is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/24665

Titill: 
  • Krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum og lífhimnu á Íslandi 2005-2014
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Inngangur: Eggjastokkakrabbamein er það krabbamein í innri kynfærum kvenna sem dregur flestar konur til dauða. Einkenni þess eru oft lítil og óljós og greinist því meirihluti sjúklinga með útbreiddan sjúkdóm. Það getur verið af ýmsum vefjagerðum en algengust eru æxli af þekjufrumuuppruna. Horfur og meðferð krabbameins í eggjastokkum, eggjaleiðurum og lífhimnu eru þær sömu og benda nýlegar rannsóknir á meinmyndun þessara sjúkdóma til sameiginlegs uppruna. Voru þeir því teknir saman í þessari rannsókn. Eggjastokkakrabbamein hefur lítið verið rannsakað á Íslandi og var markmið þessarar rannsóknar að fá betri innsýn og yfirsýn yfir sjúkdóminn hérlendis sem og að kanna hvaða þættir hefðu áhrif á lifun sjúklinga.
    Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og náði til allra sjúklinga sem greindust með krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum eða lífhimnu á Íslandi á tímabilinu 2005-2014. Gögn yfir þá sjúklinga voru fengin frá Krabbameinsskrá og Landspítala. Klínískra upplýsinga var aflað úr sjúkraskrám, aðgerðarlýsingum, meinafræði-, blóð- og myndrannsóknum.
    Niðurstöður: Alls greindust 302 konur með krabbamein í eggjastokkum, eggjaleiðurum eða lífhimnu á árunum 2005-2014. Sjúklingar voru á aldrinum 19-98 ára en miðgildi var 63 ár. Stærstur hluti sjúklinga var með illkynja þekjufrumukrabbamein eða 222 sjúklingar (74%) en þar af greindust 133 (44%) með sermikrabbamein (e. serous carcinoma). 71 sjúklingur (23%) var með borderline þekjufrumuæxli og 9 (3%) með krabbamein af annarri vefjagerð. Aldur við greiningu var marktækt lægri hjá sjúklingum með borderline æxli en illkynja þekjufrumukrabbamein (miðaldur 55 og 66 ár). Alls greindust 112 sjúklingar á stigi I, 18 á stigi II, 128 á stigi III og 14 á stigi IV á tímabilinu. Stig var ekki þekkt í 30 tilfellum. 46% sjúklinga voru með meltingarfæraeinkenni við greiningu, 35% með þaninn kvið og 65% með verk eða óþægindi í kvið. Einungis 38 konur höfðu leitað til Erfðaráðgjafar en af þeim voru 15 BRCA-jákvæðar. 279 konur (92%) fóru í skurðaðgerð á innri kynfærum og þar af þurftu 28 einnig að gangast undir aðgerð á görn. Allan æxlisvöxt tókst að fjarlægja í 58% tilfella, lítill æxlisvöxtur var eftir í 10% tilfella og mikill í 32% tilfella. Lyfjameðferð fyrir aðgerð var gefin í 13 tilfellum (4%) en 193 konur (64%) fengu lyfjameðferð eftir aðgerð eða einungis lyfjameðferð. Af þeim 205 konum sem komust í sjúkdómsdvala (e. remission) eftir lyfjameðferð eða þurftu ekki á lyfjameðferð að halda eftir aðgerð fengu 117 endurkomu á rannsóknartímabilinu. Miðendurkomutími var 11 mánuðir. Af þeim 302 konum sem voru í rannsókninni lést 151 á tímabilinu. Þar af voru 52 með garnastíflu (e. ileus), 28 með stoma og 6 með heilameinvörp. Fimm ára lifun alls sjúklingahópsins var 52% (95% ÖB: 46-59). Stig og vefjagerð sjúkdóms sem og aldur sjúklings og magn æxlisvaxtar í lok aðgerðar höfðu sjálfstæð marktæk áhrif á lifun.
    Ályktun: Birtingarmynd sjúkdómsins á Íslandi er sambærileg því sem gerist erlendis. Hlutfall þekjufrumukrabbameins af heildarfjölda krabbameina er þó hærra hérlendis. Mikilvægi þess að fjarlægja allan æxlisvöxt í aðgerð var undirstrikað.

Samþykkt: 
  • 17.5.2016
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/24665


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Eggjastokkakrabbamein_Arna_Rut_Emilsdottir.pdf1.53 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna