is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17219

Titill: 
  • Ástæður og áhrif framræslu í Mýrasýslu 1930-1990
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Í þessu verkefni verður leitast við að leggja mat á áhrif hinna víðtæku framræslustarfa, sem ráðist var í á Íslandi á 20. öld í þeim tilgangi að þurrka upp votlendi og breyta í ræktanlegt land. Gerð verður tilraun til að svara tveimur rannsóknarspurningum: Hvaða áhrifaþættir ýttu undir framræslu votlendis á 20. öld? Hverju skilaði framræsla í Mýrasýslu 1930-1990, t.d. hvað varðar aukinn heyfeng, stærri bústofn eða mannfjölda?
    Til að leita svara við spurningunum er notast við gögn úr ýmsum áttum sem gefa heildstætt yfirlit yfir tímabilið 1930-1990. Sagnfræðileg yfirlitsrit eru notuð auk annarra bóka, greina og blaða frá ýmsum tímum. Hagtölur landbúnaðarins eru notaðar til að kanna áhrif framræslu í Mýrasýslu á tímabilinu. Ákveðnir þættir eru hafðir til grundvallar til að meta áhrifin; rúmmál opinna skurða, magn töðu, magn útheys, stærð nýrækta og stærð bústofns. Hagfræðilegra gagna var aflað úr Búnaðarskýrslum Íslands sem Hagstofan gaf út, Búnaðarriti Búnaðarfélags Íslands, skýrslum forðagæslumanna í Mýrasýslu og hjá Matvælastofnun. Við framsetningu og greiningu á gögnunum var bæði notast við hugbúnaðinn Microsoft Excel og SAS Enterprice Guide. Hluti verkefnisins er að nota landupplýsingakerfið ArcGIS til að greina breytingar á landnýtingu votlendissvæða, en í þeim hluta eru nokkur býli í Mýrasýslu tekin fyrir. Skurðir á býlunum þremur voru aldursgreindir gróflega og flokkaðir í þrjá flokka eftir því á hvaða tímabili þeir voru grafnir. Með þessu móti er auðveldara að átta sig á þróun framræslumála í sýslunni.
    Í ljós kom að áhrifaþættir sem ýttu undir framræslu votlendis á 20. öld voru margir, en þeir tengjast helst stjórnarfari og vélvæðingu. Þar má nefna áherslur þeirra ríkisstjórna sem ríktu á tímabilinu á uppbyggingu landbúnaðar, styrkveitingar til jarðræktar frá hinu opinbera, ráðstöfun Marshallfjárins til uppbyggingar í sveitum o.fl. Þessir þættir hljóta að hafa ýtt mjög undir framfarir í landbúnaði, og þar með framræslu í tengslum við ræktunarumbætur. Ekkert af þessu hefði þó verið mögulegt ef ýmiss konar vélar og jarðræktartæki hefðu ekki tekið að streyma til landsins um og eftir seinna stríð.
    Árangur framræslustarfa í Mýrasýslu virðist hafa verið þónokkur. Rúmmál skurða sýnir í flestum tilfellum talsvert sterka fylgni við aðrar breytur sem skoðaðar voru. Þetta á þó aðeins við um fyrri hluta tímabilsins, 1930-1965. Ekki reyndist marktæk fylgni milli rúmmáls skurða og annarra breyta á síðari hluta tímabilsins, 1966-1990. Óvíst er um orsakasamhengi, en niðurstöðurnar eru þær að áhrif og afrakstur skurðgraftar í sýslunni virðist vera nokkuð mikil á tímabilinu 1930-1965 en lítil á tímabilinu 1966-1990, hvað varðar þær breytur sem hér eru til umfjöllunar.

Samþykkt: 
  • 23.1.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17219


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS_2013_Solveig_Olafsdottir.pdf2.46 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna