is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16939

Titill: 
  • Mörk skaðabótaábyrgðar fasteignareigenda og verktaka sem vinna við fasteign
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í skaðabótaábyrgð fasteignareiganda felst, að eigandi fasteignar er gerður ábyrgur fyrir tjóni sem stafar að eiginleikum fasteignar. Vegna þess að viðhaldi eða búnaði hennar hefur ekki verið sinnt með fullnægjandi hætti. Eigandi fasteignar er því skyldugur til athafna til þess að forða tjóni, sem kann að stafa af fasteign. Ábyrgð getur því verið felld á fasteignareiganda vegna athafnaleysis. Þó er skilyrði að eingöngu sé um óeiginlegt athafnaleysi að ræða, þar sem fasteignareigandi hefur einhver þau tengls við atburðarás sem leiðir til tjóns, að hann sé skyldugur til athafna.
    Bótagrundvöllurinn byggir almennt á sakarreglunni. Fasteignareigandi eða einhver á hans vegum þarf því að hafa viðhaft saknæma háttsemi til að bótaábyrgð stofnist. Sakarmatið er breytilegt þegar kemur að bótaábyrgð fasteignareiganda. Skiptir þar höfuðmáli hvers kyns starfsemi fer fram í húsnæðinu. Þannig er sakarmatið strangt þegar fasteign hýsir verslanir og þjónustustarfsemi. Sakarmatið er hins vegar veikt þegar tjón verður í opinberum byggingum. Hefur það verið gagnrýnt vegna þess að almenningur þarf að leita þangað til að fá ýmsa þjónustu. Hins vegar veitir dómaframkvæmd vísbeindingar um að þetta sé kannski að breytast. Sakarmatið er einnig veikt vegna íbúðarhúsnæðis. Þrátt fyrir að sakareglan sé meginreglan um skaðabótaábyrgð fasteignareigenda er það þó ekki án undantekninga. Löggjafinn getur lögfest hlutlæga ábyrgð sem leggur rýmri bótaábyrgð á eigendur fasteigna. Hlutlæg bótaábyrgð hefur hins vegar ekki verið lögfest í miklum mæli í íslenskum rétti. Gildir sakarreglan því almennt nema skýrlega hafi verið vikið frá henni.
    Fasteignareigandi er sá sem á eignarrétt að fasteign. Eignarréttindi geta verið bæði bein og óbein. Því geta þeir sem byggja rétt sinn að fasteign á óbeinum eignarréttindum einnig orðið bótaábyrgir. Bæði umráðamenn fasteigna og eigendur þeirra geta því orðið bótaábyrgir. Skyldur fasteignareigenda eru almennt byggðar á ólögfestum reglum enda ekki mörg ákvæði í lögum sem taka beinlínis á ábyrgð fasteignareigenda.
    Verktaki er sá sem tekur að sér að vinna verk og ábyrgist árangur verks. Verktaki fær endurgjald frá verkkaupa fyrir framkvæmd verks. Verk verður að fullnægja tilskildum gæðaeiginleikum. Sé þeim ekki fullnægt, og tjón verður vegna fasteignar, getur verktaki orðið bótaskyldur. Meginreglan er sú að verktaki ber ábyrgð á skaðverkum eigin verka.
    Vinnuveitandi er almennt ábyrgur fyrir skaðverkum starfsmanna sinna, sem þeir valda í starfi. Ekki er skilyrði að vinnuveitandi sjálfur hafi viðhaft saknæma háttsemi, heldur eingöngu starfsmaður hans. Verktaki er ábyrgur fyrir skaðverkum starfsmanna sinna á grundvelli reglunnar um vinnuveitandaábyrgð. Hins vegar er ekki vinnuveitandasamband milli verkkaupa og verktaka. Getur þess vegna skipt höfuðmáli að greina hvort samningur aðila sé ráðningar- eða verksamningur. Ákveðið heildarmat fer fram til að greina að samningstegundirnar.
    Dómaframkvæmd fylgir í grunninn meginreglunni um ábyrgð verktaka á eigin skaðverkum. Þannig er fasteignareigandi almennt ekki gerður bótaábyrgur vegna skaðverka verktaka sem vinna fyrir hann. Hins vegar er dómur sem virðist víkja frá þessarri meginreglu, Hrd. 1997, bls. 1388. Virðist hann byggja á því að verktaki sé ekki sjálfráður við framkvæmd verks. Er fasteignareigandinn því gerður bótaábyrgur vegna skaðverka verktakans. Þá er einnig dómur, Hrd. 1968, bls. 117 þar sem fasteignareigandi er gerður bótaábyrgur vegna skaðverka verktaka. Virðist dómurinn þó ekki byggja á skorti á sjálfræði verktakans. Bótaábyrgð er felld á eiganda fasteignar vegna þess að um brot á lögbundnum skyldum hans er að ræða. Byggir dómurinn á því að fasteignareigandi geti ekki firrt sig lagalegri skyldu með því að fela verktaka að framkvæma hana. Báðir dómarnir eru sennilega undir áhrifum frá dönskum rétti. Mikið fleiri dómar fylgja þó meginreglunni um ábyrgð verktaka á eigin skaðverkum. Dómarnir sem víkja frá meginreglunni standa einir og rökstuðningur í þeim er ekki mikill. Í ljósi þess þykja þeir ekki rýra gildi meginreglunnar.
    Beiting sakarreglunnar er strangari í Danmörku heldur en hér og hafa hlutlægar lagareglur verið lögfestar í miklum mæli. Danskur réttur um skaðabótaábyrgð fasteignareiganda byggir hins vegar í grunninn á sömu meginreglum og hér. Aftur á móti er vikið frá þessum meginreglum í ríkari mæli en viðgengst í íslenskum rétti. Þannig er greint milli þess hvort skyldur fasteignareiganda byggja á lögfestum eða ólögfestum reglum. Ef skyldurnar eru lögfestar, getur fasteignareigandi ekki firrt sig lagalegri ábyrgð með því að fela verktaka framkvæmd verks. Þegar lögbundnum reglum sleppir gilda sömu reglur og hér.

Samþykkt: 
  • 16.12.2013
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16939


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Kápa á BA-ritgerð.pdf106.44 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna
BA-ritgerd.pdf294.06 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna