is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24384

Titill: 
  • Væntingabil í endurskoðun: Ábyrgð endurskoðandans varðandi sviksemi
Námsstig: 
  • Meistara
Efnisorð: 
Útdráttur: 
  • Markmið þessarar rannsóknar var að kortleggja stöðu á væntingabili í endurskoðun varðandi sviksemi hér á landi með hollenska rannsókn að fyrirmynd. Farið var yfir lögbundna skyldu endurskoðandans varðandi sviksemi sem og skyldur stjórnenda. Sá sem ber ábyrgðina á því að hafa bókhald og rekstur félaga í réttum horfum eru stjórnendur félagsins enda byggir endurskoðandi vinnu sína á því hvernig fyrirkomulag eftirlits er háttað í félaginu. Endurskoðandinn skal ávalt hafa í huga við endurskoðun að sviksemi geti átt sér stað í félaginu og haga vinnu sinni í samræmi við það. En það er ekki meginmarkmið með endurskoðun að koma upp um sviksemi heldur að gefa álit á því hvort reikningsskilin í heild séu áreiðanleg og sett fram í samræmi við lög og reglur.
    Væntingabili í endurskoðun er skipt í þrjá hluta. Það fyrsta er vegna ófullnægjandi frammistöðu endurskoðandans, þ.e. þegar endurskoðandinn uppfyllir ekki þær lögbundnu skyldur sem honum ber. Annar hlutinn er ófullnægjandi staðlar og/eða regluverk. Það er þegar reglur, lög og endurskoðunarstaðlar sem endurskoðandanum ber að fara eftir eru ekki að uppfylla þær væntingar sem notandi reikningsskilanna hefur. Það þriðja er vegna óraunhæfra væntinga notandans. Þá hefur hann væntingar um að endurskoðandinn uppfyllir skyldur eða ábyrgð sem ekki er raunhæft að hann geri eða væri einfaldlega of kostnaðarsamt.
    Rannsókn þessi var byggð upp að hollenskri fyrirmynd þar sem rannsakað var væntingabil í endurskoðun með tilliti til ábyrgð endurskoðandans í sviksemismálum. Þar í landi voru gerðar breytingar á fræðslustarfsemi til endurskoðenda og endurskoðendafyrirtækja vegna niðurstöðu hennar.
    Rannsóknin var framkvæmd með þeim hætti að spurningalistar voru sendir út til stjórnenda og endurskoðenda til að meta stöðuna á væntingabilinu varðandi sviksemi. Einnig var lagt upp með að hafa bankastarfsmenn með í úrtakinu en þeirra þátttöku var hafnað af bönkunum. Spurningakönnun var lögð fyrir stjórnendur og endurskoðendur skipt í eftirfarandi flokka:
     Hvað telst til sviksemi
     Alvarleiki brota
     Ábyrgð endurskoðandans á því að uppgötva og rannsaka sviksemi
     Tilkynningarskylda endurskoðenda
     Óhæði endurskoðenda
    Af þeim 34 spurningum sem lagðar voru fyrir stjórnendur og endurskoðendur mældist væntingabil vegna 15 þeirra. Væntingabil var skilgreint sem marktækur munur á svörum milli hópanna. Þær 15 spurningar sem mældust með væntingabil voru síðan flokkaðar eftir því hversu sammála stjórnendur voru um mikilvægi innihalds spurningarinnar og hversu hár munurinn á meðaltalinu hjá hópunum var. Þá voru fjórar spurningar sem mældust bæði með hátt væntingabil og stjórnendur sammála um mikilvægi þess. Þær spurningar voru vegna ábyrgðar endurskoðandans að uppgötva sviksemi og ábyrgðar endurskoðandans að tilkynna sviksemi. Bæði atriðin telja stjórnendur meira til ábyrgðar endurskoðandans en endurskoðendur. Niðurstöðurnar voru bornar saman við niðurstöður úr hollenskri rannsókn (Hassink o.fl., 2009) og niðurstaðan sú kom í ljós að þau væntingabil sem mældust hér á landi voru sambærileg og í Hollandi. Sérstaklega það sem varðar ábyrgð endurskoðandans að uppgötva sviksemi en vísbendingar um slíkt væntingabil hafa fundist í fleiri löndum. Eitt sem getur mögulega orðið til þess að minnka slíkt væntingabil er breyting á þeim endurskoðunarstöðlum sem endurskoðandinn ber að fara eftir. Í lok árs 2016 tekur í gildi nýjir og breyttir staðlar vegna áritunar endurskoðandans sem ætlað er að útskýra betur fyrir notendum reikningsskila hvað endurskoðun felur í sér og getur mögulega átt þátt í því að minnka þetta væntingabil.

Samþykkt: 
  • 10.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24384


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Erna.Aðalheiður.Karlsdóttir. M.Acc ritgerð..pdf832.53 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna