is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/213

Titill: 
  • Þekking, nýting og aðgengi pólskra kvenna að íslenskri heilsugæsluþjónustu.
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Íslenskt samfélag hefur breyst hratt á undanförnum árum vegna mikillar fjölgunar innflytjenda. Þar sem minnihlutahópar finna mikið fyrir menningu meirihlutans og áhrifum hennar á líf þeirra þurfa hjúkrunarfræðingar á Íslandi í auknum mæli að taka tillit til og veita fjölmenningarlega hjúkrun. Hlutverk heilsugæslunnar er að sinna öllum þeim sem þangað leita, koma til móts við þarfir þeirra og óskir á þeirra forsendum eins og kostur er. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna þekkingu, nýtingu og aðgengi Pólverja að íslenskri heilsugæsluþjónustu en Pólverjar hafa lengi verið stærsti innflytjendahópurinn á Íslandi. Jafnframt var ákveðið að takmarka þýðið við konur þar sem þær nota heilbrigðisþjónustu meira en karlar. Megindleg aðferð varð fyrir valinu meðal annars vegna tungumálaörðugleika. Spurningalisti var saminn og hann síðan þýddur á pólsku. Persónuvernd var tilkynnt um rannsóknina en ekki þurfti leyfi frá Vísindasiðanefnd. Úrtak könnunarinnar voru 17 pólskar fiskverkakonur í tveimur fyrirtækjum á Suðurlandi. Haft var samband við konurnar á vinnustað þeirra og þær spurðar hvort þær vildu taka þátt. Allar konurnar sem leitað var til samþykktu þátttöku.
    Konurnar töldu sig almennt þekkja réttindi sín vel. Þær höfðu flestar nýtt sér þjónustu heilsugæslunnar og heilsugæslulæknis en færri höfðu nýtt sér þjónustu hjúkrunarfræðings og krabbameinsleitar. Hluti kvennanna hafði einnig nýtt sér mæðra- og ungbarnaeftirlit. Flestar konurnar töldu aðgang sinn að upplýsingum og heilsugæsluþjónustu fullnægjandi. Túlkaþjónustu virðist þó vera ábótavant og sérstaklega hjá heilsugæslulæknum. Starfsumhverfi reyndist vera stærsta óháða breytan sem tengdist þekkingu og aðgengi kvennanna. Samband var á milli barneigna og þekkingu, nýtingu og aðgengi kvennanna. Einnig virtist tungumálakunnátta maka tengjast þekkingu og aðgengi kvennanna.
    Niðurstöður könnunarinnar staðfesta þá ályktun rannsakenda að nauðsynlegt sé fyrir hjúkrunarfræðinga að taka tillit til menningalegs bakgrunns skjólstæðinga þeirra. Jafnframt virðast þær sýna að félagslegt umhverfi kvennanna tengist sterklega þekkingu, nýtingu og aðgengi kvennanna að íslenskri heilsugæsluþjónustu.

Samþykkt: 
  • 1.1.2007
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/213


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Þekking, nýting og aðgengi pólskra kvenna að íslenskri heilsugæsluþjónustu.pdf925.5 kBOpinnHeildarskráPDFSkoða/Opna