is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20868

Titill: 
  • Tengsl Aurora A kjarnalitunar við BRCA2 og meinafræðilega þætti brjóstakrabbameina
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein í konum á Íslandi og í heiminum öllum. Nýgengi brjósta-krabbameins hefur aukist síðustu áratugi en dánartíðni hefur lítið breyst á sama tíma, líklega vegna þess að sjúkdómurinn er greindur fyrr en áður og meðferðarúrræði eru betri. Til eru ýmis gen sem valda aukinni áhættu á brjóstakrabbameini séu þau stökkbreytt, en þau þekktustu eru BRCA1 og BRCA2 og valda þau svokölluðu ættlægu brjóstakrabbameini. Aurora kínasi A er einn af þremur meðlimum prótein fjölskyldu serín/threónín kínasa sem hafa allir hlutverkum að gegna í mítósu. Aurora A hefur hlutverkum að gegna í þroskun geislaskauta og myndun mítósuspólu, réttri röðun litninga í metafasa mítósu og í fasaskiptum fyrir og eftir mítósu. Sé prótenið stökkbreytt veldur það göllum í mítósuspólu, óeðlilegri mítósu og myndun frumna með óeðlilegt magn litninga. Sé próteinið hins vegar oftjáð veldur það aukinni áhættu á brjóstakrabbameini.
    Markmið rannsóknarinnar var að athuga tengsl Aurora A kjarnalitunar við arfgenga stökkbreytingu í BRCA2 geninu og við aðra meinafræðilega og einstaklingsbundna þætti brjóstakrabbameina. Meðal þátta sem voru skoðaðir voru aldur sjúklinga við greiningu og ár við greiningu, stærð æxlis, eitlaíferðir, æxlisgráða, tjáning estrógen viðtaka, tjáning Ki-67, DNA-index og S-fasa hlutfall auk flokkunar í luminal undirflokka. Að auki voru niðurstöður rannsóknarinnar bornar saman við niðurstöður birtrar rannsóknar á svipuðum þáttum og núverandi rannsókn en á öðrum rannsóknarhóp (Aradóttir et al., 2014).
    Framkvæmd var ónæmisfræðileg vefjalitun á 23 örvefjasneiðum sem innihéldu hver um 60-90 borkjarna en alls voru lituð 560 brjóstakrabbameins sýni. Litunin nýtti peroxídasa til að nema bindingu fyrsta stigs mótefnis gegn Aurora A. Öll glerin voru metin óháð af tveimur matsmönnum og loka einkunn hvers sýni var meðaltal af mati á matsmannanna tveggja á öllum kjörnum þess sýnis.
    Niðurstöðurnar sýndu tölfræðilega marktækt samband milli jákvæðrar Aurora A litunar og stakra tilfella brjóstakrabbameins (p=0,0151), flokkun í luminal A undirflokk og BRCA2 ættlægs brjósta-krabbameins (p=0,0114) og eldri sýna og BRCA2 bera (p<0,0001). Þegar skoðuð voru sambönd Aurora A við þætti brjósta-krabbameins fannst tölfræðilega marktækt samband milli jákvæðrar Aurora A kjarnalitunar og tjáningar estrógen viðtaka í stökum tilfellum (p=0,0025), engrar krabbameinsíferðar í eitlum í BRCA2 berum (p=0,0255), hærri gráðu í stökum tilfellum (p=0,0427), hárri tjáningu Ki-67 í stökum tilfellum (p=0,0030) og yngri sýnum sé allur hópurinn tekinn saman (p=0,0078). Annað en samband jákvæðrar Aurora A kjarnalitunar og stakra tilfella brjóstakrabbameina sýndi samsvarandi niðurstöður og í rannsókninni sem þessi var gjarnan borin saman við og studdi ýmsar kenningar sem voru settar fram þar s.s. um að jákvæð Aurora A kjarnalitun tengist þáttum sem segja til um verri lifun. Þetta var stutt af núverandi rannsókn með því að hér var jákvæð Aurora A litun tengd hærri tjáningu á Ki-67 í stökum tilfellum og minni líkum á eitlaíferðum í BRCA2 ættlægum tilfellum en þessir þættir voru tengdir verri lifun í lifunargreiningum framkvæmdum á gögnum hinnar rannsóknarinnar.
    Niðurstöðurnar sýna að Aurora A er að gegna hlutverki í brjóstakrabbameinsmyndun og er að hafa áhrif á aðra þætti og er því líklegt að gagnist vel við mat á horfum sjúklinga með brjóstakrabbamein og við ákvörðun á meðferð.

Samþykkt: 
  • 30.4.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20868


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ragnheiður Guðjónsdóttir.pdf1.23 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna