is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskólinn á Akureyri > Hug- og félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18607

Titill: 
  • Er tæknin að kollvarpa kennslu og námi? : hvernig höndla kennarar í framhaldsskólum vaxandi upplýsingatækni og breytingar á hinu faglega námssamfélagi?
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Markmið rannsóknarinnar var að skyggnast inn í faglegt námssamfélag framhaldsskólans í dag og kanna hvort og hvernig kennsluhættir kennara hafa breyst með sívaxandi upplýsingatækni. Áhersla var lögð á að láta reynslu og upplifun kennaranna varpa ljósi á hvernig þeir hagnýta upplýsingatæknina í kennslu, hvernig nemendur nota fartölvur, spjaldtölvur og snjallsíma og hvaða helstu ógnanir og tækifæri kennarar sjá í framhaldsskólanum út frá þessari þróun.
    Átta framhaldsskólakennarar úr tveimur skólum tóku þátt í rannsókninni auk þess sem stuðst var við fyrirliggjandi matsgögn úr öðrum skólanum. Kennararnir voru frá því um þrítugt og upp undir sextugt og höfðu mislanga kennslureynslu. Rannsóknin er eigindleg og byggist á hálfopnum viðtölum sem tekin voru skólaárið 2012–13.
    Niðurstöður leiða glögglega í ljós ákveðna togstreitu í hinu faglega námssamfélagi m.a. með hliðsjón af hagnýtingu upplýsingatækni. Kennarar eru ekki sammála um hversu langt þeir eigi að ganga og nokkrir vara við því að nýta tæknina aðeins tækninnar vegna. Sumir freista þess að banna tölvu og síma í tímum meðan aðrir reyna að virkja nemendur til að nota tækin og enn öðrum finnst þeir lenda í ákveðinni kennslufræðilegri mótsögn við sjálfa sig. Nemendum virðist ganga heldur illa að einskorða notkun tækjanna við námið og kennarar efast stórlega um að þeir séu færir um að skipta stöðugt á milli samskiptamiðla, leikja og námsefnis.
    Kennararnir í rannsókninni viðruðu bæði ágreining á milli kennarahópa og svo kennara og nemenda. Talsverður tími virðist fara í vangaveltur um hvernig hægt sé að stýra notkun tækjanna og virkja upplýsingatæknina skynsamlega í námi og kennslu. Sumir kennarar finna til vanmáttar gagnvart tæknikunnáttu nemenda, stuðningur skólasamfélagsins virðist vera lítill og oft þurfa kennarar að stunda starfsþróun hver í sínu horni, prófa ný tæki og forrit í frítíma sínum.
    Hins vegar benda niðurstöður líka til þess að kennsluhættir hafi eindregið breyst í þá átt að kennarar hafi dregið mjög úr beinni innlögn og glærufyrirlestrum en freisti þess í stað að virkja nemendur til náms. Dæmi eru nefnd um samvinnu kennara og samþættingu námsgreina og margt sem bendir til að nemendur morgundagsins verði virkir, sjálfstæðir og fjölhæfir í námi sínu en þá þarf að halda vel á spöðunum því kennarar viðra líka áhyggjur sínar af agaleysi, tölvufíkn og vanlíðan nemenda. Vonast er til að niðurstöðurnar nýtist framhaldsskólanum til að forðast hætturnar og finna tækifærin í hagnýtingu upplýsingatækni.

Samþykkt: 
  • 2.6.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/18607


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
StefanThorSaemundsson_Ritgerd_kdHA.pdf1.19 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna