is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2285

Titill: 
  • Kvik mynd list: Tilraunakvikmyndir á Íslandi 1955-1985
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Tilraunakvikmyndir eru sú tegund kvikmynda sem alla jafnan fer hvað minnst fyrir
    enda er bæði markhópur þeirra smár og form þeirra slíkt að þær sjást sjaldan á
    opinberum vettvangi. Samhliða því hefur umfjöllun um tilraunakvikmyndir verið lítil
    og hafa þær, líkt og heimildarmyndir, að miklu leyti fallið í skuggann af leiknum
    kvikmyndum við ritun kvikmyndasögunnar. Markmið þessarar ritgerðar er að reyna
    að einhverju leyti að rétta hlut þessa flokks kvikmynda og skoða þátt þeirra í íslenskri
    kvikmyndasögu. Leytast er við að draga upp sem besta heildarmynd af framleiðslu og
    sýningum tilraunakvikmynda frá fyrstu sýningum þeirra á 6. áratugnum þar til helstu
    gróskunni í gerð þeirra lauk um miðjan 9. áratuginn, fremur en að túlka eða setja
    einstaka verk í sögulegt samhengi.
    Til þess að fá yfirlit yfir þessa sögu var ekki einungis nauðsynlegt að rannsaka
    hvaða kvikmyndir voru gerðar, höfunda þeirra og efnistök. Það reyndist einnig
    gagnlegt að skoða þá sýningarstaði sem sýndu tilraunakvikmyndir því þeir gegndu
    mikilvægu hlutverki í sögu þeirra á Íslandi. Tímarammi ritgerðarinnar miðar við
    fyrstu sýningar á tilraunakvikmyndum á Íslandi sem voru í júní árið 1955 á vegum
    kvikmyndaklúbbsins Filmíu, en það var litlu síðar sem fyrstu tilraunakvikmyndirnar
    voru svo gerðar á Íslandi. Árið 1985 reyndist svo ákjósanlegur endapunktur á þessu
    yfirliti þar sem það ár markar endann á þeirri grósku sem hafði þá verið í gerð
    tilraunakvikmynda í tæpan áratug en eru fyrir því einkum tvær ástæður; Í fyrsta lagi
    höfðu þeir myndlistarmenn sem gerðu tilraunakvikmyndir á 8 mm filmur lagt því
    formi og þess í stað tekið að nýta myndbönd til listsköpunar undir öðrum formerkum.
    Í annan stað frumsýndi Friðrik Þór Friðriksson Hringinn í mars árið 1985 sem
    reyndist vera seinasta tilraunakvikmynd hans, en hann hafði þá í áratug verið einn
    virkasti höfundur slíkra kvikmynda auk þess að hafa átt stóran þátt í sýningum
    tilraunakvikmynda með starfi sínu í Fjalakettinum og Gallerí Suðurgötu 7.
    Tímaramminn 1955-1985 markar því upphaf og endi á tímabili sem hófst með fyrstu
    sýningum tilraunakvikmynda hér á landi og endaði þegar flestir þeirra sem höfðu
    verið virkastir í gerð tilraunakvikmynda höfðu snúið sér að öðru eða tekið upp nýjan
    miðil. Það er erfitt að reiða hendur á hversu margar tilraunakvikmyndir voru gerðar á tímabilinu 1955-1985. Íslenskar tilraunakvikmyndir eru líklega mun fleiri en þær sem 4 hér verða taldar upp og ætla má að fleiri listamenn hafi gert verk sem teljast mætti til tilraunakvikmynda en heimildir geta. Engar skrár voru haldnar yfir hverjir eða hversu margir komu með kvikmyndir á opnar sýningar sem haldnar voru í Gallerí Suðurgötu 7 og Nýlistasafninu og er því engin leið að segja nákvæmlega til um umfang þeirra.
    Það voru ekki margir staðir þar sem hver sem er gat komið og sýnt kvikmyndir og því
    er líklegt að verkin á þessum sýningum hafi verið að ýmsum toga; leiknar stuttmyndir,
    heimildarmyndir, upptökur af gjörningum auk tilraunakvikmynda. Einnig gerðu
    margir nemenda Nýlistadeildar Myndlista- og handíðaskólans kvikmyndaverk í
    tilraunastíl sem engar skrár voru gerðar yfir. Flest þeirra verka voru þó aldrei sýnd
    utan skólans.
    Heimildir hafa að miklu leyti ráðið því hvaða kvikmyndir fá mest rými í
    þessari ritgerð. Þau fer óneitanlega meira fyrir þeim verkum sem aðgengileg eru til
    skoðunar eða mikið hefur verið skrifað um en öðrum lítt þekktari
    tilraunakvikmyndum. Það er þó ekki dómur um gæði þeirra eða mikilvægi, hvorki út
    frá listrænum sjónarmiðum eða í sögulegu tilliti. Þau verk sem mikið hefur verið
    fjallað um, t.d. kvikmyndir Friðriks Þórs Friðrikssonar, hafa þó hingað til gegnt stærra hlutverki í sögu íslenskra tilraunakvikmyndanna. Þar má sjá líkindi með sögu tilraunakvikmynda á heimsvísu þar sem flest þekktustu og mest ræddu verkin eru eftir þá höfunda sem áunnið hafa sér frægð á öðrum vettvangi.
    Enn sem komið er hefur lítið verið skrifað um tilraunakvikmyndir á Íslandi og
    var því nauðsynlegt að leita heimilda víða til þess að draga upp heillega mynd af sögu
    tilraunakvikmynda hér á landi. Til þess þurfti að tengja saman samtímaheimildir úr
    dagblöðum og sýningarskrám við munnlegar heimildir, þ.e. bréf og viðtöl höfundar
    við þá listamenn sem gerðu ilraunakvikmyndir. Kvikmyndirnar sjálfar voru að sjálfsögðu mikilvægar heimildir í þeim tilvikum þar sem því var við komið að skoða þær, en mikið af íslenskum tilraunakvikmyndum eru enn sem komið er óaðgengilegar eða taldar glataðar. Höfundar og ártöl kvikmynda koma fram í meginmáli þegar þeirra er fyrst getið í ritgerðinni og er þá sá háttur hafður á að þýða yfir á íslensku erlend heiti kvikmyndanna, fyrir utan þá titla sem eru á ensku.

Samþykkt: 
  • 28.4.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2285


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
list_fixed.pdf398.94 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna