is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19861

Titill: 
  • Málsýni sex ára barna: Samanburður á málsýnum sex ára barna með og án málþroskaröskunar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Málsýni eru talmeinafræðingum mikilvæg verkfæri til að fá sem skýrasta og fjölbreyttasta mynd af málþroska barna. Þau gefa aðra mynd en málþroskapróf og eru yfirleitt notuð samhliða þeim við greiningu á málþroskafrávikum en einnig ein og sér. Auðvelt er að taka málsýni jafnvel án vitneskju barns þar sem ekki þarf að setja upp sérstakar prófaðstæður eða krefja barnið um eitthvað sem það er ekki vant að gera. Málsýni eru gott verkfæri til að meta árangur og framgang meðferðar hjá talmeinafræðingum. Fáar rannsóknir hafa verið gerðar á börnum með málþroskaröskun á Íslandi þar sem málsýni eru notuð sem mælitæki. Ekki er vitað hvort frávik sem greinast með stöðluðum prófum komi einnig fram í málsýnum. Ekki er heldur vitað hvort frávik í máli þeirra komi fram í styttri setningum, fátæklegri orðaforða eða auknum fjölda málfræðivillna. Í þessari rannsókn eru fleiri börn skoðuð á þrengra aldursbili en áður hefur verið gert í rannsóknum af þessu tagi á Íslandi.
    Markmið: Rannsókn þessi miðar að því að bera saman málsýni sex ára barna með og án málþroskaröskunar. Skoðað var hvort munur væri á lengd segða, heildarfjölda orða, fjölda mismunandi orða, fjölda já/nei svara og villuhlutfalli í málsýnum barnanna.
    Aðferð: Skoðuð voru málsýni 39 sex ára barna. Í samanburðarhópnum voru málsýni frá 25 börnum sem komu úr Gagnagrunni Jóhönnu Einarsdóttur um málsýni. Í gagnagrunninum eru einungis málsýni frá börnum sem hafa ekki verið greind með málþroskaröskun auk þess sem ekki leikur grunur á öðrum röskunum hjá þeim. Rannsóknarhópurinn samanstóð af 14 börnum sem greind voru með málþroskaröskun og voru málsýni tekin hjá þeim. Málsýnin voru tekin upp á spjaldtölvu, afrituð og þeim rennt í gegnum tölvuforritið Málgreini sem reiknar út meðallengd segða, heildarfjölda orða, fjölda mismunandi orða, fjölda já/nei-svara og hlutfall villna. Málsýni barna með málþroskaröskun voru svo borin saman við málsýni barna úr Gagnagrunni Jóhönnu Einarsdóttur um málsýni.
    Niðurstöður: Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að sex ára börn með málþroskaröskun tala í marktækt styttri segðum en jafnaldrar þeirra með dæmigerðan málþroska. Þau nota einnig marktækt færri orð og eru með marktækt minni orðaforða en jafnaldrar þeirra með dæmigerðan málþroska. Einnig sýna niðurstöður að villuhlutfall sex ára barna með málþroskaröskun sé hærra en jafnaldra þeirra með dæmigerðan málþroska.
    Ályktanir: Rannsóknin sýndi að málsýni gefa mjög mikilvægar og gagnlegar upplýsingar þegar verið er að skoða frávik í málþroska og er nauðsynleg viðbót við stöðluð próf. Í þessari rannsókn er í fyrsta skipti verið að bera saman málsýni sex ára íslenskra barna með og án málþroskaröskunar. Jafnframt er verið að nota málsýnaþættina heildarfjölda orða og fjölda mismunandi orða í fyrsta sinn til samanburðar á börnum með og án málþroskaröskunar. Málsýni auðvelda talmeinafræðingum við að byggja upp og gera áætlanir um meðferð og einnig við mat á virkni meðferðar. Rannsóknin er mikilvægt framlag til að auka skilning á birtingarmynd málþroskafrávika og hvernig þau endurspeglast í sjálfsprottnu tali barna.

Samþykkt: 
  • 1.10.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19861


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ragnheiður Dagný Bjarnadóttir.pdf710.47 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna