is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/15575

Titill: 
  • Gestastofa fyrir friðlandið á Hornströndum : Af hverju? Fyrir hvern? Um hvað?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Friðlandið á Hornströndum skartar fjölbreyttri náttúru, hrikalegu landslagi og merkri búsetusögu. Þangað sækja sífellt fleiri ferðamenn sem flestir koma með bátum frá Ísafirði. Á Ísafirði er ágætis aðstaða til að taka á móti ferðamönnum og fjölbreytt úrval afþreyingarmöguleika í boði, meðal annars ferðir í friðlandið. Nokkuð hefur þó þótt skorta á upplýsingaflæði Hornstrandastofu um friðlandið. Ýmislegt hefur verið gert til úrbóta síðan Hornstrandastofa var stofnuð árið 2008 en betur má ef duga skal. Eitt af þeim úrræðum sem rætt hefur verið um til úrbóta er gestastofa á Ísafirði. Staðsetning gestastofu þar gerir starfsumhverfi hennar sérstakt að því leyti að hún mun standa fjarri friðlandinu og á Ísafirði og í nágrannabyggðum er fyrir nánast öll sú starfsemi sem hugsanlega verður í gestastofunni.
    Áður en gestastofa er sett á stofn fyrir friðland þarf að eiga sér stað ákveðin grunnvinna með rannsóknum, könnunum og samráði við nærsamfélagið. Það þarf að svara spurningum um hver sé þörfin fyrir gestastofu, fyrir hverja hún eigi að vera og hvað eiga að vera þar. Til þess að svara þessum spurningum fyrir gestastofu friðlandsins á Hornströndum voru í þessu verkefni gerðar tvær skoðanakannanir, önnur meðal ferðamanna í friðlandinu og hin meðal landeigenda og afkomenda þeirra. Einnig var rætt við fulltrúa stofnana og fyrirtækja sem starfsemi gestastofunnar gæti rekst á við.
    Niðurstaða verkefnisins var að full þörf er fyrir gestastofu fyrir friðlandið. Þar kom fram að gestastofan mun ekki veita söfnum og upplýsingagjöfum sem fyrir eru á Ísafirði og nágrenni samkeppni, heldur þvert á móti gæti hún eflt þá starfsemi með góðri samvinnu allra aðila. Niðurstaðan var einnig sú að í gestastofunni á að leggja áherslu á upplýsingagjöf og fræðslu. Upplýsingagjöf til ferðamanna um ferðamöguleika til friðlandsins og innan þess, um gönguleiðir, veðurfar og ástand svæðisins hverju sinni. Fræðslan á að beinast að ferðamönnum og íbúum nærsamfélagsins. Í henni á að leggja áherslu á náttúruna með flóru og fánu friðlandsins í forgrunni. Einnig á að leggja áherslu á búsetusögu svæðisins, hvernig fólk lifði af því sem landið gaf af sér í sátt við náttúruna og náttúruöflin.
    Til að starf gestastofu fyrir friðlandið á Hornströndum verði öflugt og farsælt þarf að byrja á grunnvinnunni og samvinnu við hagsmunaaðila og nærsamfélagið.

Samþykkt: 
  • 6.6.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/15575


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_2013_Jonas_Gunnlaugsson.pdf1.1 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna