is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/2293

Titill: 
  • Hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælingar á gjörgæsludeildum, lýsandi rannsókn
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Tilgangur þessarar lýsandi samanburðar rannsóknar er að meta tvö mælitæki, Nursing Activities Score (NAS) og aðlagað RAFAELA (sem samanstendur af aðlöguðu Oulu hjúkrunarþyngdarmælitæki og PAONCIL vinnuálagsmælitæki) og meta hvort þeirra hentar betur til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga á gjörgæsludeildum.
    Úrtak rannsóknarinnar var: 1) sjúklingar og 2) hjúkrunarfræðingar á tveimur gjörgæsludeildum Landspítala og fór gagnasöfnun rannsóknarinnar fram í janúar til febrúar 2009. Mælingar fólust í: 1) forprófun og áreiðanleikamati á þýddum NAS og aðlöguðu Oulu mælitækjum, 2) hjúkrunarþyngdar-mælingum á sjúklingum á gjörgæsludeildum Landspítala með NAS og aðlöguðu Oulu mælitækjum, 3) vinnuálagsmælingum með PAONCIL mælitækinu og 4) mati hjúkrunarfræðinga á NAS, aðlagaða Oulu, og PAONCIL mælitækjunum.
    Áreiðanleiki mælitækjanna var metinn í forprófun með samræmi svarenda og var samræmið 92% fyrir NAS og 78% fyrir aðlagaða Oulu mælitækið. Framkvæmdar voru 341 hjúkrunarþyngdarmælingar á 98 sjúklingum. Tölfræðilega marktæk meðalsterk jákvæð fylgni reyndist vera milli niðurstaðna úr NAS og aðlagaða Oulu mælitækinu, r(341)=0,72, p=0.000. Meðaltals niðurstaða mælinga með NAS mælitækinu var 73,6% (SD=24,2, miðgildi = 69%, möguleg niðurstaða 0-177%) og 13,9 stig með Oulu mælitækinu (SD=3,4, miðgildi 14, möguleg niðurstaða 6-24 stig). Hærra hlutfall eða stig gefur aukna hjúkrunarþyngd til kynna. Í mælingum með PAONCIL mælitækinu fengust 556 svör og var meðaltals stigun hjúkrunarfræðinga +0,50 (SD = 1,06, möguleg stigun -3 til +3 þar sem 0 þýðir ásættanlegt vinnuálag). Í 48,1% mælinga mátu hjúkrunarfræðingar vinnuálag sitt ásættanlegt og 42,4% frekar hátt til mjög hátt. Í mati hjúkrunarfræðinga á mælitækjunum sem notuð voru í rannsókninni kom fram að flestir eða 72% vilja að NAS mælitækið verði notað til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga á gjörgæsludeildum.
    Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að áreiðanleiki NAS mælitækisins sé meiri en aðlagaða Oulu mælitækisins. Samleitniréttmæti Oulu mælitækisins í samanburði við NAS er meðal sterkt og hjúkrunarfræðingar á gjörgæsludeildum kjósa frekar að NAS mælitækið verði notað til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga á gjörgæsludeildum Landspítalans. Því er talið heppilegra að nota NAS mælitækið til hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælinga á gjörgæsludeildum í framtíðinni.
    Lykilorð: gjörgæsluhjúkrun, gjörgæsludeild, hjúkrunarþyngd, hjúkrunarþyngdarmælingar, vinnuálag hjúkrunarfræðinga, vinnuálagsmælingar

Samþykkt: 
  • 29.4.2009
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/2293


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hjúkrunarþyngdar- og vinnuálagsmælingar á gjörgæsludeildum, lýsandi rannsókn.pdf5.09 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna