is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19810

Titill: 
  • Líðan starfsmanna við meiriháttar breytingu: Skipulag og undirbúningur að framkvæmd breytingar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Breytingar eru óumflýjanlegar í því umhverfi sem við búum við í dag en þær eru oft örar og þurfa stjórnendur fyrirtækja að bregðast fljótt við til að halda velli. Fyrir vikið gegnir stjórnun breytinga lykilhlutverki í þessu tilviki. Erfitt getur reynst að innleiða breytingar, ekki síst vegna andstöðu starfsmanna og hafa rannsóknir sýnt að í 67-90% tilvika misheppnast innleiðing breytinga. Breytingastjórnun er lykilhugtak þegar kemur að því að innleiða breytingar á sem árangursríkastan hátt, þar sem mikilvægast er að huga að hinum mannlega þætti. Fræðimenn virðast sammála um að breytingar snúist um fólk og að innleiðing þeirra misheppnist þegar mannlegi þátturinn gleymist.
    Áhugi höfundar vaknaði fyrir vikið á því á að skoða mannlega þáttinn við stjórnun breytinga, þ.e. hvernig fyrirtæki huga að mannlegu hliðinni við skipulag og undirbúning breytinga. Fyrirtækið Mannvit er að ganga í gegnum meiriháttar breytingu, sem er flutningur á húsnæði. Hugmyndin er að sameina híbýlin þrjú sem nú starfa á Reykjavíkursvæðinu í eitt stórt húsnæði í Kópavog. Viðfangsefni verkefnisins er að skoða líðan starfsmanna gagnvart flutningnum og aðlögun þeirra að honum. Megintilgangur rannsóknarinnar er að gera athugun á skipulagi og undirbúningi og skoða hvaða aðferðum er beitt við framkvæmd flutningar. Ýmis sjónarmið fræðimanna eru rakin, fjallað verður um þörf breytingastjórnunar auk þess sem viðbrögð starfsfólks við breytingum eru skoðuð svo og andstaðan sem myndast getur í kjölfarið.
    Við gerð þessarar rannsóknar var notuð megindleg rannsóknaraðferð, þar sem lögð var fyrir spurningalistakönnun meðal allra starfsmanna fyrirtækisins Mannvits. Með spurningalistanum var í fyrsta lagi reynt að ná fram mati þátttakenda á skipulagi breytinga, í öðru lagi að varpa ljósi á hvaða aðferðir fyrirtækið notaði við stjórnun breytinga og loks til þess að reyna að komast að raun um hvernig staðið væri að mannlega þættinum við innleiðingu breytinga.
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að mikilvægt sé að huga að mannlega þættinum í breytingaferlinu. Það er gert með því að upplýsa starfsfólk nægilega og láta starfsmenn finna fyrir því að þátttaka þess sé fyrirtækinu mikilvæg. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að starfsfólk Mannvits er almennt ánægt með hvernig staðið var að flutningi. Starfsmenn voru flestallir ánægðir með upplýsingaflæðið á tímum breytinga og þeim leið vel að þeim loknum. Hins vegar leiddu niðurstöður í ljós að starfsmenn voru ekki nógu ánægðir með hvernig flutningurinn var kynntur þeim. Niðurstöður gefa einnig til kynna að þær aðferðir sem notaðar voru við stjórnun breytinga samræmast að einhverju leyti kenningum og líkönum breytingastjórnunar. Svo virðist sem staðið hafi verið vel að skipulagi og framkvæmd breytingar. Innleiðing hennar hafi heppnast þegar á heildina er litið, þar eð lítil sem engin andstaða starfsmanna myndaðist á tímum breytingarinnar.

Samþykkt: 
  • 19.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19810


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Helen Lilja Helgadóttir.pdf1.32 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna