is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20213

Titill: 
  • Réttlát málsmeðferð á rannsóknarstigi sakamáls samkvæmt 6. gr. MSE
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Í 1. mgr. 6. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) segir að sakaðir menn skuli njóta réttlátrar málsmeðferðar. Þetta markmið á sér samhljóm í öðrum alþjóðlegum mannréttindasáttmálum enda er réttaröryggi talið einn af hornsteinum lýðræðisþjóðfélaga. Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 6. gr. ber að tryggja sökuðum mönnum réttláta málsmeðferð fyrir dómi. Af þessu má leiða að meðferð máls fyrir dómi er í forgrunni þegar gildissvið ákvæðisins er skoðað. Umfang sakamáls er hins vegar víðara en svo. Sakamál hefst venjulega með rannsókn lögreglu á því hvort refsivert brot hafi verið framið og hver hafi verið þar að verki. Frá því að grunur beinist að sakborningi nýtur hann sérstakrar réttarstöðu samkvæmt íslenskum lögum, þ.á m. ákveðinna réttinda sem mælt er fyrir um í 6. gr. MSE. Þá hefur Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) veitt lágmarksréttindum 3. mgr. 6. gr. sérstakt gildi á rannsóknarstigi en þau útfæra nánar hinn almenna rétt til réttlátrar málsmeðferðar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 6. gr. MSE.
    Gildissvið 6. gr. á rannsóknarstigi hefur sætt rýmkandi skýringu MDE í seinni tíð, þar sem dómstóllinn telur þrönga skýringu á réttinum til réttlátrar málsmeðferðar ekki samræmast gildum 1. mgr. 6. gr. MSE. Gildi ákvæðisins við rannsókn sakamála hefur hins vegar verið eitt helsta þrætuepli dómara, fræðimanna og aðildarríkja sáttmálans síðustu ár. Enn í dag telja sumir fræðimenn og dómarar að sakborningar njóti lakari réttinda á rannsóknarstigi heldur en með réttu ætti að leiða af 6. gr. sáttmálans, til dæmis hvað varðar upplýsinga- og aðgangsrétt á meðan rannsókn máls stendur og hvað varðar réttarvernd gegn ólögmætum aðferðum við öflun sönnunargagna á rannsóknarstigi, þrátt fyrir hina rýmkandi skýringu dómstólsins.
    Í þessari ritgerð verður farið yfir þróun gildissviðs 6. gr. MSE á rannsóknarstigi sakamála. Fyrirmæli 1. og 3. mgr. 6. gr. verða sérstaklega til athugunar með hliðsjón af beitingu ákvæðanna á fyrstu stigum sakamáls í dómaframkvæmd MDE. Umfjöllunin byggist að meginstefnu til á dómaframkvæmd MDE en að auki er litið til fræðilegrar umræðu og gagnrýni á aðferðarfræði dómstólsins. Í ritgerðinni verður ekki leitast við að svara hvort íslensk lög og dómaframkvæmd sé í samræmi við skýringar MDE þar sem það er annað og sérstakt álitaefni. Íslenskur réttur verður hafður til hliðsjónar og skýringar, þegar það á við.
    Fyrsti hluti ritgerðarinnar snýr að gildissviði 6. gr. og á hvaða tímapunkti sakamáls ákvæðið byrjar að hafa réttaráhrif, þ.e. hvenær einstaklingur er borinn sökum samkvæmt dómaframkvæmd MDE. Í öðrum hluta ritgerðarinnar verður farið yfir helstu réttindi sakbornings sem tengjast rannsókn á fyrstu stigum sakamáls. Því verður svarað hvort, og þá að hvaða marki, sakaðir menn geta borið réttindi 6. gr. fyrir sig við rannsókn sakamáls í ljósi dómaframkvæmdar MDE. Í síðasta hluta ritgerðarinnar verður litið til þeirra aðferða sem lögregla beitir við rannsókn sakamáls til að afla sönnunargagna og hvernig tilteknar þvingunarráðstafanir geta skarast á við réttindi sakborninga samkvæmt 6. gr. MSE. Öflun sönnunargagna getur farið fram með beitingu ólögmætra þvingunarráðstafana sem skerða rétt sakbornings til réttlátrar málsmeðferðar auk annarra réttindi hans samkvæmt sáttmálanum, s.s. rétt til friðhelgi einkalífs og bann við pyndingum og ómannlegri eða vanvirðandi meðferð. Við þær aðstæður vakna álitamál um hvort heimilt sé að leggja gögnin fram fyrir dómi eða hvort útiloka eigi þau í ljósi kröfu 6. gr. um réttláta málsmeðferð. Farið verður yfir áhrif slíkra aðferða við rannsókn og mat MDE í því samhengi verður skoðað. Að lokum verða helstu niðurstöður reifaðar.

Samþykkt: 
  • 5.1.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20213


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Réttlát málsmeðferð á rannsóknarstigi sakamáls samkvæmt 6. gr. MSE final.pdf916.37 kBLokaður til...03.01.2050HeildartextiPDF