is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17665

Titill: 
  • Tæmingarregla Evrópuréttar í höfundarétti - að því er varðar óefnisleg stafræn eintök verka
  • Titill er á ensku The Exhaustion Principle in Copyright in Europe - regarding intangible digital objects
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Upplýsingatækni og hin öra tækniþróun sem á sér stað í heiminum um þessar mundir leiðir til nýrra álitaefna varðandi vernd höfundaréttinda. Mikilvægi hugverka hefur aukist með upplýsingatækni sem leitt hefur til aukinnar efnahagslegrar þýðingar höfundaréttinda. Samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 með síðari breytingum (höfl.) tekur einkaréttur höfunda til birtingar og hvers kyns ráðstöfunar á hugverkum. Meginsjónarmiðið þar að baki er að hvetja höfunda til frekari sköpunar með því að gera þeim kleift að njóta fjárhagslegs ávinnings af nýtingu hugverka sinna.
    Áður en upplýsingatæknin ruddi sér til rúms grundvallaðist höfundarétturinn að miklu leyti á því að sú hugmynd sem lægi hugverki til grundvallar væri tengd við tiltekið birtingarform, oft með því að tengja hugsmíðina efnislegum hlut eins og bók eða vínylplötu. Þetta hefur breyst með tilkomu upplýsingatækninnar því með vistun og flutningi hugverka á stafrænu formi tengjast hugverk efnislegum hlutum ekki með sama hætti og áður var. Þá gerir stafræna tæknin það einnig auðveldara að afrita hugverk á ódýran hátt án þess að gæði verkanna minnki.
    Þessi þróun í upplýsingatækni leiðir til þess að grípa þarf til sérstakra úrræða til þess að tryggja lagalega vernd höfunda, þar sem bagalegt væri ef höfundar næðu ekki að njóta fjárhagslegs ábata af afnotum hugverka sinna, sem rýra myndi starfsmöguleika þeirra. Því er nauðsynlegt að höfundalög hvers tíma taki tillit til tækniþróunar. Ef vel er gætt að vernd hugverkaréttinda í tengslum við upplýsingatækni getur tæknin þjónað sem best markmiðum sínum og einnig nýst til miðlunar hugverka sem njóta verndar höfundaréttar.
    Eitt af þeim álitaefnum, sem rísa vegna upplýsingatækninnar og hinnar öru tækniþróunar sem á sér stað, er hvort kaupendur stafrænna verka hafi rétt á því að selja stafræn höfundaréttarvernduð verk áfram eftir að hafa fest kaup á þeim, án þess að brjóta gegn rétti höfunarins. Ritgerð þessi snýst um stafræna tæmingu réttinda, hvort kaupendur stafrænna verka hafi rétt til þess að endurselja það óefnislega eintak sem þeir hafa fest kaup á stafrænt.
    Tæmingarreglan er regla sem segir til um það hvort einkaréttur höfundar til að ráða yfir eintökum verks tæmist þegar höfundurinn hefur sjálfur eða sjálfviljugur látið eintakið af hendi með sölu þess til kaupanda. Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 24. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með áorðnum breytingum (höfl.) er frekari dreifing eintaks af verki, sem selt hefur verið með samþykki höfundar eða með öðrum hætti framselt til annarra innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES), heimil.
    Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að ræða þau álitaefni er varða tæmingarregluna í Evrópu að því er varðar óefnisleg eintök verka sem keypt eru á Internetinu stafrænt, og komast til botns í því hvort aðili sem kaupir óefnisleg eintök höfundarréttarverndaðra verka stafrænt hafi rétt á því að endurselja þau án þess að brjóta gegn höfundarétti eða ekki. Verður einnig tekið til skoðunar hvaða skilyrði þyrftu að vera uppfyllt í því tilviki sem slík endursala væri heimil.
    Þar sem umfang ritgerðarinnar er takmarkað við reglur Evrópuréttar verður í öðrum kafla fjallað um innri markað EES-svæðisins og áhrif Dómstóls Evrópusambandsins (EBD) á tæmingarregluna í Evrópu. Í kjölfarið verður fjallað um tengsl tæmingarreglunnar við innri markaðinn. Í þriðja kafla verður fjallað um þær alþjóðlegu reglur sem máli skipta fyrir gildissvið og takmörk tæmingarreglunnar í Evrópu. Verður fjallað um Bernarsáttmálann til verndar bókmenntum og listum, TRIPS-sáttmálann og samning Alþjóðahugverkastofnunarinnar um réttindi höfunda (WCT). Í fjórða kafla tekur við kynning á tilskipunum Evrópuréttar og verður þar fjallað helst um tilskipun Evrópuþingsins og Ráðsins 2001/29/EB um samræmingu tiltekinna þátta höfundaréttar og skyldra réttinda í upplýsingasamfélaginu. Í fimmta kafla verður fjallað um tæmingarregluna í íslenskum rétti. Í sjötta kafla verður fjallað um tæmingarregluna og hugbúnað og í því skyni verður tilskipun 2009/24/EB um lögverndun tölvuforrita tekin til skoðunar auk eðlis hugbúnaðarsamninga og réttarstöðu þeirra. Þá verður gerð ítarleg greining á nýlegum dómi EBD í UsedSoft málinu , sem er eini dómur EBD sem fallið hefur á þessu sviði, en í því máli komst EBD í stuttu máli að þeirri niðurstöðu að tæmingarreglan næði til óefnislegra eintaka tölvuforrita sem niðurhalað hefði verið frá Internetinu. Verður ítarlega fjallað um dóminn og þá gagnrýni sem hann hefur hlotið. Í kjölfar þeirrar umfjöllunar verður tekin samantekt yfir framangreindar heimildir í sjöunda kafla. Þá verður í áttunda kafla fjallað um muninn á leyfi og sölu, og áður en ályktanir verða dregnar saman í tíunda kafla, verður í níunda kafla fjallað um tæmingarregluna og önnur höfundaréttarvernduð verk, og hvort niðurstaða EBD í UsedSoft hafi fordæmisgildi fyrir aðrar gerðir höfundaréttarverndaðra verka en hugbúnað.

  • Útdráttur er á ensku

    In the information society new technologies create new problems for copyright protection. The importance of copyright protection has increased with the information technology. With new forms of technology it is much easier to copy and sell works digitally, without decreasing the quality of the works.
    One of the problems that arise, is whether or not the buyer of a digital copy of a work has the right to sell his own copy to another party, like in the case of physical types of works. This essay deals with the question whether or not and under which circumstances, the exhaustion principle in copyright in Europe applies to intangible digital types or work, and therefore allows the resell of such copies.
    The exhaustion principle is a rule that allows the owner of a copy to sell his copy of the work to another party without infringing the rightholder's copyright, when the first sale or other transfer of ownership in the Community of that object is made by the rightholder or with his consent.
    Since the scope of this essay is limited to Europe, the European rules in this context will be examined and the CJEU's decision in UsedSoft will be given a proper analysis. The WCT and Berne Convention will also be subject to discussion, along with the EU Directives on the field that are relevant. A close look will also be taken at whether or not the CJEU's decision in UsedSoft has any influence for other types of works than computer programs.
    Since Iceland is a member of the EEA, the European Exhaustion Principle is relevant for the Icelandic copyright rules.

Samþykkt: 
  • 2.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17665


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Mastersritgerð-Þorgerður_lokalokaeintak.pdf1.03 MBLokaður til...01.01.2025HeildartextiPDF