is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18037

Titill: 
  • Árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum á Íslandi
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Árangur kransæðahjáveituaðgerða hefur töluvert verið rannsakaður á Íslandi. Þó vantar upplýsingar um hvernig konum reiðir af eftir þessar aðgerðir. Markmið þessarar rannsóknar var því að bera saman árangur kransæðahjáveituaðgerða hjá konum og körlum, með áherslu á fylgikvilla, dánarhlutfall innan 30 daga og langtíma lifun.
    Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra sjúklinga sem gengust undir kransæðahjáveituaðgerð á Íslandi árin 2001-2012. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillum var skipt í snemmkomna (greindir minna en 30 dögum frá aðgerð) og langtíma fylgikvilla og var heildarlifun reiknuð með aðferð Kaplan-Meier. Fjölþátta lógistísk aðhvarfsgreining var notuð til að meta forspárþætti dauða innan 30 daga en til að meta forspárþætti lifunar var notuð aðhvarfsgreining Cox. Meðaleftirfylgd var 5,7 ár.
    Niðurstöður: Af 1622 sjúklingum voru konur 291 (18%). Meðalaldur þeirra var hærri en karla (69 ár sbr. 65 ár, p <0,001), þær höfðu oftar sögu um háþrýsting (72% sbr. 62%, p <0,001) og EuroSCORE þeirra var hærra (6,1 sbr. 4,4, p <0,001). Hlutfall annarra áhættuþátta eins og sykursýki var hins vegar sambærilegt, einnig útbreiðsla kransæðasjúkdóms. Alls létust 12 konur (4%) og 30 karlar (2%) innan 30 daga en munurinn var ekki marktækur (p = 0,1). Tíðni fylgikvilla, bæði skammtíma (53% sbr. 43% p = 0,07) og langtíma (27% sbr. 32%, p = 0,2), var sambærileg. Fimm árum frá aðgerð var lifun kvenna 87% borið saman við 90% hjá körlum (p = 0,09). Sterkustu forspárþættir dauða innan 30 daga voru hár aldur, skert nýrnastarfsemi og bráðaaðgerð. Kvenkyn reyndist hins vegar ekki sjálfstæður forspárþáttur eftir að leiðrétt var fyrir öðrum forspárþáttum (OR 0,99; 95%-ÖB: 0,97-1,01). Kvenkyn spáði heldur ekki fyrir um langtíma lifun.
    Ályktun: Konur gangast mun sjaldnar undir kransæðahjáveituaðgerðir en karlar og eru 4 árum eldri þegar kemur að aðgerð. Árangur kransæðahjáveitu er góður hjá konum líkt og körlum en 5 árum frá aðgerð eru 87% kvenna á lífi, sem telst mjög góður árangur.

Samþykkt: 
  • 12.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/18037


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
B.Sc. ritgerð.pdf1.05 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna