is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15473

Titill: 
  • Sykursýki og árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sykursýki er einn af helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóms og þessir sjúklingar þurfa oft að gangast undir kransæðahjáveituaðgerð vegna útbreiddra kransæðaþrenginga. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna áhrif sykursýki á bæði snemmkominn og langtíma árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi á 12 ára tímabili. Efniviður og aðferðir: Rannsóknin er afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Landspítala frá 1. janúar 2001 til 31. des. 2012. Af 1622 sjúklingum voru 261 greindir með sykursýki (16%) og voru þeir bornir saman við 1365 sjúklinga án sykursýki. Einnig var litið sérstaklega á árangur þeirra sykursjúku sjúklinga (4%) sem voru á insúlíni. Forspárþættir dauða innan 30 daga voru metnir með aðhvarfsgreiningu og langtímalifun með aðferð Kaplan-Meier. Niðurstöður: Sjúklingar með sykursýki reyndust sambærilegir viðmiðunarhópi hvað varðar aldur, kyn, EuroSCORE, kreatínín fyrir aðgerð, og hlutfall aðgerða sem gerðar voru á sláandi hjarta (21%). Hlutfall sjúklinga með vinstri höfuðstofnssjúkdóm og/eða þriggja æða sjúkdóm reyndist einnig sambærilegt í báðum hópum. Sjúklingar með sykursýki höfðu lægra útfallsbrot vinstri slegils (53% sbr. 55%, p<0.01), hærri líkamsþyngdarstuðul (29,6 sbr. 27,9 kg/m2, p<0,01), oftar háþrýsting (82% sbr. 60%, p<0,01) og sögu um nýrnabilun (9% sbr. 3%, p<0,01). Auk þess var aðgerðartími þeirra 16 mín lengri (p<0,01). Tíðni djúpra bringubeinssýkinga, heilaáfalls og hjartadreps var sambærilegt í báðum hópum en nýrnabilun samkvæmt RIFLE-skilmerkjum var marktækt algengari hjá sykursjúkum (4% sbr. 1%, p<0,01). Minniháttar fylgikvillar(gáttatif, lungnabólga, þvagfærasýking og yfirborðssýking í skurðsári) voru hins vegar svipaðir í báðum hópum. Dánartíðni innan 30 daga var martækt hærri hjá sjúklingum með sykursýki, eða 4,6% borið saman við 1,9% í viðmiðunarhópi (p<0,01). Fyrir sjúklinga á insúlíni höfðu 20% sögu um nýrnabilun fyrir aðgerð, hlutfall kvenna var hærra en hjá sykursjúkum sem ekki tóku insúlín (32% sbr. 17%, p<0,01) og dánartíðni innan 30 daga var 7,7%. Við fjölþátta aðhvarfsgreiningu reyndist sykursýki sjálfstæður forspárþáttur dauða innan 30 daga (ÁH 2,33, 95% ÖB: 1-5,2, p=0,04). Sjúkdómssértæk lifun sykursýkissjúklinga reyndist marktækt verri eftir aðgerð, bæði eftir 5 (91,2% sbr. 95,6%, p <0,01) og 10 ár (87,7% sbr. 90,9%, p < 0,01). Ályktanir: Sjúklingar með sykursýki fá oftar alvarlega fylgikvilla eftir aðgerð og dánartíðni þeirra innan 30 daga eftir aðgerð er rúmlega tvöfalt hærri, aðallega vegna hærri tíðni nýrnaskaða. Langtímalifun er einnig marktækt verri.

Samþykkt: 
  • 5.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15473


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sykursýki og árangur kransæðahjáveituaðgerða á Íslandi.pdf928.99 kBOpinnPDFSkoða/Opna