is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16391

Titill: 
  • Réttarstaða langlífari maka. Samanburður á óvígðri sambúð og hjónabandi
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Erfðalög nr. 8/1962 (hér eftir el.) eru nú orðin 50 ára gömul og hafa þau lítið breyst í áranna rás. Á sama tíma hafa val á sambúðarform á Íslandi breyst og því er ástæða til að kanna hvort lögin séu enn í takt við ríkjandi gildi í íslensku samfélagi. Segja má að lög eigi ekki aðeins að aðlaga sig að breyttu þjóðfélagi heldur einnig endurspegla ríkjandi menningu og samfélag eins og það er á hverjum tíma.
    Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að svara því hver mismunur á réttarstöðu langlífari maka er, sem annars vegar hefur valið sér óvígða sambúð eða hins vegar hjónaband sem sambúðarform.
    Til þess að greina stöðu langlífari makans þarf að hafa hliðsjón af hjúskaparlögum nr. 31/1993 ( hér eftir hjl.) og hvernig þau hafa áhrif á fjárslit hjúskapar við andlát. Réttarstaða langlífari maka markast þó ekki aðeins af erfða- og hjúskaparlögum, heldur einnig ýmsum sérlögum. Í ritgerðinni verður því litið til annarra réttarsviða og þar leitast við að greina hver staða langlífari maka er eftir fráfall hins skammlífari.
    Við mat á réttarstöðu langlífari maka í þessari ritgerð verður höfð hliðsjón af öðrum réttarkerfum, þá sérstaklega á Norðurlöndunum. Lagareglur Norðurlanda á sviði fjölskyldu- og erfðaréttar eru mjög svipaðar þar sem undirbúningur þeirra var að miklu leyti unninn í norrænu samstarfi. Þá voru núgildandi erfðalög fyrsti löggjafarundirbúningurinn sem íslensk stjórnvöld tóku beinan þátt í að semja í samstarfi við hinar Norðurlandaþjóðirnar. Þó tókst ekki full samstaða um samhljóða texta lagafrumvarpanna, og því ástæða að fara yfir það sem skilur þjóðirnar að í þessari ritgerð.
    Í upphafi ritgerðarinnar verður farið almennt yfir sambúðarform á Íslandi. Skoðuð verður tölfræði bak við þessi tvö sambúðarform og reynt að gefa hugmynd um það hverjir velja sér þessi sambúðarform. Farið verður lauslega yfir hjúskap og óvígða sambúð, hverjir geta stofnað til þeirra og hvernig er stofnað til þeirra, hvaða helstu meginreglur gilda um sambúðarformin, og hvernig þeim er slitið (2. kafli). Í sama kafla verður jafnframt fjallað um hvernig erlendar réttarreglur og alþjóðlegur einkamálaréttur geta haft áhrif á réttarstöðu langlífari maka (2. kafli).
    Þá tekur við umfjöllun um hver réttarstaða langlífari maka er á Íslandi. Fyrst verður fjallað um afmörkun dánarbús skammlífari maka og hvernig sú afmörkun leiðir til þeirra eigna og réttinda sem langlífari maki hlýtur (3. kafli). Síðan verður fjallað um fjárskipti milli hjóna og sambúðarfólks sem fara fram við andlát skammlífari maka. Bæði verður fjallað um meginregluna um helmingaskipti og undantekningar frá henni, t.d. skáskipti og endurgjaldskröfur (3. kafli). Þá verður fjallað um þær erfðaréttareglur sem lúta að rétti langlífari maka, og fjallað um muninn á lög- og bréfarfi í því samhengi. Í framhaldi af þeirri umfjöllun verður skoðað undir hvaða kringumstæðum langlífari maki getur misst lögbundinn rétt sinn til erfðaréttar og annarra bóta eftir andlát maka síns, þ.á m. hver erfðaréttur er ef maki fellur frá í skilnaðarferli (3. kafli). Enn fremur verður farið yfir m.a. hver er rétturinn til að sitja í óskiptu búi og hvernig einka- og opinber skipti hafa áhrif á stöðu langlífari maka (3. kafli). Að lokum verður fjallað um réttarstöðu langlífari maka þegar kemur að ýmsum fjármunaréttindum við andlát maka, t.d. réttur til lífeyris, vátryggingabóta, hvernig skattamálum er hagað eftir andlát o.fl. (3. kafli). Lagareglurnar verða skoðaðar með tillit til þess hvort mismunandi lagareglur gilda um langlífari maka í hjúskap eða óvígðri sambúð Í ritgerðinni verður almennt höfð hliðsjón af fleiri réttarkerfum en íslenskum. Ástæða þess er að umræðan um að heimila erfðarétt í sambúð á sér ekki eingöngu stað á Íslandi, heldur einnig í öðrum löndum eins og t.d. í Bretlandi og á Norðurlöndum.
    Að lokum verða niðurstöður og aðalatriði ritgerðarinnar dregnar saman og kynntar (4. kafli). Borið verður saman hvernig réttarstaða langlífari maka er út frá þeim forsendum hvort hann hafi verið í hjúskap eða óvígðri sambúð við andlátið.

Samþykkt: 
  • 5.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16391


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lagfært Meistararitgerð - Kristín Lára Helgadóttir.pdf1.09 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna
Ritgerð - kápa- Kristín Lára.pdf105.84 kBOpinnKápaPDFSkoða/Opna