is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/22112

Titill: 
  • Skilyrt verkjastilling hjá vefjagigtarsjúklingum og heilbrigðum. Áhrif andlegra og líkamlegra þátta
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Sársauki er flókið fyrirbæri byggt á skynboðum frá sársaukanemum en einnig hafa ýmsir vitrænir og tilfinningalegir þættir áhrif á úrvinnslu sársaukaboða í heilanum. Heilinn hefur einnig áhrif á aðflæði sársaukaboða og getur magnað þau upp eða dempað eftir aðstæðum. Skilyrt verkjastilling (SVS) er dæmi um slíka dempun en hún felst í því að sársaukafullt áreiti á líkamshluta minnkar sársaukanæmi annars staðar á líkamanum. Rannsóknir hafa sýnt að virkni SVS er minni hjá þeim sem þjást af langvinnum verkjum, t.d. vegna vefjagigtar, en hjá heilbrigðum. Tilgangur rannsóknarinnar var að rannsaka SVS hjá íslenskum vefjagigtarsjúklingum miðað við heilbrigð viðmið og kanna hvort óvirka SVS mætti útskýra með líkamlegum eða andlegum þáttum.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin byggir á gögnum samstarfsrannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar, Þrautar ehf og fleiri aðila um erfðir langvinnra verkja. Að fengnu upplýstu samþykki fóru þátttakendur í ýmsar sársaukanæmismælingar, m.a. próf sem ætlað var að kanna SVS. Í því prófi er þrýstingsáreiti beitt á þumalfingursnögl víkjandi handar þátttakenda í 20 sekúndur án skilyrðandi áreitis og þeir beðnir um að gefa sársaukanum einkunn á bilinu 0-100 á VAS-kvarða (e. visual analog scale). Eftir skilgreinda hvíld er prófið endurtekið á sama hátt samhliða skilyrðandi áreiti þar sem hinni höndinni er dýft í 6-12°C kalt vatn. Þátttakendur voru einnig beðnir um að gefa sársaukanum sem kalda vatnið olli þeim einkunn. Í lok mælingar var tekin blóðprufa og þéttni nokkurra prótína í sermi þátttakenda mæld með ELISA-aðferð (brain derived neurotrophic factor (BDNF), C-reactive protein, interleukin-6, -8 og -10, interleukin-1ra). Þátttakendur svöruðu spurningalista um ástand sitt á prófdegi og svöruðu jafnframt ítarlegri spurningalista, m.a. um sjúkdómasögu, verki og félagslega stöðu. SVS var skilgreind sem virk ef sársaukinn minnkaði um a.m.k.10 stig á VAS-kvarða við innleiðingu kalda vatnsins en einnig var litið á muninn milli mælinganna tveggja sem magnbundinn eiginleika í tölfræðilegri úrvinnslu. Tölfræðileg úrvinnsla var gerð í Rstudio og SPSS.
    Niðurstöður: Þegar vinna að verkefninu hófst var stærð þess úrtaks sem lokið hafði SVS-prófi 240 manns; 139 vefjagigtarsjúklingar og 101 viðmið (eftir að þeir sem tekið höfðu verkjalyf innan við 12 klst fyrir prófið höfðu verið undanskildir). Samkvæmt spurningalistum höfðu rúm 20% viðmiðanna langvinna verki og fleiri gáfu sögu um verki seinustu þrjá mánuði. SVS var normaldreifð í úrtakinu. Ekki var marktækur munur á milli sjúklingahópsins og viðmiðanna hvað varðar virkni SVS, en 33,7 % viðmiða og 36,0 % vefjagigtarsjúklinga sýndu virka SVS (p = 0,96). Þá fundust engin marktæk tengsl þunglyndis, kvíða, streitu eða verkja s.l. viku við SVS. Línuleg aðhvarfsgreining á SVS leiddi í ljós að þeir þættir sem helst höfðu áhrif voru aldur þátttakenda (óvirkari SVS með hækkandi aldri), sársauki sem kuldaáreitið olli (hærri einkunn bætti virkni SVS) og einnig gætti nokkurrar fylgni milli þess að hafa verri SVS og hækkaðs styrks prótínsins BDNF (p = 0,019). Ef leiðrétt var fyrir aldri og sársaukaeinkunn tengdri vatnsskilyrðingu veiktust þó þessi tengsl.
    Ályktanir: Jafnt hlutfall þátttakenda með eðlilega SVS meðal sjúklinga og viðmiða kemur á óvart miðað við fyrri rannsóknir. Ekki er ólíklegt að um ákveðna þátttökuskekkju sé að ræða því líklegra er að fólk sem hefur áhuga á verkjum vegna eigin sjúkdóms eða sjúkdóms ættingja taki þátt. Þá var breytileiki í kuldaþoli einstaklinga mjög mikill, en þátttakendur gáfu kuldasársaukanum einkunn á bilinu 0-100, en þessi mikli breytileiki gæti haft truflandi áhrif. Áhugaverðar niðurstöður um tengsl BDNF við óvirka SVS eru rannsóknarefni framtíðarinnar.

Samþykkt: 
  • 22.6.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/22112


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Skilyrt verkjastilling hjá vefjagigtarsjúklingum og heilbrigðum.pdf1.15 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna