is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/16999

Titill: 
  • Gerðardómar í fjárfestingardeilum milli ríkja og erlendra fjárfesta. Álitaefni um lögsögu ICSID stofnunarinnar
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Markmið þessarar ritgerðar tvíþætt: Í fyrsta lagi að gera grein fyrir því hvað felist almennt í gerðardómsmeðferð og þá sérstaklega á deilum milli ríkis og erlenda fjárfesta og um leið fjalla um þær stofnanir og þá þjóðaréttarlegu samninga sem hafa áhrif við úrlausn þessara deilna. Verður sjónum þá sérstaklega beint að ICSID stofnuninni en flest gerðardómsmál á þessu sviði fara fram á grundvelli ICSID samningsins. Í öðru lagi verður sérstaklega tekin til skoðunar þau skilyrði sem ICSID samningurinn setur fyrir lögsögu sinni yfir deiluefninu og málsaðilum sem fram koma í 25. gr. ICSID samningsins. Liggur meginþungi ritgerðarinnar á þessu álitaefni.
    Í öðrum kafla ritgerðarinnar verður stuttlega fjallað almennt um gerðardóma og hvað felist í því að leysa deilumál fyrir þess háttar úrlausnaraðila. Verður reynt að útskýra hvað felist í gerðardómsmeðferð og hvaða skilyrði séu fyrir því að aðilar geti valið um að leysa deilu sín á milli með slíkri úrlausnaraðferð. Þá verður fjallað um mismunandi tegundir gerðardóma og hvað geri gerðardóm alþjóðlegan.
    Í þriðja kafla verða gerðardómar á sviði fjárfestinga í deilum milli ríkis og erlendra fjárfesta kynntir til sögunar. Verður fjallað um hvað einkenni þessa gerðardóma og hvað hafi orðið til þess að slíkir gerðardómar urðu til. Verður svo í fjórða kafla fjallað um mismunandi tegundir gerðardóma við lausn deilna milli ríkja og erlendra fjárfesta. Megináherslan verður á ICSID stofnuninni sem starfar á grundvelli ICSID samningsins enda einskorðast framhald umfjöllunar í ritgerðinni við ICSID gerðardóma og lögsögu þeirra.
    Í fimmta kafla verður komið að meginefni ritgerðarinnar, þ.e. að fjallað verður um þau skilyrði sem koma fram í 25. gr. ICSID samningsins um lögsögu ICSID gerðardóms. Skilyrðin eru almennt talin fimm talsins, þ.e. (i) að um sé að ræða deilu (ii) og sú deila sé lagalegs eðlis (iii) í beinu sambandi (iv) við fjárfestingu (v) milli aðildaríkis ICSID samningsins (vi) og þegns annars aðildaríkis að samningnum.
    Byrjað verður á í sjötta kafla að fjalla um lögsögu ICSID gerðardómsins hvað varðar málsefnið. Fyrst verður fjallað um skilyrðin um að deilan sé lagalegs eðlis og í beinu sambandi við fjárfestingu. Þá verður fjallað sérstaklega um fjárfestingahugtakið í ICSID samningnum í sjöunda kafla. Þar er af mörgu að taka enda var hugtakið aldrei skilgreint í samningnum og gerðardómar hafa beitt mismunandi aðferðum þegar þeir nálgast hugtakið. Verður fyrst reynt að afmarka hugtakið í ICSID samningnum, tvíhliða- og fjölþjóðasamningum og löggjöf ríkja um erlendar fjárfestingar. Þessu næst verður litið til framkvæmdar ICSID gerðardóma við beitingu hugtaksins þegar gerðardómur tekur ákvörðun um lögsögu í máli og að lokum verður efnið dregið saman og ályktanir settar fram.
    Í áttunda kafla verður fjallað um málsaðila að ICSID gerðardómsmáli og lögsögu ICSID gerðardóms yfir málsaðilum. Fyrst verður fjallað um hvaða ríki geta átt aðild að máli og því næst fjallað um erlenda fjárfesta en 2. mgr. 25. gr. ICSID samningsins fjallar um tvær tegundir erlendra fjárfesta frá aðildaríkjum ICSID. Annars vegar eru það einstaklingar í a-lið 2. mgr. 25. gr. ICSID samningsins en hins vegar lögaðilar í b-lið 2. mgr. 25. gr. samningsins. Þessu næst verður svo fjallað um ákvæði tvíhliða- og fjölþjóða fjárfestingasamninga sem undanþiggja ríki frá því að veita erlendum fjárfesti þá vernd sem þessir samningar ella tryggja uppfylli viðkomandi fjárfestir ekki ákveðin skilyrði sem fram koma í samningunum. Í lokin verður svo fjallað um þriðju aðila að ICSID gerðardómsmáli en þróunin hefur orðið í þá átt að þriðji aðili sem oft á tíðum eru ýmis konar frjáls félagasamtök geta lagt inn skriflega umsögn til gerðardómsins teljist þeir hafa ákveðna hagsmuni af niðurstöðunni. Hefur þetta úrræði verið staðfest með nýlegri breytingu á gerðardómsreglum ICSID og getur þriðji aðili því komið skoðunum sínum á framfæri við gerðardóminn að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
    Í níunda kafla og síðasta kaflanum verður svo fjallað um helsta grundvallarskilyrðið fyrir lögsögu ICSID stofnunarinnar, þ.e. að málsaðilar hafi veitt samþykki sitt fyrir því að leggja málið til úrlausnar ICSID gerðardóms. Verður fjallað um hvernig samþykki fyrir lögsögu ICSID komi almennt til sem og gildissvið samþykkis. Innan þessarar umfjöllunar verður svo fjallað um krossgötu-, regnhlífar- og bestukjaraákvæði í fjárfestingasamningum milli ríkja en umrædd ákvæði geta haft mikið að segja um samþykki fyrir lögsögu ICSID. Að lokinni þeirri umfjöllun verður fjallað um álitaefni sem lúta að þeim tíma er samþykki er veitt og því næst túlkun samþykkis. Í lok kaflans verður svo fjallað um síðustu málsgrein 1. mgr. 25. gr. ICSID samningins, þ.e. að óheimilt sé fyrir aðildaríki að afturkalla samþykki og hvað felist í þeirri reglu.
    Í lokin eru síðan samantekt og helstu ályktanir höfundar.

Samþykkt: 
  • 6.1.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/16999


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Axel Ingi Magnússon.pdf1.02 MBLokaður til...12.01.2050MeginmálPDF
Lagadeild snidmat.pdf37.39 kBOpinnForsíðaPDFSkoða/Opna