is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > B.A./B.Ed./B.S. verkefni - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24149

Titill: 
  • „Veldur hver á heldur.“ Forseti Íslands - sameiningartákn þjóðar eða virkur þátttakandi á stjórnmálavettvangi?
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Stjórnskipunarleg staða embættis forseta Íslands hefur lengi verið í brennidepli, einkum þó eftir að synjunarvaldi forseta var beitt í fyrsta skipti. Ýmsir telja stöðu embættisins í stjórnskipan landsins það óljósa að hún ráðist af þeim einstaklingi sem gegnir embættinu á hverjum tíma.
    Markmið þessarar ritgerðar er að svara því hvort stjórnskipan Íslands hafi þróast í átt til forsetaþingræðis á síðari árum og hvort pólitískt vægi embættisins hafi aukist? Sjónum verður beint að því hvort einstaklingurinn sem gegnir embættinu hafi það í hendi sér hvort hann sé virkur þátttakandi á stjórnmálavettvangi eða hlutlaust sameiningartákn hafið yfir dægurþras stjórnmálanna? Það er því áhugavert að kanna áhrif einstaklinganna sem gegnt hafa embættinu á þróun þess og verður sjónum beint að embættistíma Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar.
    Frá því Íslendingar fengu heimastjórn árið 1904 hefur þingræði verið hornsteinn íslenskrar stjórnskipunar. Þingræði felur það í sér að ríkisstjórn situr með stuðningi eða hlutleysi meirihluta Alþingis og embætti þjóðhöfðingja er skilgreint sem valdalítið og táknrænt embætti. Á áttunda áratug síðustu aldar kom franski fræðimaðurinn Maurice Duverger fram með kenningu sína um forsetaþingræði. Duverger nefnir þrjú skilyrði til þess að ríki geti talist búa við forsetaþingræði. Þau eru að forsetinn sé þjóðkjörinn, hann hafi umtalsverð völd og að ríkisstjórn, án forseta, sitji með hlutleysi eða stuðningi þingsins. Áhugavert er að leita svara við því hvort að stjórnskipan Íslands hafi þróast á þennan veg án þess að texta stjórnarskrárinnar hafi verið breytt.
    Til að svara þessum spurningum verður litið til kenninga um stjórnskipan lýðvelda. Stjórnarskrá Íslands í aðdraganda lýðveldisstofnunar verður í brennidepli og sjónum sérstaklega beint að málskotsrétti forseta og túlkunum fræðimanna á honum, saga forsetaembættisins verður einnig skoðuð og því velt upp hver séu verkefni forsetans. Sérstaklega verður fjallað um embættistíma Vigdísar Finnbogadóttur og Ólafs Ragnars Grímssonar. Einkum er litið til þeirra mála þar sem synjunarvald forseta kom við sögu en einnig er forsetatíð þeirra skoðuð út frá bakgrunni þeirra, hugmyndum þeirra um embættið og almennt út frá áherslum þeirra í embætti.

Samþykkt: 
  • 4.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24149


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BjörgKristjana_0405a.pdf633.54 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna