is Íslenska en English

Lokaverkefni

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Kandídatsritgerðir >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21842

Titill: 
  • Afdrif og líðan þolenda kynferðisofbeldis sem leitað hafa á Neyðarmóttöku Landspítalans árin 2010 til 2012
Útdráttur: 
  • Kynferðisofbeldi er samfélagsmein sem getur haft alvarlegar og víðtækar afleiðingar fyrir þolendur þess. Ein alvarlegasta langtíma afleiðing kynferðisofbeldis er áfallastreituröskun, (e. Posttraumatic stress disorder), en einnig geta þunglyndi og aðrar geðraskanir fylgt í kjölfarið. Markmið rannsóknarinnar var að skoða langtíma afdrif þolenda kynferðisofbeldis sem leituðu í kjölfarið á Neyðarmóttöku (NM) Landspítalans í Fossvogi. Áfallastreitueinkenni þolenda voru skoðuð og kannað hverjir hefðu náð bata 3-5 árum frá komu á NM. Kannað var hvort þjónustunýting og tegund þjónstuloka skipti máli fyrir áfallastreitueinkenni þolenda yfir tíma. Ásamt því var athugað hvort hjúskaparstaða, aldur, fyrri saga um áföll, félagslegur stuðningur og geðræn vandkvæði hefðu mögulega tengsl við geðræn einkenni, áfallastreitu-, þunglyndis- og kvíðaeinkenni, þolenda 3-5 árum frá broti. Rannsóknin var afturvirk ferilrannsókn (e. cohort study) án samanburðarhóps og voru þátttakendur 29 konur á aldrinum 13-35 ára sem komu til meðferðar á NM á árabilinu 2010-12. Rannsóknargögn voru annars vegar úr skýrslum í sjúkraskrá þar sem metin var staða og bakgrunnur þolenda við komu á Neyðarmóttökuna og hins vegar voru sendir spurningalistar vefrænt til þolenda til þess að meta stöðu þeirra nú, 3-5 árum síðar. Helstu niðurstöður voru að 55,6% þolenda höfðu einkenni sem mættu greiningarskilmerkjum áfallastreituröskunar nú þar sem 85,7% þolenda hafði einkenni sem mættu greiningarskilmerkjum við komu á Neyðarmóttökuna í kjölfar brots. Þolendur sem þáðu sálfræðiþjónustu á Neyðarmóttökunni voru með vægari áfallastreitu- og þunglyndiseinkenni 3-5 árum síðar að meðaltali en þeir sem nýttu hana ekki. Sama átti við um þolendur sem luku meðferð á Neyðarmóttökunni í samanburði við brottfallshóp. Neikvæð fylgni reyndist vera milli núverandi félagslegs stuðnings og áfallastreitueinkenna (r = 0,418), þunglyndiseinkenna (r = 0,457) og kvíðaeinkenna þolenda (r = 0,536) þegar rannsókn var gerð.
    Í helmingi tilfella glíma þolendur enn við áfallastreituröskun 3-5 árum frá komu á Neyðarmóttökuna sem er stærra hlutfall en búist var við. Mikilvægt er að meðferðaraðilar hvetji skjólstæðinga til að nýta meðferðarúrræði og veiti aðhald í meðferð. Einnig gæti mat á félagslegum stuðningi þolenda gefið til kynna hverjir þurfa helst á meðferð að halda í kjölfar kynferðisofbeldis.

Samþykkt: 
  • 2.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21842


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Auður Friðriksdóttir.pdf1.88 MBLokaður til...31.12.2135HeildartextiPDF