is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17792

Titill: 
  • Hernaður á helleníska tímanum: Samsetning hersins og herstjórnarlist í orustum
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • 1. Samsetning hersins
    Tegundir hermanna, hlutverk, og samhæfing
    Í fornöld þá skiptist landher aðallega í þrjár greinar, sem voru fótgöngulið, léttbúið fótgöngulið, og riddaralið. Fótgöngulið var kallað pezikon á grísku, en á latnesku peditatus. Léttbúið fótgöngulið var kallað psilos á grísku, en það skortir latneskt orð fyrir slíka víðtæka merkingu. Síðan var riddaralið kallað hippikon á grísku, en á latnesku equites. Aþeningurinn Ípikrates líkti herforingjanum við höfuðið (stjórn hersins), fótgönguliði við búkinn (brjóstvörn/tenging hersins), léttbúnu fótgönguliði/ skyttum við hendurnar (drægni hersins), og riddaraliði við fæturna (hreyfigeta hersins). Fótgönguliðið var meginstoð hersins og hafði oftast hærra hlutfall í samanburði við léttbúið fótgöngulið og riddaralið. Kenningarfræðingurinn Aelianus Tacticus frá annari öld skrifaði um makedónísku breiðfylkinguna og tæknina á bak við fylkingar hennar. En hann hélt því fram að fótgöngulið hafi þurft að vera tvöfalt meira í samanburði við hina hlutana, ef herinn ætlaði sér að vera tilbúinn fyrir mismunandi aðgerðir í stríði. Það þykir vera býsna sennilegt þegar um var að ræða hernað Grikkja, Makedóníumanna, og Rómverja, eins og verður útskýrt seinna í kaflanum.
    Fótgönguliðum var ætlað að berjast í návígi, en til þess gátu þeir haft venjuleg spjót, sverð, öxi, eða kylfu, þar sem hægt var að halda á slíku með einni hendi og skjöld í annari. Sarissa-spjót hinnar makedónísku breiðfylkingar voru þó undantekning, því að fótgönguliðar þurftu að halda slíkum spjótum með báðum höndum. Það var hægt að nota eggvopn til að stinga (spjót, beitti endirinn á sverði), höggva (öxi, hliðarnar á sverði), og til að berja/kremja með (kylfa), svo að hægt var að þrýsta vopninu neðan frá til að stinga meðan sveiflað var vopninu ofan frá til að höggva/berja. Það þótti best að stinga búkinn á andstæðingnum, þar sem helstu líffæri líkamans voru, meðan það var frekar var reynt að höggva til höfuð hans, herða, og útlima.
    Þegar fótgönguliðar báru brynju og skjöld þá gat það bæði veitt vernd í návígi og gagnvart óvinaskeytum úr fjarlægð, hvort sem það voru kastspjót, örvar, eða steinar. Því að ef fótgönguliðar voru nógu vel varðir af útbúnaði sínum þá var óvinurinn tilneyddur til þess að koma nær og heyja návígi við þá, sem var eina leiðin til að drepa hann eða reka á flótta, heldur en að hægt væri að öðlast auðvelda sigra úr fjarlægð. Eftir því sem fótgönguliðar höfðu betri brynju og stærri skjöld því erfiðara var fyrir andstæðinginn að drepa þá, en hinsvegar varð slíkur útbúnaður þyngri fyrir vikið. Svo að fótgönguliðar gátu ekki hlaupið jafn hratt í samanburði við menn sem voru án slíks útbúnaðar, þeir höfðu ekki jafn mikið þol og þeir urðu uppgefnir mun fyrr í bardaga. Þess vegna gat það verið erfitt fyrir þungvopnað fótgöngulið að elta uppi andstæðinga á flótta, eftir að hinir síðarnefndu höfðu kastað burt skjöldum sínum og vopnum, svo að þörf var á léttbúnu fótgönguliði og riddaraliði til að sjá um slíka eftirför.
    Sérhverri liðssveit (t.d hinum rómversku manipulae, centuriae, eða cohortes) var ætlað að hafa samkonar útbúnað og vopn, og nota sömu bardagatækni til sóknar og varnar, heldur en að um væri að ræða einskonar graut af ólíkum einstaklingum (þar sem einn er vopnaður öxi, annar sverði, einn er í brynju, annar er ber að ofan...). Ef liðssveit hefði verið einskonar blanda af öllu þá hefði hún þar með glatað allri sérhæfingu, líkt og um væri að ræða aðila sem eyddi of litlum tíma í of mörg svið í einu og þar með hefði hann yfirborðskennda þekkingu á þeim öllum. Samskonar regla gildir með sérhæfingu hermanna, þar sem sérhver liðssveit hefur ólíkt hlutverk á vígvellinum, við að bregðast við óvinahernum. Þannig er haft styrkleika í tilteknum þáttum meðan haft er veikleika í öðrum þáttum, þar sem slíkir hermenn reynast virka betur gegn ákveðnum hópi óvina en verr gegn öðrum. Svo að herforinginn getur þar með vitað til hvers er ætlast af slíkum hermönnum, hvenær beri að notast við þá og hvenær ekki.
    Þegar það er talað um þungvopnað fótgöngulið eða þungvopnað riddaralið þá er það tilvísun í útbúnað slíkra hermanna, sem innifelur í sér meðal-brynju (t.d linothorax, hreistur-brynja, hringabrynja) eða þunga-brynju (t.d brjóstplata), hjálm, brynju-leggingum fyrir hendur og fætur ef svo átti við. Þar sem þungvopnaðir riddarar riðu hestum og voru vopnaðir lensum þá gátu þeir ekki haldið á jafn stórum skildi og fótgöngulið, til dæmis hoplon eða scutum, heldur gat skjöldur þeirra verið buklari eða einhvers staðar á milli. Hinsvegar ber að geta þess að í fornöld þá voru brynjur og vopn ekki jafn þróuð og þau urðu á miðöldum, svo að menn gátu litið á hringabrynju sem hina þyngri brynju, þrátt fyrir að hún reyndist einhvers staðar á milli léttrar brynju (t.d úr leðri, lamellar) og brjóstplötu. Fótgöngulið og riddaralið var kallað léttbúið ef það hafði ekki brynju í þyngri kantinum, létta brynju, eða voru án brynju.

Samþykkt: 
  • 5.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17792


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hernaður á helleníska tímanum.pdf876.25 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna