is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17613

Titill: 
  • Áhrif offitu á gæði beinþéttnimælinga. Samanburður á DXA og QCT
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Offita verður sífellt stærra vandamál í heiminum og mikilvægt er að skoða mæliaðferðir á hinum ýmsu þáttum svo hægt sé að rannsaka alla á nákvæman hátt, óháð stærð og þyngd. Algengar mæliaðferðir á beinþéttni (e.bone mineral density, BMD) eru DXA (e.dual energy X-ray absorptiometry) og QCT (e. Quantitative Computed Tomography). Rannsóknir á BMD hafa sýnt fram á að myndgalla verði vart í DXA við ofþyngd þó almennt sé því haldið fram að nákvæmni og endurtekningarhæfni DXA sé mikil og meiri heldur en við QCT auk þess að geislaálagið er mun minna við DXA heldur en QCT.
    Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að bera saman niðurstöður BMD mælinga með DXA og QCT og athuga hvort offita hefði áhrif á nákvæmni mælinga sem framkvæmdar voru með DXA.
    Efni og aðferðir: Þátttakendum, sem komu úr öldrunarrannsókn Hjartaverndar, var skipt niður í fjóra jafn stóra flokka eftir BMI; lægsta meðaltal BMI í flokki 1 og það hæsta í flokki 4. BMD mælingar voru framkvæmdar með DXA og QCT. Reiknað var meðaltal og staðalfrávik (SF) fyrir hverja breytu. Línuleg aðhvarfsgreining var framkvæmd til að kanna áhrif kyns, aldurs og BMI á BMD, auk þess sem t-próf voru framkvæmd til þess að athuga marktækni á milli DXA og QCT. Notast var við tölfræðiforritin Microsoft Excel og SPSS til úrvinnslu á niðurstöðum.
    Niðurstöður: Þátttakendur voru á aldrinum 67 – 85 ára en þeir voru 67 talsins. Einn þátttakenda fór ekki í QCT og var því útilokaður frá rannsóknarhópnum. Úrtakið endaði því í 66 þátttakendum. Fjöldi kvenna var 27 (40,9%) og karla 39 (59,1%). Mesta athygli vöktu línurit sem sýndu prósentumun á milli DXA og QCT miðað við BMI-flokkun. Þar kemur fram að mismunur á DXA og QCT eykst ekki á milli allra flokkanna og því ekki hægt að gera ráð fyrir því að ofþyngd hafi mikil áhrif á nákvæmni DXA.
    Ályktanir: Þrátt fyrir að niðurstöður hafi sýnt fram á meiri mun á DXA og QCT í flokki 4 heldur en flokki 1 jókst munurinn ekki línulega frá flokki 1 að flokki 4. Mikilvægt er að taka inn í reikninginn að úrtak rannsóknarinnar var tiltölulega lítið, sérstaklega þegar greinarmunur var gerður á kyni. Ekki er því hægt að ganga út frá því sem gefnu að offita hafi þessi sömu áhrif í öllum úrtökum.

Samþykkt: 
  • 30.4.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17613


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hildur Kjartansdóttir - Diplóma.pdf1.5 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna