is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23023

Titill: 
  • Mat umsjónarkennara á yngsta stigi grunnskóla á þekkingu sinni á lestrarfræðum
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Samkvæmt niðurstöðum PISA árið 2012 voru íslenskir nemendur slakari en nemendur í nágrannalöndum okkar í lesskilningi við lok grunnskóla. Hlutfall þeirra sem ekki geta lesið sér til gagns hefur farið vaxandi hér á landi á árunum 2000-2012. Þeir sem koma að lestrarkennslu bera ábyrgð á því að við lok grunnskóla geti nemendur lesið af öryggi og skilningi. Markmið lestrarnáms er að öðlast lesskilning, en slíkur skilningur gerir lesanda kleift að leggja mat á og skilja inntak texta. Í Hvítbók mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að ein leið til aukins árangurs í lestrarkennslu sé að efla kunnáttu kennara í að greina og bregðast fljótt við lestrarvanda nemenda.
    Fagmennska kennara lýtur að viljanum til að gera betur og auka sífellt við þekkingu sína. Aukin þekking kennara á námsgreininni dýpkar skilning hans á viðfangsefninu sem skilar sér í skilvirkari kennslu. Lesskilningur og lesfimi eru afsprengi góðrar umskráningarfærni og málskilnings en þar að baki liggja fjölmargir áhrifaþættir sem krefjast mikillar þekkingar kennara.
    Viðfangsefni og markmið þessarar rannsóknar er að kanna hvert mat umsjónarkennara á yngsta stigi er á þekkingu sinni á lestrarfræðum. Beitt var megindlegri rannsóknaraðferð og stærð úrtaksins voru 244 starfandi umsjónarkennarar á yngsta stigi grunnskóla í öllum landshlutum. Þátttakendur svöruðu spurningalista á rafrænu formi sem innihélt 28 spurningar í formi lokaðra, hálfopinna og opinna spurninga.
    Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að kennarar sem útskrifuðust á síðustu 11 árum hlutu minni menntun í lestrarfræðum en þeir sem útskrifuðust fyrr. Meirihluti allra kennaranna taldi sig skorta þekkingu á lestrarfræðum, flestir á lesskilningi og lestrarerfiðleikum. Rúmur helmingur kennara taldi frekar erfitt að bregðast við lestrarvanda nemenda og tilgreindi í því sambandi oftast málþroskaröskun og umskráningarerfiðleika. Kennararnir mátu eigið öryggi í lestrarkennslu og í ljós kom að þeir sem hlutu menntun í lestrarfræðum í kennaranáminu töldu sig öruggari í lestrarkennslu en þeir sem enga menntun hlutu.
    Draga má þá ályktun af niðurstöðunum að á síðustu árum hafi dregið úr skylduáföngum í lestrarfræðum í kennaranáminu. Einnig má álykta að menntun í lestrarfræðum í kennaranáminu auki öryggi kennara í lestrarkennslu.

Samþykkt: 
  • 24.9.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23023


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Mat umsjónarkennara á yngsta stigi grunnskóla á þekkingu sinni á lestrarfræðum.pdf2.79 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna