is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16482

Titill: 
  • Myndin af Vatnshyrnu. Draumaþættir í AM 555h 4to, AM 564c 4to og AM 564a 4to varðveisla og efnisleg tengsl
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Íslendingasagnahandritið Vatnshyrna er talið ritað í upphafi síðasta áratugar fjórtándu aldar fyrir Jón Hákonarson, þann hinn sama og lét skrifa Flateyjarbók. Vatnshyrna eyðilagðist í brunanum í Kaupmannahöfn 1728. Texti hennar er að mestu varðveittur í eftirritum þeirra Árna Magnússonar og Ásgeirs Jónssonar. Uppskriftir þeirra eru einu þekktu uppskriftirnar eftir Vatnshyrnu. Lengi vel töldu menn að handritið, AM 564a 4to, væri hluti af Vatnshyrnu. Stefán Karlsson sýndi fram á að svo gæti ekki verið þar sem í báðum handritum voru draumaþættir. Eftir stendur þá spurningin um samband þessara handrita sem virðast bæði hafa verið skrifuð fyrir Jón Hákonarson.
    Ætlunin er að varpa skýrara ljósi á þessi tengsl handritanna og er Vatnshyrna í aðalhlutverki. Það var niðurstaða Stefáns Karlssonar að samband þeirra mætti skýra með rækilegri rannsókn á textum þáttanna þriggja í Vatnshyrnu (í uppskrift Árna Magnússonar) og AM 564a 4to (A) sem nú er talið hluti af sagnasamsteypunni Gervi-Vatnshyrnu. Það verður gert en jafnframt litið til varðveisluumhverfis þeirra, þess sameiginlega efnis sem í þeim er og hvernig þættirnir falla að efnislegu samhengi þeirra. Í því tilliti verður litið til ættartalna sagnanna og það skoðað hvort tengja megi efnið Jóni Hákonarsyni með frekari hætti. Sjónum er beint að sögum Vatnshyrnu en eins og ávallt blandast Gervi-Vatnshyrna umræðunni. Sagnasamhengi bókanna tveggja er um margt líkt þó sögurnar séu ekki alfarið þær sömu né sömu gerðar, þ.e. þær sem sameiginlegar eru. Í báðum handritum eru t.d. Flóamanna saga, Eyrbyggja og Vatnsdæla en þær eru ekki sömu gerðar í báðum handritum. Varðveisla sagnanna er einnig með ólíkum hætti. Stefán Karlsson telur líklegt að skrifari Vatnshyrnu hafi skrifað eftir bók eða bókum í eigu húsbónda síns. Sú hugmynd er athyglisverð þegar höfð er hliðsjón af varðveislunni þar sem hugsanlega má greina þar merki um fleiri bækur og misstórar sem gætu verið komnar frá Jóni Hákonarsyni.
    Jafnframt textasamanburðinum er því nauðsynlegt að taka mið af sagnasamhenginu og varðveislusögunni. Í umfjöllunum fræðimanna í útgáfum sagnanna og víðar, koma sömu skrifarar ítrekað við uppskriftir sagna Vatnshyrnu. Þar flokkast skyldleiki milli uppskrifta þeirra Árna Magnússonar, Ásgeirs Jónssonar, Ketils Jörundssonar, Jóns Gissurarsonar og á stundum Einars Eyjólfssonar. Tvær stórar rannsóknir, þ.e. rannsókn Scotts á Eyrbyggju og Perkins á Flóamanna sögu, styðja þessa flokkun en í rannsókn Perkins (og hugsanlega Scotts) má sjá merki um þriðju bókina, *Z, sem nú er glötuð. Frá henni eru uppskriftir þeirra Jóns Gissurarsonar (og Einars Eyjólfssonar) á Flóamanna sögu taldar runnar.
    Það er því ætlunin að fylgja þessum þráðum eftir föngum og greina frá því sem stuðlað gæti að því að samband þessara tveggja handrita verði séð skýrara ljósi.

Samþykkt: 
  • 11.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16482


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
total.pdf2.72 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna