is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/23991

Titill: 
  • Brot gegn lögum um velferð dýra nr. 55/2013
  • Titill er á ensku Violations against the Act on Animal Welfare 2013 No. 55, 8. April
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Löggjöf um málefni sem varða vernd og velferð dýra hefur tekið stakkaskiptum á síðustu árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndum okkar. Löggjöfin hefur breyst í kjölfar vitundarvakningar um sjálfstæðan tilverurétt dýra. Dýr eru ekki lengur álitin einungis hlutir sem heyra undir eignarétt eigenda sinna heldur hefur sjálfstæður tilveruréttur þeirra verið viðurkenndur í löggjöf og má einmitt sjá þess stað í lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Sú löggjöf er meginumfjöllunarefni þessara skrifa. Þrátt fyrir að hugarfar hafi breyst að miklu leyti eru dýr ennþá undirorpin eignarétti fólks þó svo að meðferð þeirra hafi verið sett ákveðin takmörk með lögum. Þannig er sjálfstæður tilveruréttur dýra einungis viðurkenndur að því marki sem hann skarast ekki á við hagsmuni fólks. Því er gríðarlega mikilvægt að þær reglur sem settar hafa verið til þess að vernda dýr og huga að velferð þeirra séu skýrar og framkvæmdin á grundvelli laga og reglna skilvirk. Með nýju lögunum um velferð dýra var framkvæmd, miðað við eldri löggjöf í sama málaflokki, einfölduð svo um munar og færð undir hatt einnar stofnunar, þ.e. Matvælastofnunar. Efni þessarar ritgerðar er greining á lögum um velferð dýra frá 2013 og verður skoðað hvaða framfarir hafa náðst í málaflokkinum með bættri löggjöf, hvernig framkvæmdinni er háttað og hversu árangursrík hún er. Í kjölfarið verður kannað hvort enn sé svigrúm til bóta á annars ágætum lögum og reglum.
    Í 2. kafla ritgerðarinnar er fjallað almennt um hugmyndafræðilegan grundvöll að baki dýravernd og forsögu hennar. Farið er yfir hugmyndir og kenningar helstu fræðimanna allt frá tímum Forn-Grikkja og fram til forsprakka nútíma dýraverndar, sem hafa leitt þá hugmyndavinnu er liggur að baki bættri löggjöf á sviði dýravelferðar á Vesturlöndum. Þá eru helstu dómar Hæstaréttar á grundvelli eldri dýraverndarlöggjafar greindir og í lok kaflans er fjallað um dómaframkvæmd síðustu ára í Noregi. Dómaframkvæmd, úrskurðir og álit íslenskra eftirlitsstjórnvalda eru af skornum skammti og verður því stuðst við norska dómaframkvæmd, heimildir og lögskýringargögn eftir atvikum, en íslenska dýravelferðarlöggjöfin er byggð á þeirri norsku. Þó ekki sé hægt að draga ályktanir um íslenskan rétt af lestri og greiningu fyrrgreindra heimilda koma þær að góðum notum við skýringar og túlkun á íslensku lögunum og þeirri framkvæmd sem byggir á þeim. Í 3. kafla er gerð grein fyrir lögum um velferð dýra nr. 55/2013. Fyrst er fjallað um markmið laganna og hugtakanotkun. Þá er gildissvið þeirra afmarkað og að lokum fjallað um helstu nýmæli í löggjöfinni. Í 4. kafla er refsiverð háttsemi skilgreind og ítarlega farið yfir hvert þeirra ákvæða sem mæla fyrir um refsiverða háttsemi samkvæmt lögunum. Því næst er farið yfir mörk tilraunar og hlutdeildar og tekin dæmi sem sýna hvar þessi mörk geta legið. Ásetningsstigin eru útskýrð með dæmum tengdum lögunum og stuttlega farið yfir gáleysisábyrgð. Í 5. kafla er fjallað um aðbúnaðarreglugerðir dýra með hliðsjón af lögmætisreglunni og valdmörk ráðherra skoðuð. Umfjöllun kaflans er þungamiðja ritgerðarinnar ásamt 6. kafla sem fjallar um eftirlit með lögunum og miðast að mestu við skoðun á starfsemi Matvælastofnunar. Eftirlit með lögunum og eftirfylgni vegna alvarlegra brota gegn dýrum er tekin sérstaklega fyrir. Að lokinni þeirri umfjöllun er að endingu að finna lokaorð í 7. kafla ritgerðarinnar.

Samþykkt: 
  • 19.4.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/23991


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Meistararitgerð.pdf1.1 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing_Alexandra.pdf300.45 kBLokaðurYfirlýsingPDF