is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23307

Titill: 
  • Áhrif IFRS 9 á afkomu og efnahag íslenskra banka. Mat á áhrifum þess að virðisrýrnun fjáreigna á afskrifuðu kostnaðarverði verður byggð á væntu útlánatapi í stað orðins útlánataps
  • Titill er á ensku The impact of IFRS 9 on the returns and financial assets of Icelandic banks
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Árið 2014 kom út lokaútgáfa nýs reikningsskilastaðals, IFRS 9 Fjármálagerningar. Félög sem staðallinn nær til eiga að nota hann frá fyrsta rekstrarári sem hefst á eða eftir 1. janúar 2018, með samanburði við næsta reikningsár á undan. Staðallinn verður þá að fullu kominn í stað forvera síns IAS 39 Fjármálagerningar: Skráning og mat.
    Meðal breytinga sem innleiddar verða með hinum nýja staðli er að virðisrýrnun fjáreigna á afskrifuðu kostnaðarverði mun verða metin út frá væntu útlánatapi í stað orðins útlánataps eins og gamli staðallinn kveður á um.
    Í þessari rannsókn er lagt mat á hugsanlega breytingu á fjárhæð virðisrýrnunar í framhaldi af þessari breytingu fyrir stóru íslensku bankana þrjá. Breytingin er metin út frá gögnum úr ársreikningum og stoðar 3 skýrslum bankanna fyrir reikningsárið 2014, niðurstöðum úr rannsókn Deloitte á væntum áhrifum af innleiðingu IFRS 9 hjá nokkrum fjölda alþjóðlegra banka og loks reiknilíkani höfundar sem leitast við að reikna vænt útlánatap og virðisrýrnun út frá sundurliðun á upplýsingum úr ársreikningum og stoðar 3 skýrslum.
    Höfundur telur ekki forsendur til að meta hver virðisrýrnun bankanna muni verða samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2018. Þess í stað er lagt mat á það hver uppsöfnuð virðisrýrnun hefði verið samkvæmt ársreikningum fyrir 2014 ef IFRS 9 hefði verið beitt við gerð þeirra. Þetta mat er svo borið saman við þá virðisrýrnun sem er tilgreind í ársreikningum fyrir 2014, þar sem hún er metin samkvæmt reglum IAS 39.
    Almennt er gengið út frá þeirri forsendu að tölfræðilíkön sem notuð eru til að reikna vænt útlánatap og lesa má úr ársreikningum og stoðar 3 skýrslum bankanna fyrir árið 2014 séu ásættanleg nálgun á þau tölfræðilíkön sem nota á samkvæmt IFRS 9 til að leggja mat á vænt útlánatap.
    Niðurstaðan bendir til að upphæð virðisrýrnunar hjá Arion banka og Íslandsbanka hefði verið um að bil 35% hærri árið 2014 ef IFRS 9 hefði verið beitt, sem samsvarar annars vegar tíu milljörðum króna og hins vegar sjö milljörðum króna, með samsvarandi eins skiptis lækkun á hagnaði fyrir skatta árið 2014.
    Hins vegar bendir niðurstaðan einnig til þess að fjárhæð virðisrýrnunar hjá Landsbankanum sé hugsanlega í hærra lagi samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2014 og að hefði virðisrýrnun verið reiknuð samkvæmt IFRS 9 hefði hún mögulega verið allt að 20% lægri en hún var samkvæmt ársreikningi. Þessi munur samsvarar um sjö til átta milljörðum króna.
    Mat bankanna á tölfræðilega metnum forsendum eins og tapshlutfalli að gefinni vanefnd og líkum á vanefnd eru meðal forsenda fyrir mati á væntu útlánatapi. Talsverður munur er á viðkomandi stærðum milli bankanna þriggja, sér í lagi tapshlutfalli að gefinni vanefnd. Mikilvægt er að bankarnir vandi sig sem aldrei fyrr við þróun líkana til að spá fyrir um þessar forsendur með tilkomu IFRS 9.
    Árshlutauppgjör bankanna fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2015 voru birt um það leyti sem höfundur var að leggja lokahönd á verkefnið. Þar koma fram áhugaverðar upplýsingar sem varpa ljósi á tiltölulega háa upphæð virðisrýrnunar hjá Landsbankanum. Einnig má þar sjá óvænta lækkun á virðisrýrnun hjá Íslandsbanka. Vegna þessa er bætt við einum undirkafla til að bregðast við nýjustu upplýsingum.

Athugasemdir: 
  • Hægt er að nálgast forsendur útreikninga og reiknilíkan til að meta breytingu á virðisrýrnun í meðfylgjandi skjölum.
    Umbrot texta miðast við tvíhliða prentun, einstaka blaðsíður með jafnt blaðsíðutal eru því auðar.
Samþykkt: 
  • 7.12.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23307


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Forsendur - úr ársreikningum fyrir 2014.zip227.44 kBOpinnFylgiskjölzip/xlsSkoða/Opna
Reiknilíkan virðisrýrnunar.zip22.43 kBOpinnReiknilíkanzip/sasSkoða/Opna
Áhrif IFRS 9 á afkomu og efnahag íslenskra banka.pdf1.71 MBOpinnMeginmálPDFSkoða/Opna