is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17545

Titill: 
  • Endurgjaldshugtakið í 1. mgr. 206. gr. hgl.
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Á tíunda áratug síðustu aldar fór að bera á aukinni umræðu um vændi hér á landi. Með vaxandi hnattvæðingu jókst sýnileiki markaðsvæðingar kynlífs til muna sem leiddi til aukinnar umfjöllunar um vændi. Vændi tilheyrir svokölluðum kynlífsmarkaði en það hugtak hefur verið notað um verslun með kynlíf. Innan þess rúmast meðal annars vændi, nektardansstaðir og mansal. Slíkur markaður er iðulega er tengdur við undirheima samfélagsins þar sem mikið ber á fátækt, misnotkun og fíkniefnaneyslu. Á Íslandi hefur löngum verið reynt að koma í veg fyrir vændi með lögum, en aðferðin sem beitt hefur verið við að hindra vændisstarfsemi hefur þó breyst nokkuð frá því fyrstu lagaákvæðin sem vörðuðu vændi komu í lög hér á landi. Um vændi er fjallað í 206. gr. XXII. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 , en kaflinn fjallar um kynferðisbrot.
    Í ritgerðinni verður áhersla lögð á 1. mgr. 206. gr. hgl. og þá sérstaklega þau álitamál sem tengjast greiðslu- og endurgjaldshugtakinu, en í ákvæðinu kemur fram að hver sá sem greiðir eða heitir greiðslu eða endurgjaldi fyrir vændi skuli sæta refsingu. Markmið ritgerðarinnar er að draga ályktun um hvað þurfi að vera komið fram af hálfu kaupanda til þess að um brot gegn ákvæði 1. mgr. 206. gr. hgl. sé að ræða.
    Skoðaðar verða tvær spurningar, annars vegar hvað telst vera greiðsla eða endurgjald í skilningi ákvæðisins og hins vegar hvenær kaupandi er álitinn hafa greitt ellegar heitið greiðslu eða endurgjaldi fyrir vændi. Hvað fyrri spurninguna varðar má velta fyrir sér eftirfarandi dæmi, sem sýnir fram á vafann sem sprottið getur upp þegar á þessi álitamál reynir. Telst það vera brot gegn 1. mgr. 206. gr. hgl. ef meintur kaupandi afhendir eða gefur aðila sem hann hefur samræði við eða önnur kynferðismök sígarettupakka, áfengi, mat eða húsaskjól á svipuðum tíma og samræðið eða kynferðismökin eiga sér stað? Telst aðili hafa brotið gegn 1. mgr. 206. gr. hgl. ef hann gefur öðrum aðila loforð um húsaskjól á sama eða svipuðum tíma og samræði eða kynferðismök þessara aðila fara fram?
    Til þess að finna svörin við þessum spurningum og komast að niðurstöðu um álitaefnin verður að líta til ýmissa þátta. Í upphafi þarf að skilgreina vændishugtakið og grandskoða ákvæðið sjálft og hvernig beri að flokka það. Það verður gert í kafla 2. Í kafla 3 verður þróun vændisákvæðisins skoðuð, hérlendis og í Svíþjóð og Noregi. Í kafla 4 verður farið yfir túlkun lagaákvæðisins og innra og ytra samhengi þess rannsakað. Í kafla 5 verður litið til erlendra fræðiskrifa. Í kafla 6 verður skoðuð dómaframkvæmd bæði hérlendis og í Svíþjóð. Að lokum verða niðurstöður reifaðar í kafla 7.

Samþykkt: 
  • 11.4.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17545


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA-ritgerð ISÁ.pdf336.6 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna