is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17749

Titill: 
  • Góður biti í hundskjaft. Leikrit í tveimur þáttum um átveislu Jørgens Jørgensens og Ólafs Stephensens í Viðey
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Á upphafsdögum byltingarinnar skammlífu sumarið 1809 fór Jørgen Jørgensen til Viðeyjar til að heimsækja Ólaf Stephensen, hinn aldna fyrrverandi stiftamtmann. Hundadagakonungi og samferðamönnum hans var þar gert að borða gífurlegt magn af mat, á meðan gestgjafinn afsakaði sjálfan sig sökum aldurs.
    Þessir atburðir eru innblásturinn að handriti tveggja þátta leikrits, gamansamri ádeilu að nafni „Góður biti í hundskjaft“. Verkið er hugsað til flutnings í Viðeyjarstofu, sem var áður bústaður Ólafs Stephensens.

    Í hléi er áhorfendum boðið upp á máltíð í anda þeirrar sem Ólafur bauð Jørgensen upp á. Þannig skapast gagnvirk sýning sem færir menningarneytendur nær sögulegri fortíð og menningararfi en hægt er í hefðbundinni leikhússýningu. Verkið fjallar um atburði fortíðarinnar á skemmtilegan hátt, þó að sagnfræðilegur fróðleikur sé aldrei langt undan. Um leið eru atburðir og málefni líðandi stundar endurspeglaðir í leikritinu.

    Jørgen Jørgensen hefur þegar verið gerður að karakter í hverskyns miðlum og verður hér gerð grein fyrir því hvernig persóna hans hefur verið túlkuð og miðlað í skáldskap hingað til. Ákveðin siðferðileg álitamál fylgja því að miðla hluta af sögu þjóðarinnar. Í greinargerð er eðli, sköpunarmáttur og pólitískt afl menningarmiðlunar skoðuð út frá hugtökum og kenningum fræðimanna á borð við Foucault, Bourdieu og Bakhtin. Gerð er grein fyrir ýmsum réttlætingum fyrir því að smætta persónur sem eitt sinn voru af holdi og blóði í erkitýpur, skopstælingar og afbakanir.

    Menningarmiðlun byggir á huglægri túlkun og sýn þess er miðlar hverju sinni, en grundvallarmunur er á listaverki og hefðbundinni sögumiðlun. Um leið og ákvörðun hefur verið tekin um að miðla atburðum og persónum í skáldskap lýtur úrvinnsla efnisins öðrum lögmálum en í fræðilegri heimildavinnu. Í skáldskap er leitast við að segja kjarnasannleik um mannlega tilvist, sammannlegan sannleik sem ristir dýpra en upptalning staðreynda.
    Handrit að leikverkinu „Góður biti í hundskjaft“ fylgir með í viðauka.

Samþykkt: 
  • 5.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17749


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Pedro G Garcia LOKAVERKEFNI TIL MA-PRÓFS.pdf850.24 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna