakrabbameini (20%), blöðruhálskirtilskrabbameini (40%) og í endometrioid (66%), serous (50%) og mucinous æxlum eggjastokka. Tjáning CK7 greindist í 100% tilfella í kirtilmyndandi krabbameini og stórfrumukrabbameini lungna ásamt brjóstakrabbameini en engin tjáning CK7 greindist í ristilkrabbameini. Í nýrnakrabbameinum var CK7 jákvætt í 80% tilfella og í mucinous æxlum eggjastokka í 66% tilfella. Í fjórum af fimm vefjasýnum frá blöðrhálskirtilskrabbameini reyndust æxlin neikvæð fyrir CK7 en mestur hluti af eðlilegum blöðruhálskirtilsvef var að litast sterkt jákvæður. CK20 sýndi fram á tjáningu í lungnakrabbameinum (kirtilkrabbameini 20% og stórfrumukrabbameini 20%) og töluvert hátt hlutfall greindist í magakrabbameinum (80%). CK20 var jákvætt í 100% tilfella í ristilkrabbameini og mucinous æxlum eggjastokka.
    Ályktun: Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að mótefnið TTF-1 sé að litast í einhverjum hluta æxla utan lungna og skjaldkirtils sérstaklega í blöðruhálskirtilskrabbameini og eggjastokkakrabbameini. Vert er að athuga þetta enn frekar með því að auka fjölda sýna og auka þannig áreiðanleika þessara niðurstaðna.

Samþykkt: 
  • 13.5.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15086


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaverkefni TTF-1, CK7 og CK20 - PDF.pdf1.2 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna