is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17719

Titill: 
  • Réttarstaða barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumóður
  • Titill er á ensku Rights of children born through surrogacy
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Á undanförnum árum hefur umræða um staðgöngumæðrun orðið sífellt meiri, bæði hér á landi sem og erlendis. Skiptar skoðanir eru um hvort fyrirbærið eigi yfir höfuð rétt á sér og hvaða leið sé best að fara ef lögleiða eigi staðgöngumæðrun. Þann 18. janúar 2012 var samþykkt á Alþingi þingsályktun þar sem að velferðarráðherra var falið að skipa starfshóp sem undirbúa átti frumvarp til laga sem heimili staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni hér landi. Sá starfshópur var skipaður seinna sama ár og hefur það markmið að leita leiða til lögleiðingar á staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Það er því ljóst að vilji núverandi stjórnvalda stendur til þess að lögleiða staðgöngumæðrun að uppfylltum ákveðnum þröngum skilyrðum.
    Samkvæmt 7. mgr. 1. gr. laga nr. 55/1996 um tæknifrjóvgun og notkun kynfrumna og fósturvísa manna til stofnfrumurannsókna, hér eftir lög um tæknifrjóvgun, er staðgöngumóðir kona sem gengur með barn fyrir aðra konu, fyrir tilstilli tæknifrjóvgunar og hefur fallist á það fyrir meðgönguna að láta barnið af hendi strax eftir fæðingu. Mismunandi er hvort kynfrumur barnsins komi frá staðgöngumóðurinni, væntanlegum foreldrum eða sæðis- og egggjöfum. Staðgöngumæðrun er óheimil á Íslandi sbr. 4. mgr. 5. gr. laga um tæknifrjóvgun.
    Í umræðunni um staðgöngumæðrun hefur mikið verið einblínt á réttindi staðgöngumæðranna annars vegar og hinna væntanlegu foreldra hins vegar. Umræðan í samfélaginu hefur verið á þá leið að tryggja þurfi mannréttindi staðgöngumæðra og að lögleiðing megi ekki hafa í för með sér að konur verði misnotaðar í þessum tilgangi. Sú staðreynd að það er töluvert ódýrara að leita sér aðstoðar staðgöngumóður í þriðja heims löndum hefur þá þýðingu að margir vesturlandabúar leita þangað.
    Margir hafa jafnframt notað það sem rök fyrir því að lögleiða eigi staðgöngumæðrun hér á landi að með því sé stemmt stigu við misnotkun á konum í öðrum ríkjum þar sem reglur um staðgöngumæðrun eru ekki strangar og jafnvel ekki til staðar. Talsmönnum staðgöngumæðrunar er jafnframt tíðrætt um rétt einstaklinga til að verða foreldrar og sjá lögleiðingu á staðgöngumæðrun sem lausn við vandamálum við barneignir vegna ófrjósemi gagnkynhneigðra para eða lausn vegna líffræðilegra takmarkana hjá t.d. samkynhneigðum karlmönnum.
    Mismunandi reglur gilda um staðgöngumæðrun í heiminum. Í mörgum ríkjum er staðgöngumæðrun bönnuð eða leyfð með mjög ströngum skilyrðum. Í öðrum ríkjum er staðgöngumæðrun heimiluð með tiltölulega fáum og reglum, sem auðveldar hinum væntanlegu foreldrum að eignast barn. Indland hefur verið vinsæll áfangastaður fyrir einstaklinga og pör sem vilja nýta sér aðstoð staðgöngumóður. Kostnaður við staðgöngumæðrun á Indlandi er jafnframt töluvert lægri heldur en í öðrum ríkjum.
    Réttindi barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumóður fá oft minna vægi í þjóðfélagslegri umræðu heldur en réttindi hinna væntanlegu foreldra og staðgöngumæðra. Í þessari ritgerð verður leitast við að varpa ljósi á hvernig réttarstöðu barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumóður verður best borgið. Í þeim tilgangi verða meðal annars lög mismunandi ríkja skoðuð.
    Ritgerðin verður byggð upp með þeim hætti að í öðrum kafla er almennt fjallað um staðgöngumæðrun. Fjallað verður um mismunandi form staðgöngumæðrunar auk reglna um staðgöngumæðrun í öðrum löndum. Þá verður og staða hinna væntanlegu foreldra og staðgöngumóður skoðuð. Þriðji kafli fjallar um réttindi barna. Þar verður fjallað almennt um réttindi þeirra barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumóður, svo sem reglur um faðerni, móðerni og foreldrun, rétt þeirra til þess að vita uppruna sinn o.fl. Auk þess verður fjallað um hvernig réttindum barna er best borgið ef staðgöngumæðrun er leyfð. Í fjórða kafla verður leitast við að varpa ljósi á þá stöðu sem skapast þegar börn íslenskra foreldra sem fædd eru með aðstoð staðgöngumóður. Í þeim tilgangi verða einnig skoðaðar reglur um faðerni og móðerni og réttindi barna til ríkisfangs. Til þess að leitast við að skýra þá stöðu sem blasir við þessum börnum verða tekin þrjú dæmi. Jafnframt verður fjallað um þær nauðsynlegu lagabreytingar sem þurfa að koma til í þeim tilgangi að tryggja réttarstöðu þessara barna. Í fimmta kafla verða svo helstu niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman og reifaðar.

Samþykkt: 
  • 5.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17719


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Réttarstaða barna sem fæðast með aðstoð staðgöngumóður.pdf785.24 kBLokaður til...05.05.2064HeildartextiPDF