is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20995

Titill: 
  • Um arðgreiðslur samkvæmt skattalögum: Heimil og óheimil úthlutun verðmæta úr hluta- og einkahlutafélögum
  • Titill er á ensku Dividends: Allocation from public and private limited companies
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Efni ritgerðarinnar fellur undir svið félagaréttar og skattaréttar. Rannsóknarefnið er, eins og titill ritgerðarinnar gefur til kynna, þau álitaefni sem vakna við arðgreiðslur úr hluta- og einkahlutafélögum og skattalega meðferð þeirra, sér í lagi þegar þær fara fram í andstöðu við reglur félagaréttarins. Mikið hefur reynt á ólögmætar úthlutanir úr framangreindum félagaformum í framkvæmd og er tilgangur ritgerðarskrifanna að taka saman á einn stað þær reglur sem gilda um úthlutun verðmæta úr hluta- og einkahlutafélögum og hvernig skattlagningu þeirra er háttað hjá móttakanda verðmætanna.
    Í ljósi þess að hluthafar hluta- og einkahlutafélaga bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félagsins gilda strangar reglur um úthlutanir úr slíkum félögum. Sé farið á sveig við þær reglur við úthlutun af fjármunum félags hefur í framkvæmd verið talið að um ólögmæta úthlutun sé að ræða og er slík úthlutun skattlögð í hendi hluthafa, ýmist sem launatekjur eða gjöf. Framan af voru ólögmætar úthlutanir skattlagðar sem arður en með lögum nr. 133/2001, um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var horfið frá þeirri framkvæmd og hafið að skattleggja þær sem laun eða gjöf í hendi móttakanda. Við skrifin var sjónum beint að skattframkvæmd eftir framangreinda lagabreytingu. Farið er yfir þær tegundir úthlutana sem reynt hefur á í framkvæmd, hvernig skattlagningu þeirra var háttað og helstu viðbárur skattaðila í þeim efnum. Einnig er farið yfir þær tegundir úthlutana sem ekki hefur reynt á fyrir skattyfirvöldum og dómstólum og velt upp þeim álitaefnum sem upp geta komið í framtíðinni. Þá er farið yfir þær reglur sem gilda um form og efni ársreikninga og hvernig mismunandi reikningsskilaaðferðir geta haft áhrif í þessu samhengi enda eru upplýsingar í ársreikningi félags mikilvægar þegar meta á svigrúm til úthlutunar úr félagi.
    Í öðrum kafla er fjallað almennt um þær reglur sem gilda um úthlutun verðmæta úr hluta- og einkahlutafélögum samkvæmt lögum nr. 2/1995 um hlutafélög og lögum nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í þriðja kafla er fjallað stuttlega um heimildir félags til öflunar á eigin hlutum, en það er ein leið til að greiða af fjármunum félags til hluthafa þess. Samhengisins vegna er svo í fjórða kafla vikið að lögum nr. 3/2006, um ársreikninga og helstu reglur er varða efni þeirra skýrðar og jafnframt gerð grein fyrir mismunandi reikningsskilaaðferðum og hvernig þær geta haft áhrif á eigið fé félags. Í fimmta kafla er vikið að reglum laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Gerð er grein fyrir takmarkaðri og ótakmarkaðri skattskyldu og skattskyldum tekjum samkvæmt lögunum. Farið er yfir þróun lagaákvæða um skattalega meðferð arðsúthlutana og úrskurðarframkvæmd í gildistíð eldri laga eftir því sem við á. Í sjötta kafla er svo gerð grein fyrir gildandi rétti og samspili ákvæða ársreikningalaga og reglna félagaréttar og skattaréttar um úthlutanir verðmæta úr félögum og skattalega meðferð slíkra ráðstafana. Lögð er sérstök áhersla á nýlega úrskurði og dóma um efnið og niðurstöður túlkaðar og settar fram kerfisbundið eftir þeim álitaefnum sem uppi voru hverju sinni. Þá er einnig velt upp sjónarmiðum um möguleg álitaefni um úthlutanir úr hluta- og einkahlutafélögum sem enn hefur ekki reynt á fyrir skattyfirvöldum og dómstólum. Að lokum eru helstu niðurstöður dregnar saman í sjöunda kafla ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 5.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20995


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Um arðgreiðslur samkvæmt skattalögum.pdf869.56 kBLokaður til...31.12.2100HeildartextiPDF