is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20706

Titill: 
  • Dómaframkvæmd í fíkniefnabrotum. Sjónarmið um þyngd refsinga
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Sjónarmið um refsingar og þyngd þeirra eru umdeild í samfélagi okkar. Þær eru hins vegar hlutur sem allir hafa skoðun á. Hvort sem rætt er um löggjafann, dómstóla, fræðimenn, almenning eða fjölmiðla eru viðhorf manna mismunandi en það gerir efnið einkar áhugavert og í senn mikilvægt.
    Yfirskrift ritgerðarinnar er dómaframkvæmd í fíkniefnabrotum. Ritgerðarefnið er svo afmarkað nánar þar sem reynt er að einskorða efnið við refsingar og þau fjölmörgu sjónarmið sem eru við lýði þegar kemur að því hlutverki að kveða á um þyngd refsinga. Meginmál ritgerðarinnar er skipt upp í þrjá þætti. Í fyrsta þætti ritgerðarinnar sem ber titilinn réttlæting refsinga og markmið, eru refsingar teknar fyrir og rýnt í þær og þá sérstaklega þann þátt sem lýtur að þyngd þeirra. Fjallað er um markmið refsinga og þær refsikenningar sem tengjast fíkniefnabrotum og hafa töluvert vægi þegar kemur að því að kveða á um viðurlög. Komið er inn á varnaðaráhrif refsinga í fíkniefnabrotum, hvort þau séu til staðar og að hversu miklu leyti þau nái markmiðum sínum.
    Í öðrum og jafnframt veigamesta þætti ritgerðarinnar er komið inn á ýmsar röksemdir varðandi það sem snýr að þungum refsingum fyrir fíkniefnabrot eftir að lagaþróun um ávana-og fíkniefni hefur verið rakin í stuttu máli. Sjónarmið fræðimanna varðandi þyngd refsinga eru tekin fyrir og borin saman ásamt því sem reynt er að leggja eigið mat að einhverju leyti á þau. Efnið er með pólitísku ívafi og er erfitt að véfengja sjónarmið sem fræðimenn hafa sett fram þrátt fyrir að það sé óhjákvæmilegt að hallast fremur að ákveðnum sjónarmiðum sem ætlunin er að reyna að styðja ennfremur með röksemdum. Í þessum þætti ritgerðarinnar er einnig komið að einhverju leyti inná hugmyndir afbrotafræðinga sem þeir hafa komist að með rannsóknum sínum. Löggjafinn hækkaði refsirammann fyrir meiriháttar fíkniefnabrot með lögum nr. 32/2001. Þetta var mjög umdeild hækkun þar sem hún bar mjög snöggt að og heyrðust háværar raddir í kjölfarið um að þessi framkvæmd hefði í raun verið óþörf. Fjallað er um þessa breytingu og tilkomu fíkniefnisins MDMA, en efnið er betur þekkt undir heitinu e-pillan í almennri umfjöllun. Fíkniefnið átti stórann þátt í því að lögunum var breytt og refsiramminn hækkaður. vikið verður að þeim hættueiginleikum sem einkennir efnið og þeim áhrifum sem e-pillan hafði á seinni dómaframkvæmd. Dómar bæði fyrir og eftir að hin nýju lög tóku gildi eru reifaðir ásamt því sem komið er inn á það hvort þungar refsingar séu raunhæf leið til þess að skapa friðþægingu og hafa áhrif til batnaðar fyrir samfélagið í heild sinni.
    Í þriðja þætti ritgerðarinnar er fjallað um þá áhrifaþætti sem dómstólar líta til þegar kemur að þyngd refsinga. Þessir áhrifaþættir eru magn, styrkleiki og hættueiginleikar efnis. Rýnt er í þessa þætti ásamt því sem dómar eru skoðaðir til stuðnings.

Athugasemdir: 
  • Óheimilt er að prenta ritgerðina eða afrita
Samþykkt: 
  • 23.3.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20706


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hjorleifur_Gislason.pdf601 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna