is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21721

Titill: 
  • Næmisþættir í endurteknu þunglyndi: Hugnæmi, heilabrot, vani og tengsl við áfallasögu
Útdráttur: 
  • Heilabrot (rumination) og hugnæmi (cognitive reactivity) eru næmisþættir fyrir endurkomu þunglyndis, samkvæmt hugrænum sálfræðikenningum. Nýlega var sett fram sú hugmynd að endurteknar vangaveltur um eigin vanlíðan, ókosti og galla (þ.e. heilabrot) megi líta á sem vanabundna hegðun, það er hugrænan vana (mental habit). Markmið þessarar rannsóknar var að skoða þátt hugnæmis, heilabrota og vanabundinnar hegðunar hjá fólki með þunglyndissögu borið saman við fólk með enga slíka sögu, og skoða tengsl þessara hugsmíða með hliðsjón af áfallasögu. Þátttakendur voru 51 háskólanemar, 26 með sögu um þunglyndi (tilraunahópur) og 25 með enga sögu um þunglyndi (samanburðarhópur) sem mættu til rannsakenda og svöruðu spurningalistum um bakgrunn, geðræn einkenni, tilhneigingu til vanabundinnar hegðunar og fyrri áföll, fóru í geðgreiningarviðtal (MINI) auk þess sem þeir leystu tvö verkefni sem mæla tilhneigingu til vanabundinnar svörunar og hugnæmi (aukningu í neikvæðum hugunarhætti í kjölfar aukinnar depurðar, sem einnig var metið með sjálfsmatsspurningalista). Niðurstöður sýndu að þátttakendur með sögu um þunglyndi skoruðu hærra á sjálfmatslistum sem mátu tilhneigingu til hugnæmis, heilabrota og vanabundinnar hegðunar. Marktæk fylgni var á milli heilabrota og hugnæmis, og einnig á milli heilabrota og vanabundinnar hegðunar í tilraunahóp, sem reyndist vera háð áfallasögu þátttakenda í þeim hópi. Vísbendingar eru því um að hugnæmi, heilabrot og hugrænn vani einkenni þá sem hafa sögu um þunglyndi. Einnig að heilabrot og hugnæmi séu tengdar hugsmíðar ef um sjálfsmatsmælingar er að ræða. Þessar niðurstöður styðja að hluta til þá hugmynd sem nýlega hefur verið sett fram, að líta megi á endurtekin heilabrot í þunglyndi sem hugræna vanabundna hegðun. Hugsanlegt er að slíkur vani tengist fyrri áfallasögu.

Samþykkt: 
  • 29.5.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21721


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lokaritgerð_Sigfríð_rafrænútgáfa.pdf675.14 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna