is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17712

Titill: 
  • Agaviðurlög fanga
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Viðfangsefni þessarar ritgerðar er að fjalla um þau viðbrögð sem forstöðumönnum fangelsa á Íslandi er heimilt að grípa til í tilefni brota á þeim reglum sem gilda í samfélagi fanga og ætlað er að tryggja öryggi og aga innan fangelsis. Um viðbrögð forstöðumanna og starfsmanna fangelsis er fjallað í lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005.
    Í öðrum kafla verður byrjað á að fara yfir meginreglur um lögbundnar refsiheimildir og skýrleika refsiheimilda. Þar verður leitast við að gera sögu þeirra hér á landi, sem og í alþjóðasamfélaginu, sem best skil.
    Í þriðja kafla verða hugtökin afbrot og viðurlög skilgreind og gerð verður grein fyrir flokkun viðurlaga. Í sama kafla verður hugtakið fangi skilgreint ítarlega, en ætlunin er að afmarka með greinargóðum hætti til hvaða einstaklinga viðbrögð forstöðumanns fangelsis geta náð.
    Í fjórða kafla verður fjallað í stuttu máli um það til hvaða úrræða forstöðumenn fangelsa og starfsmenn þeirra geta gripið til í því skyni að halda uppi öryggi og aga innan fangelsis. Um slík úrræði er fjallað í lögum um fullnustu refsinga nr. 49/2005 og kveða þau á um heimildir til valdbeitingar, leitar og líkamsrannsóknar, beitingu tiltekinna öryggisráðstafana og um beitingu agaviðurlaga, en ákvörðun forstöðumanns um beitingu slíkra agaviðurlaga er meginefni ritgerðarinnar.
    Í fimmta kafla verður fjallað um agabrot fanga, en þau eru grundvöllur beitingar agaviðurlaga af hálfu forstöðumanns fangelsis. Farið verður yfir lög um fullnustu refsinga nr. 49/2005 og reglur fangelsa nr. 54/2012, auk þess sem fjallað verður um þá háttsemi sem talin er til agabrota samkvæmt íslenskum rétti. Í kjölfarið verður litið til danskra fullnustulaga og reglugerða sem fjalla um það hvað teljist til agabrota fanga og það borið saman við agabrot samkvæmt íslenskum rétti. Þá verður einnig gerð grein fyrir kröfum evrópskra fangelsisreglna, samkvæmt tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. 2006/2, og þær bornar saman við gildandi íslenskan rétt. Í lok kaflans er vikið að kröfum sem gerðar er til skýrleika viðurlagaheimilda, fyrirsjáanleika viðurlagaúrræða og gerð grein fyrir öðrum atriðum sem skipt geta málið við mat á agabroti.
    Í sjötta kafla verður fjallað um agaviðurlög sem forstöðumönnum fangelsa er heimilt að beita í tilefni agabrota fanga. Uppbygging kaflans verður sambærileg og í fimmta kafla, þar sem í upphafi verða rakin ákvæði laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005, sem fjalla um agaviðurlög og tegundir þeirra samkvæmt íslenskum rétti auk þess sem rakin verða ákvæði danskra fullnustulaga og reglugerða er varða sama efni. Í kjölfarið verður vikið að kröfum evrópskra fangelsisreglna er snúa að tegundum agaviðurlaga. Að lokum verða ákvæði íslensks réttar borin saman við danskan rétt.
    Í sjöunda kafla verður fjallað um málsmeðferð forstöðumanns fangelsis við undirbúning og töku ákvörðunar um agaviðurlög í íslenskum fangelsum. Gerð verður grein fyrir þeim kröfum sem ákvæði laga um fullnustu refsinga nr. 49/2005 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveða á um, en þau síðarnefndu eru til fyllingar þeim fyrrnefndu. Því næst verður vikið að reglum um málsmeðferð samkvæmt dönskum rétti og líkt og áður verða reglur ríkjanna bornar saman eftir að gerð hefur verið grein fyrir kröfum evrópsku fangelsisreglnanna er lúta að málsmeðferð slíkra ákvarðana.
    Í áttunda kafla verður gerð grein fyrir þeirri stöðu sem kann að koma upp þegar agabrot fanga er ekki aðeins brot á reglum sem gilda innan fangelsis heldur einnig brot á refsilöggjöf. Verður í því skyni velt upp þeirri spurningu hvort unnt sé að beita bæði agaviðurlögum ákveðnum af forstöðumanni fangelsis sem og refsingu ákveðna samkvæmt refsilöggjöf. Farið veðrur yfir kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu og viðauka, hans ásamt því að litið verður til túlkunar Mannréttindadómstóls Evrópu á ákvæðum sáttmálans og viðaukum við. Ber þar helst að nefna ákvæði 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu sem kveður á um ne bis in idem regluna, eða réttinn til að vera ekki saksóttur eða refsað tvívegis vegna sömu háttsemi. Rakin verður staða agaviðurlaga í þessu tilliti og hvort ákvörðun um slík agaviðurlög kunni að koma í veg fyrir meðferð sakamáls vegna sömu háttsemi. Því til skýringar verða raktir tveir dómar Hæstaréttar Íslands. Í lok kaflans verður svo fjallað sérstaklega um strok fanga og viðurlög við þeim samkvæmt íslenskum og dönskum rétti.
    Í níunda kafla verður ritgerðin dregin saman í lokaorðum.

Samþykkt: 
  • 5.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17712


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaskjal.pdf19.03 MBLokaður til...31.12.2134HeildartextiPDF