is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16926

Titill: 
  • Rétturinn til þátttöku í menningarlífi samkvæmt a-lið 1. mgr. 15. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.
  • Titill er á ensku The Right to Participate in Cultural Life according to Art. 15(1)(a) of the International Covenant on Economic, Social and Cultural Rights.
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Kveðið er á um réttinn til þátttöku í menningarlífi í a-lið 1. mgr. 15. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi frá árinu 1966 sem Ísland hefur fullgilt ásamt 160 öðrum ríkjum heims. Þá er einnig mælt fyrir um réttindin í 1. mgr. 27. gr. Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Rétturinn til þátttöku í menningarlífi telst til menningarlegra réttinda sem ekki hafa fengið mikla umfjöllun gegnum tíðina þótt nokkuð hafi ræst úr í seinni tíð. Nefndin um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi hefur skýrt inntak réttarins til þátttöku í menningarlífi í starfi sínu vegna skýrsluskila aðildarríkja og ekki síst með útgáfu almenns álits nr. 21 árið 2009. Hugtakið menning er rúmt og erfitt að afmarka það. Hefur nefndin farið þá leið að skilgreina ekki hugtakið heldur lætur hún duga að lýsa eiginleikum menningar og menningarlífs. Menning hefur samkvæmt því snertifleti við allar hliðar mannlegrar tilveru, er síbreytilegt, samfellt og tímalaust ferli, sem birtist bæði í áþreifanlegum hlutum (t.d. listmunum og menningarhúsum) og óáþreifanlegum fyrirbærum (tungumáli, hefðum, þekkingu, sögu o.s.frv.). Menningarlíf er samkvæmt þessu gríðarlega mikilvægt fyrir mannlífið og hugarheim einstaklinga og hópa. Nefndin telur þýðingu réttarins til þátttöku í menningarlífi fyrst og fremst felast í því að hann sé nauðsynlegur mannlegri göfgi og jákvæðum félagslegum samskiptum milli einstaklinga og samfélaga. Í réttinum til þátttöku í menningarlífi felast ýmis réttindi. Þau helstu eru rétturinn til aðgangs að menningarlífi, bæði að menningarverðmætunum sjálfum og upplýsingum um þau, rétturinn til að leggja af mörkum til menningarlífs og rétturinn til frjáls vals sjálfsmyndar og til að sinna eigin menningarstarfi, þ.e. fylgja þeim lífsháttum sem menningarleg sjálfsmynd einstaklingsins býður. Af þessum réttindum leiðir margvíslegar skyldur aðildarríkja sem fjallað er um í almennu áliti nefndarinnar nr. 21 en nefndin leiðir einnig fleiri skyldur af a-lið 1. mgr. 15. gr. samningsins. Þ.á.m. er skyldan til að vinna gegn mismunun um þátttöku í menningarlífi og mismunun sem stafa af menningarmun. Þá ber aðildarríkjum einnig skylda til að kynna almenningi réttinn til þátttöku í menningarlífi og varðveita menningararf. Nefndin leggur ríka áherslu á menningarlega fjölbreytni og telur virðingu við hana meðal skyldna aðildarríkja samkvæmt ákvæðinu. Nefndin tekur þó skýrt fram að ákvæðið verndi ekki menningarlega þætti sem ganga gegn mannréttindum og beri aðildarríkjum reyndar samkvæmt ákvæðinu að vinna gegn slíkri menningu.

Samþykkt: 
  • 9.12.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16926


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð.pdf848.17 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Lokaritgerd.Forsida.pdf38.51 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_GuðjónIngi.pdf338.93 kBLokaðurYfirlýsingPDF