is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17570

Titill: 
  • Vægi löggjafarviljans sem lögskýringarsjónarmiðs samanborið við textaskýringu
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Í flestum, ef ekki öllum ríkjum nútímans fellur það í skaut eins eða fleiri manna að setja samfélaginu lög. Jafnað er vísað til þeirra sem þetta hlutverk hafa sem löggjafa viðkomandi ríkis. Þegar talað er um löggjafarviljann sem lögskýringarsjónarmið er í stuttu máli átt við að rétt sé að líta til þess hver vilji þess einstaklings eða þeirra einstaklinga, sem settu lögin, var á tíma lagasetningarinnar. Ekki hefur komist á almenn sátt um hversu mikið vægi löggjafarviljinn hefur eða hvort hann eigi yfir höfuð að skipta einhverju máli við lögskýringar. Þrátt fyrir að í engilsaxneskum rétti sé sá háttur á að gefa löggjafarviljanum lítinn gaum við lögskýringar þá hefur það tíðkast í germönskum rétti, og þar á meðal íslenskum rétti, að líta megi til vilja löggjafans við túlkun lagaákvæða.
    Markmið þessarar ritgerðar er að kanna hversu mikið vægi löggjafarviljinn hefur sem lögskýringarsjónarmið í íslenskum rétti. Við athugun og mat mikilvægi löggjafarviljans verður notast við þá aðferð að bera hann saman við textaskýringu, sem er það lögskýringarsjónarmið sem almennt er talið að fyrst eigi að líta til við túlkun lagaákvæða. Einnig verður leitast við að varpa ljósi á hver hin raunverulega þýðing löggjafarviljans í íslenskri réttarframkvæmd er og hvort löggjafarviljinn geti undir einhverjum kringumstæðum haft meira vægi en textaskýring við túlkun lagaákvæða. Í þeirri viðleitni verður sérstaklega litið til þess hvort dómar Hæstaréttar Íslands veiti skýr svör um stöðu löggjafarviljans gagnvart textaskýringu og þá einkum hvort og þá hversu langt dómstólinn hefur gengið við að líta framhjá beinum texta lagaákvæðis í þágu löggjafarviljans.
    Ritgerðin hefst á almennri umfjöllun um löggjafarviljann og leitast verður við að skilgreina nánar merkingu hugtaksins. Þá verða reifuð rökin að baki því að líta til vilja löggjafans við túlkun lagaákvæða sem og rökin sem mæla gegn því. Því næst verður fjallað um textaskýringu sem lögskýringarsjónarmið og þá verður farið yfir hvernig farið er að þegar þessi ólíku sjónarmið stangast á. Til skýringar verða reifaðir dómar þar sem löggjafarviljinn kemur til athugunar. Dómarannsókn í stuttri ritgerð sem þessari getur aldrei talist tæmandi en hún ætti engu að síður að geta gefið vísbendingu um vægi löggjafarviljans. Að lokum verða helstu niðurstöður dregnar saman í niðurlagi þar sem leitast verður við að varpa ljósi á þýðingu löggjafarviljans í íslenskum rétti. Þess ber að geta að þrátt fyrir að sumir fræðimenn leggi ólíka merkingu í hugtökin túlkun og skýring verður litið svo á í þessari ritgerð að hugtökin þýði það sama. Er það ætlað til einföldunar.

Samþykkt: 
  • 15.4.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17570


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BA Helgi Brynjarsson.pdf522.1 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna