is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18503

Titill: 
  • Þýðing og forprófun á verkjamatskvarðanum COMFORTneo
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Tilgangur: Tilgangur rannsóknarinnar var að þýða og forprófa COMFORTneo mælitækið, sem metur viðvarandi verki hjá nýburum. Mælitækið var þróað af þeim van Dijk og Tibboel árið 2009, og er staðlað fyrir sjúklinga á nýburagjörgæslu. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á áreiðanleika og réttmæti mælitækisins.
    Aðferð: Rannsóknin var unnin samkvæmt lýsandi megindlegri aðferðafræði. Notast var við þægindaúrtak inniliggjandi barna á Vökudeild Landspítalans og samanstóð það af 24 nýburum, 13 drengjum og 11 stúlkum. Skilyrði fyrir þátttöku var að nýburinn þyrfti, vegna meðferðar sinnar, að gangast undir sársaukafullt áreiti af einhverju tagi. Rannsakendur voru tveir og framkvæmdu þeir verkjamatið samtímis. Börnin voru metin í þrennum mismunandi aðstæðum; í ró (hlutlausar aðstæður), þegar umönnun átti sér stað (raskaðar aðstæður) og þegar áreiti sem talið var sársaukafullt átti sér stað (sársaukafullar aðstæður). Engin inngrip voru framkvæmd af hálfu rannsakenda eða einungis fyrir tilstilli rannsóknarinnar. Við úrvinnslu gagna var notast við lýsandi tölfræði, t-próf, Kappa og Chronbach‘s α.
    Niðurstöður: Marktækur munur á verkjamati kom fram milli hlutlausra og raskaðra aðstæðna sem og á milli hlutlausra og sársaukafullra aðstæðna. Hins vegar reyndist munurinn á milli raskaðra og sársaukafullra aðstæðna ekki marktækur, þ.e. verkjamatið greindi ekki mun á því þegar barn varð útsett fyrir álagsáreiti annars vegar og verkjaáreiti hins vegar. Það er þó ekki talið úrslitaatriði um réttmæti kvarðans þar sem samkvæmt útreikningum fengu þau börn sem hlutu verkjastillingu í sársaukafullum aðstæðum, marktækt færri stig en þau sem ekki fengu verkjastillingu. Samanburður á heildarstigum þeirra barna sem ekki hlutu verkjastillingu fyrir sársaukafullt inngrip sýndi ekki heldur fram á marktækan mun á milli raskaðra og sársaukafullra aðstæðna. Hér þarf þó að taka tillit til smæðar úrtaksins. Samkvæmt niðurstöðum t-prófs á heildarstigum barnanna við þrennskonar aðstæður, reyndist ekki marktækur munur á milli stigagjafa rannsakenda, sem gefur vísbendingu um áreiðanleika mælitækisins. Þegar samræmi milli rannsakenda innan hvers þáttar mælitækisins var skoðað með Kappa, kom í ljós að ekki var um nægilegt samræmi að ræða í öllum matsþáttum mælitækisins.
    Ályktun: Við forprófunina tókst ekki að sýna fram á réttmæti mælitækisins í íslenskri þýðingu en fyrirvari er settur á þær niðurstöður vegna áhrifa verkjastillingar. Vísbendingar fengust um áreiðanleika mælitækisins en þó virðast vera áhættuþættir innan þess sem draga úr áreiðanleikanum. Frekari rannsókna með stærra úrtak er þörf til að sýna fram á réttmæti og áreiðanleika mælitækisins. Um er að ræða áfangagögn í rannsókninni en gagnasöfnun mun halda áfram og lokaniðurstöður rannsóknarinnar kynntar að úrvinnslu lokinni, sem áætlað er að verði haustið 2014.
    Lykilorð: Verkir, verkjamat, nýburar, forprófun, COMFORTneo.

Samþykkt: 
  • 28.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/18503


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS COMFORTneo.pdf3.69 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna