is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24045

Titill: 
  • Lífið gegnum smásjá augnabliksins. Rannsókn á upplifun og viðhorfi stjórnenda til núvitundar og mögulegrar hagnýtingar hennar í starfi og leik
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Hugmyndafræði núvitundar má rekja til hugleiðslutækni í Búddatrú allt að 2500 ár aftur í tímann en hugmyndin er sú að ástundun núvitundar bjóði upp á endalausa möguleika á að rækta dýpri nánd við eigin huga og tengjast og þróa eigin undirliggjandi auðlindir. Meðvitaður hugur er hamingjusamari, dýpri og eykur vellíðan, hann á auðveldara með að læra, vaxa, græða, hafa yfirsýn og sjá heildarmyndina. Sýnt hefur verið fram á að ástundun núvitundar ýti undir hæfni til ákvarðanatöku með því að skerpa hugann og styrkja tilfinningagreind og stuðla að aukinni samkennd, vellíðan og gleði. Eins bætir hún sköpunargáfu, afköst, velgengni og ánægju starfsmanna.
    Markmiðið er að skoða hvort núvitund hafi áhrif og sé hentugt verkfæri fyrir stjórnendur og hvort iðkun hennar geri þá hæfari til að takast á við sívaxandi hraða í viðskiptalífsinu. Athugað er hvert viðhorf stjórnenda sé til núvitundar, hvort aðferðafræðin gagnist þeim og hvort stjórnendur telji innleiðingu núvitundar mikilvæga fyrir lífsgæði þeirra, bæði í leik og starfi.
    Um var að ræða bæði megindlega og eigindlega rannsókn. Megindlega rannsóknin fól í sér spurningalista er lagður var fyrir stjórnendur sem voru á átta vikna MBSR núvitundarnámskeiði. Við eigindlegu rannsóknina voru rannsóknir og kenningar lagðar til grundvallar en ellefu hálf-opin viðtöl voru tekin við stjórnendur sem tekið höfðu þátt í átta vikna MBSR núvitundarnámskeiði. Viðtölin fóru fram sex til tólf mánuðum eftir námskeiðslok í von um að varpa ljósi á áhrif núvitundar á líf og starf stjórnenda að þessum tíma liðnum.
    Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að vinnutengd streita sé umfangsmikið vandamál meðal stjórnenda í íslensku atvinnulífi. Allir viðmælendur voru á sama máli um aukið álag, hraða, áreiti og yfirþyrmandi streitu á þeirra vinnustað sem þeir sögðu leiða af sér vanlíðan, kvíða og gremju í daglegu lífi. Með auknu áreiti skapast rafmagnað vinnuumhverfi og álagið tekur andlegan toll þar sem fólk getur stefnt í þrot og á á hættu að brenna út í starfi langt um aldur fram.
    Í niðurstöðum er að sjá umbreytingu á viðhorfi stjórnenda eftir námskeiðið en þeir nefna aukið jafnvægi, breytt viðhorf og meiri yfirsýn þar sem innri ró ríkir og athygli er virkari. Breytt hugarfar leyfir þeim að hugsa skýrt undir álagi og hafa meðvitaða stjórn á eigin viðbrögðum. Þeir búa nú yfir meðvitaðri og dýpri skilningi á sjálfum sér, öðrum og lífinu og eins eru þeir meðvitaðri um og færir um að bera kennsl á tilfinningar sínar og annarra. Stjórnendurnir eru færir um að taka stjórn á huganum og skynja sjálfan sig og lífið í vinsemd og sátt. Með núvitund stjórna þeir athyglinni og geta fylgst með huganum án þess að festast í hugsununum. Þeir segjast jákvæðari og meira hvetjandi sem geri þá hæfari í samskiptum og færari í að skera úr um ágreining undir álagi, af einbeitingu, yfirvegun og öryggi. Aukin tilfinningagreind eflir starfsánægju og starfsgleði, hún auðgar framleiðni og byggir traustara samband milli stjórnenda og starfsmanna. Stjórnendur virðast í auknum mæli vera að gera sér grein fyrir ástandinu og eru farnir að þreifa fyrir sér eftir nýjum verkfærum til betri stjórnunar í nýju vinnuumhverfi. Núvitund er kraftmikið verkfæri sem vert er að tileinka sér til öruggari stjórnunar og betra lífs. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um að núvitund hafi jákvæð og eflandi áhrif á líf og störf stjórnenda og starfsfólks.

Samþykkt: 
  • 29.4.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24045


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Lifid_gegnum_smasja_augnabliksins_heiti_lokaskjal.pdf1.47 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna