is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15373

Titill: 
  • Addison-sjúkdómur á Íslandi, algengi, meðferð og tíðni annarra sjúkdóma hjá þessum sjúklingahóp
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sjúkdómur Addisons (Mb. Addison) er sjaldgæfur sjúkdómur sem m.a. veldur skorti á barksterum í líkamanum. Það ástand er lífshættulegt án meðferðar, enda getur þá líkaminn ekki brugðist við auknu álagi. Fyrri rannsóknir hafa sýnt að meginorsök þessa sjúkdóms hefur breyst frá því honum var fyrst lýst, frá berklum yfir í sjálfnæmi. Rannsóknir benda til að algengi sjúkdómsins sé á bilinu 39-140 á hverja milljón. Þegar sjúkdómurinn er ómeðhöndlaður eru blóðgildi kortisóls mikið lækkuð og blóðgildi nýrilbarkarvaka (ACTH) mikið hækkuð. Þá eru blóðgildi kalíums oft hækkuð og natríums lækkuð. Greining Mb. Addison fæst með blóðprufum og er staðfest með Synacthen-prófi og mótefnamælingum. Meðferð við Mb. Addison miðar að því að bæta sjúklingum upp skortinn á barksterum. Í upphafi voru jafnan gefnir langvirkir sterar, en nýrri rannsóknir ráðleggja meðferð með skammvirku kortisoni í nokkrum dagsskömmtum, til að líkja eftir náttúrulegu ferli blóðstyrks kortisóls. Þekkt er að tilvist eins sjálfnæmissjúkdóms eykur líkur á tilvist annars. Loks hefur verið sýnt fram á að sjúklingar með Mb. Addison hafa hærri dánartíðni en almennt þýði. Markmið rannsóknarinnar var að kanna algengi Mb. Addison, skoða hvaða meðferð sjúklingarnir fá, og kanna hvaða aðrir sjúkdómar eru algengir í þessum hópi.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var þverskurðarrannsókn og náði til allra þeirra sem eru í eftirliti vegna Mb. Addison á Íslandi. Þýði rannsóknarinnar voru allir núlifandi Íslendingar, 18 ára og eldri. Gagna var aflað úr sjúkraskrám LSH og FSA, auk þess sem upplýsinga var aflað frá þeim sjálfstætt starfandi innkirtla- og efnaskiptalæknum sem sinna fullorðnum sjúklingum. Leitað var að þeim sem fengið höfðu greiningarnúmerið E27 skv. ICD-10. Sjúklingar með síðkomnar nýrilbarkarbilanir voru útilokaðir.
    Niðurstöður: 53 einstaklingar fundust með frumkomna nýrilbarkarbilun. Meðferð var með skammvirkum barksterum hjá 79% sjúklinganna og langvirkum barksterum, hjá 15%. Þá fengu 81% aldósterónuppbót með flúdrókortisóni. Kortisóluppbótarmeðferðar var ekki getið hjá 4% sjúklinga. Auk Mb. Addison reyndust 21 (40%) hafa skjaldvakabrest, 9 (17%) höfðu háþrýsting, 7 (13%) höfðu fengið krabbamein, 6 (11%) höfðu asma, 5 (9%) höfðu B-12 skort, 5 (9%) voru þunglyndir, 4 (8%) höfðu sykursýki af tegund 1.
    Ályktun: Rannsóknin bendir til að Mb. Addison sé algengari en talið var. Tíðast er að meðferð sjúkdómsins sé með skammvirkum sykursterum, sem gefa þarf í nokkrum dagsskömmtum. Sjúkdómar tengdir innkirtlum eða ónæmiskerfi eru algengir í sjúklingum með Mb. Addison.

Samþykkt: 
  • 3.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15373


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Addison-sjúkdómur á Íslandi, algengi, meðferð og tíðni annarra sjúkdóma hjá þessum sjúklingahóp.pdf699.08 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna

Athugsemd: Fyrirhugað er að birta niðurstöður rannsóknarinnar í erlendu vísindatímariti, og er óskað eftir að verkefnið sé læst í ár, þar sem erlend vísindatímarit taka ekki greinar til birtingar sem hafa birst annars staðar.