is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16395

Titill: 
  • Efni og gildi hluthafasamninga
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hluthafasamningur er samningur milli allra eða sumra hluthafa tiltekins hlutafélags eða einkahlutafélags um réttarstöðu þeirra sem hluthafa innbyrðis og um leið gagnvart félaginu. Hluthafar semja þá um aðra réttarstöðu sín á milli en leiðir af hlutafjáreign þeirra og réttum reglum félagsins. Þegar þessi ritgerð er skrifuð hafa hvorki verið sett sérstök lög hér á landi um hluthafasamninga eða ný lagaákvæði sett í gildandi löggjöf um þetta efni. Á hinn bóginn má finna nokkur lagaákvæði í gildandi lögum sem geta vísað til hluthafasamninga með einum eða öðrum hætti.
    Ætla má að auknar kröfur um gegnsæi í hlutafélögum muni með tíð og tíma leiða til þess að sérstök lagaákvæði verði sett um hluthafasamninga líkt og gert hefur verið í Danmörku.
    Ritgerð þessi hefst á því að fjalla um skilgreiningar hinna ýmsu fræðimanna á hluthafasamningum og taka afstöðu til þess hversu vel þessar skilgreiningar eru taldar lýsa eðli og efni þessara samninga. Þá er vikið að skilgreiningu á hugtakinu hluthafi og að meðferð beins og óbeins eignarréttar að hlutum í hlutafélagi. Er leitast við að skilgreina hluthafasamninga með skýrum hætti með hliðsjón af dómum, norrænum fræðiritum og fræðigreinum. Í þeim kafla er leitast við að skýra hverjir geti verið aðilar að hluthafasamningi, tilgangi hluthafasamninga, þeim hagsmunum sem ráða gerð þeirra og helstu atriðum sem einkenna þá.
    Þá er í stuttu máli fjallað um réttarheimildir um hluthafasamninga, einkum íslenskar en einnig norræna löggjöf og vikið nokkrum orðum að regluverki Evrópusambandsins en telja verður að þessar heimildir skýri stöðu og réttaráhrif íslenskra hluthafasamninga.
    Áður en kafað verður dýpra í meginefni ritgerðarinnar er fjallað um helstu atriði hlutafélagalaga sem tengjast hluthafasamningum. Veitir þessi umfjöllun betri yfirsýn um samspil laganna, félagssamþykkta og hluthafasamninga.
    Þeir hagsmunir sem um er fjallað í hluthafasamningum eru oft hinir sömu eða eðlislíkir þeim hagsmunum sem kveðið er á um í samþykktum. Einnig eru þau réttaráhrif sem leiða af ákvæðum hluthafasamninga og samþykkta lík. Því er mikilvægt að gera grein fyrir þeim atriðum sem skilja þessa gerninga að. Er fjallað um þessi atriði og þá kosti og galla sem þeim fylgja.
    Jafnframt er fjallað um efni hluthafasamninga en hluthafasamningar, eðli sínu samkvæmt, fjalla langoftast um nýtingu hluthafaréttinda. Verður fjallað um helstu tegundir hluthafasamninga en einnig lagt mat á með hvaða hætti hluthafasamningar geta talist ganga gegn lögum um hlutafélög eða mögulega öðrum lögum.
    Að lokinni yfirferð um efni hluthafasamninga er fjallað um lögfræðilegatúlkun þeirra en slík túlkun á að mestu leyti stoð sína í túlkunarreglum samningaréttar. Er kannað hvort sérsjónarmið geti átt við um hluthafasamninga og sérstaklega fjallað um slík tilvik. Gert er ráð fyrir því að svipaðar túlkunarreglur gildi á Íslandi og almennt í norrænum rétti. Fjallað er almennt um þær túlkunarreglur sem koma til greina í því skyni að unnt sé að taka afstöðu til þess hver sé sú regla sem eigi við um tilteknar aðstæður.
    Því næst er fjallað um skuldbindingargildi hluthafasamninga. Hér er um lögfræðilegt álitamál að ræða sem líklega hefur valdið hvað mestum deilum enda virðast ólíkar skoðanir ríkja milli einstakra fræðimanna um umfang skuldbindingargildis hluthafasamninga. Þar að auki hafa undanfarin ár verið miklar sviptingar í þessum efnum og er sérstaklega fjallað um nýja reglu varðandi hluthafasamninga sem var tekin í dönsk félagalög árið 2010.
    Vanefndaúrræði í hluthafasamningum eru síðan rakin og lýst hvað hluthöfum stendur til boða í þeim efnum. Er að mörgu að hyggja í þessu efni og sérstök ástæða er til að vekja athygli á umfjöllun um notkun févítis í hluthafasamningum.
    Að lokum verður fjallað um stöðu ógildingarreglna gagnvart hluthafasamningum og bæði gerð grein fyrir stöðu þessara samninga með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og brostinna forsendna.

Samþykkt: 
  • 5.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16395


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerðin_Loka.pdf789.42 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Kápa - Guðmundur Páll.pdf105.3 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna