is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/21930

Titill: 
  • Þurfa börn sem koma á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins vegna kviðverkja frekari þjónustu Landspítalans til lengri tíma?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Rannsókn þessi er framhald af fyrri rannsókn á kviðverkjum barna á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins (BBH) sem gerð var árið 2011. Kviðverkir eru algengt vandamál hjá börnum og fjöldi bráðra og krónískra sjúkdóma getur valdið þeim. Algengt er að börn með kviðverki leiti endurtekið læknishjálpar vegna vandamálsins. Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hvort börn sem komu með kviðverki á BBH árið 2010 þurfi frekari þjónustu Landspítalans (LSH) til lengri tíma.
    Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra barna sem komu vegna kviðverkja á BBH árið 2010 og áttu að minnsta kosti eina endurkomu af einhverjum orsökum á rannsóknartímabilinu 2010 – 2015. Tekinn var saman listi yfir börn sem komu vegna kviðverkja árið 2010 og úr sjúklingabókhaldi LSH fengust upplýsingar um allar endurkomur þessara einstaklinga á rannsóknartímabilinu. Upplýsingar um aldur, kyn, komutíma og ICD-10 greininganúmer allra einstaklinga voru skráðar. Út frá ICD-10 greininganúmerum voru myndaðir greiningahópar og einstaklingar flokkaðir í viðeigandi hópa eftir sjúkdómsgreiningu.
    Niðurstöður: Af 1118 börnum sem komu með kviðverki á BBH árið 2010 áttu 947 (84,7%) þeirra endurkomur á rannsóknartímabilinu. Samtals voru endurkomur 7282. Stúlkur áttu 4551 (62,5%) endurkomur en drengir 2731 (37,5%). Ekki reyndist marktækur munur á endurkomufjölda drengja og stúlkna (p=0,109). Þegar á heildina er litið reyndist algengasta ástæða endurkomu vera greiningahópurinn „Einkenni, teikn og afbrigðilegar klínískar og eða rannsóknarniðurstöður sem ekki eru flokkuð annars staðar” (12,9%). Þar á eftir fylgdu „Meltingarfærasjúkdómar” (12,6%) og “Smitsjúkdómar og sníkjudýrasýkingar” (6,9%). Börn sem greindust með óskýrða kviðverkir árið 2010 voru 436 talsins, þar af áttu 369 þeirra (84,9%) endurkomu á rannsóknartímabilinu. Í ljós kom að þessi börn áttu flestar endurkomur á rannsóknartímabilinu (42,3%). Stúlkur voru marktækt eldri (p<0,001) og áttu marktækt fleiri endurkomur en drengir (p=0,017).
    Ályktanir: Börn sem koma á BBH vegna kviðverkja þurfa á áframhaldandi þjónustu LSH að halda. Mest er sjúkdómsbyrði óskýrðra kviðverkja en endurkomur barna sem greindust með óskýrða kviðverki árið 2010 voru 42,3% allra endurkoma á rannsóknartímabilinu. Ekki er óalgengt að börn sem greinast með óskýrða kviðverki fái sértæka sjúkdómsgreiningu við endurkomu. Mikilvægt er að komast að sértækri sjúkdómsgreiningu sem fyrst svo hægt sé að veita þessum börnum viðeigandi meðferð. Ljóst er að kviðverkir og greining þeirra er umfangsmikið vandamál og vonandi munu niðurstöður þessarar rannsóknar sýna fram á nauðsyn þess að efla þurfi greiningu barna með kviðverki.

Samþykkt: 
  • 9.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/21930


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
B.Sc Rannsóknarverkefni - Viðar Róbertsson.pdf2.73 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna