is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15387

Titill: 
  • Langtímaáhrif offitumeðferðar á þyngd, andlega líðan og lífsgæði
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Offita er alvarlegt og ört vaxandi heilbrigðisvandamál á Vesturlöndum. Erfitt hefur reynst að finna árangursrík inngrip gegn offitu; magahjáveituaðgerðir eru einu inngripin sem gefið hafa góðan og langvarandi árangur. Þau meðferðarúrræði sem helst er beitt gegn offitu eru atferlismiðuð inngrip sem ætlað er að fá fólk til að taka upp hollara matarræði og hreyfa sig meira, en árangur af slíkum inngripum hefur reynst takmarkaður og flestir sem ljúka slíkum meðferðum þyngjast að nýju þegar meðferð lýkur. Frá árinu 2007 hefur á Fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað (FSN) verið rekin þverfagleg offitumeðferð sem felst í hugrænni atferlismeðferð, næringarráðgjöf og atferlisvirkjun til að auka hreyfingu sjúklinga. Gerð var rannsókn á langtímaárangri meðferðarinnar á þyngd, kvíða, þunglyndi og lífsgæði. Notast var við hálftilraunasnið með fyrir- og eftir- mælingum, án samanburðarhóps (quasi-experimental pre-post design without control group). Þátttakendur voru 127 sjúklingar sem lokið höfðu offitumeðferð á FSN. Af þessum 127 sjúklingum voru 88 sem höfðu mælingar fyrir tveggja ára tímabil á þyngd, 70 á þunglyndi, 67 á kvíða og 61 á lífsgæðum. Markmiðið var að meta hvort árangur meðferðar væri enn til staðar tveimur árum eftir að meðferð lýkur, og einnig að meta hvort slíkur árangur sé til staðar hjá þeim sjúklingum sem ekki gengust undir magahjáveituaðgerð. Notast var við fyrirliggjandi meðferðargögn auk gagna sem safnað var árið 2012 frá öllum sjúklingum sem lokið höfðu meðferð frá 2007. Notast var við dreifigreiningu endurtekinna mælinga (Repeated measures ANOVA) til að meta breytingar á gildum meðferðarbreyta yfir tíma, fyrst hjá þátttakendum í heild sinni, og síðan aðskilið fyrir þá sem höfðu farið í hjáveituaðgerð og þá sem ekki höfðu farið í slíka meðferð. Niðurstöður sýndu að þyngd, kvíði og þunglyndi voru marktækt lægri, og lífsgæði marktækt meiri, hjá sjúklingum við tveggja ára eftirfylgd en við upphaf meðferðar. Hjá sjúklingum sem ekki gengust undir hjáveituaðgerð voru þyngd og þunglyndi martækt lægri, og lífsgæði marktækt hærri, hjá sjúklingum við tveggja ára eftirfylgd en við upphaf meðferðar. Ekki var marktækur munur á kvíða fyrir meðferð og við tveggja ára eftirfylgd hjá sjúklingum sem ekki höfðu gengist undir hjáveituaðgerð. Árangur meðferðar var ennþá merkjanlegur við tveggja ára eftirfylgd, en niðurstöður benda til þess að þyngd, þunglyndi, kvíði og lífsgæði hafi tilhneigingu til að leita aftur í fyrri gildi eftir að meðferð lýkur. Niðurstöður benda til þess að leggja þurfi meiri áherslu á meðferð við þunglyndi og kvíða sem hluta af offitumeðferð, einkum í eftirfylgd.

Samþykkt: 
  • 3.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15387


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
candpsychbkg2013.pdf1.22 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna