is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16571

Titill: 
  • Tengsl félags- og efnahagslegrar stöðu og tannheilsu barna í 1., 7. og 10. bekk
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Tannáta er á meðal algengustu sjúkdóma hjá börnum og hefur áhrif á stóran hluta íslenskra barna og unglinga. Tengsl á milli félags- og efnahagslegrar stöðu barna og tannheilsu þeirra eru þekkt úr erlendum rannsóknum. Hollari neysluvenjur og betri tannhirða barna eru taldar tengjast menntunarstigi foreldra þeirra. Rannsóknir sýna einnig að börn sem koma frá tekjuháum heimilum búa við betri tannheilsu en börn sem koma frá tekjulágum heimilum. Markmið ritgerðarinnar er að kanna tengsl félags- og efnahagslegrar stöðu íslenskra barna í 1., 7. og 10. bekk við tannheilsu þeirra. Tengslin eru einnig skoðuð óháð áhrifum vegna tíðni sælgætisneyslu, forvarna heima (tannhirða) og hjá tannlækni (skorufyllingar).
    Í greininguna eru notuð þversniðsgögn úr MUNNÍS-rannsókninni sem fram fór árið 2005. Úrtakið var slembið og lagskipt klasaúrtak og náði til 20% einstaklinga í 1., 7. og 10. bekk. Alls samþykktu þátttöku 82% úrtaksins en skoðaðir voru 2251 einstaklingur. Tengslin eru metin með línulegri aðhvarfsgreiningu, þar sem tekið er tillit til úrtaksaðferðar með því að flokka skóla sem klasa. Háða breytan heilar fullorðinstennur (HFT) er mælikvarði á tannheilsu barna í 7. og 10. bekk en heilar barnatennur (HBT) í 1. bekk. Til þess að meta félags- og efnahagslega stöðu barnanna eru notaðar breyturnar menntun móður og heimilistekjur.
    Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að marktæk jákvæð tengsl eru á milli tannheilsu barna og menntunar móður og heimilistekna í öllum aldurshópum þegar tengslin eru metin fyrir bæði kynin saman. Í 1. bekk er forspárgildi fyrir börn háskólamenntaðra mæðra í hæsta tekjuhópi 2,5 HBT (p<0,05) hærra en fyrir börn mæðra með grunnskólapróf sem lokamenntun í lægsta tekjuhópi. Í 7. bekk er munurinn 5,6 HFT (p<0,01) og einnig 5,6 HFT (p<0,05) í 10. bekk. Tannheilsuójöfnuðurinn lækkar um 10,2% í 1. bekk þegar leiðrétt er fyrir áhrifum forvarna heima og hjá tannlækni auk tíðni sælgætisneyslu en lækkar um 15,7% hjá 7. bekk og 11,6% hjá 10. bekk. Vísbendingar eru um kynbundinn mun á tengslum tannheilsu við menntun móður og heimilistekjur. Tannheilsuójöfnuður er til staðar hjá börnum á Íslandi en rannsóknin sýnir þó ekki fram á orsakasamband.

Samþykkt: 
  • 20.9.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16571


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Björg Steinarsdóttir.pdf1.6 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna