is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19543

Titill: 
  • Friðhelgi einkalífs barna í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Allir einstaklingar njóta réttar til friðhelgi einkalífs og er sá réttur varinn í 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Þessi réttur telst til grundvallarréttinda einstaklinga og eiga börn að njóta slíkra réttinda til jafns við fullorðna og ef eitthvað er skulu þau njóta ríkari verndar í þessum efnum, sbr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Réttur einstaklinga til friðhelgi einkalífs er mjög mikilvægur og ekki síst nú á tímum þegar tækninni hefur fleygt fram og internetið rutt sér til rúms. Fjölmiðlar landsins nýta sér þær nýjungar sem internetið hefur upp á að bjóða og þróunin er það hröð að löggjafinn á erfitt með að fylgja henni eftir og setja lög til verndar borgurunum.
    Internetið og fjölmiðlar bjóða upp á ríkt frelsi til tjáningar og er það vel. Frelsinu er þó sá vankantur á að fólk lætur oft ýmislegt flakka og ekki alltaf um hluti sem snúa að því sjálfu. Börn eru þarna ekki undanskilin og verða þau oft og tíðum fyrir barðinu á óvæginni eða tillitslausri umfjöllun um sig á slíkum miðlum. Foreldrar þeirra, sem hafa það hlutverk og þá skyldu að vernda þau, eru oft þeir sem koma að slíkum umfjöllunum og er því nauðsynlegt að skoða hvaða skyldur það eru sem þeim ber að rækja þegar kemur að uppeldishlutverkinu. Þótt foreldrar beri meginábyrgð á uppeldi barna sinna er það engu að síður hlutverk samfélagsins í heild að vernda börn og er það grundvallarregla í barnarétti að ávallt skuli haft í huga hvað börnum er fyrir bestu. Sú regla á líka við þegar kemur að fjölmiðlum landsins og fólkinu sem þar starfar.
    Í þessari ritgerð er kannað hversu vel réttur barna til friðhelgi einkalífs er verndaður hér á landi og er að mörgu að huga í þeim efnum. Farið er yfir ákvæði stjórnarskrár, barnalaga nr. 76/2003, barnaverndarlaga 80/2002, fjölmiðlalaga nr. 38/2011, skaðabótalaga nr. 50/1993 og almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og eins eru alþjóðasamningar sem málið varða skoðaðir, fremstur í þeim flokki er Barnasáttmálinn. Auk þess er farið yfir siðareglur Blaðamannafélags Íslands og til samanburðar eru siðareglur blaðamanna á Norðulöndunum skoðaðar. Siðareglur sem fjölmiðlafyrirtæki landsins setja starfsmönnum sínum eru einnig skoðaðar en markmið þessa alls er að reyna að komast að því hversu vel löggjafinn hefur staðið að því að tryggja rétt barna til friðhelgi einkalífs. Niðurstaða þessarar vinnu er sú að löggjafinn tryggir ekki nægilega vernd barna á þessum miðlum og er það að mörgu leyti vegna þess hversu hröð þróunin hefur verið hvað internetið varðar. Bæta þarf löggjöf í þessum efnum og þannig skerpa á því hvernig má standa að umfjöllunum um börn og telur höfundur það öllum til heilla, foreldrum, fjölmiðlafólki og börnunum sjálfum. Það er skylda löggjafans sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar að gera slíkt.

Samþykkt: 
  • 5.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19543


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hödd Ritgerð.pdf2.53 MBLokaður til...04.09.2054HeildartextiPDF